Tekjuskattur

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 19:48:29 (6138)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[19:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem á að laga ýmislegt sem hefur komið í ljós að er ekki nægilega gott í efnahagslífi okkar. Ég vil taka það fram að ég styð þetta frumvarp mjög eindregið og hef lagt mig fram um að flýta afgreiðslu þess í hv. nefnd eins og hægt er. Það eru þó nokkur atriði sem ég skrifa undir með fyrirvara, það er aðallega eitt atriði og kannski annað sem skiptir minna máli, en það sem ég gerði athugasemd við varðar afdráttarskatta af vöxtum og vaxtagreiðslur úr landi. Þetta skiptir yfirleitt ekki máli þegar um er að ræða vexti sem greiddir eru til ríkis sem hefur gert tvísköttunarsamning við Ísland, svona yfirleitt ekki. En þó er hægt að sjá fyrir sér ýmiss konar dæmi þar sem vaxtagreiðslurnar eru notaðar til þess að greiða aðrar vaxtagreiðslur, röð af vaxtagreiðslum sem hafa mismunandi tímafaktor, þá er hægt að sjá fyrir sér að slík skattlagning geti verið mjög óréttlát.

Það sem vantar inn í frumvarpið er að geta um þær vaxtagreiðslur til ríkja sem ekki hefur verið gerður tvísköttunarsamningur við. Þar vil ég nefna nokkur ríki sem eru mjög veigamikil í uppsprettu fjár, þ.e. sem eiga mikla gjaldeyrisvarasjóði, eru rík. Þetta eru ríki sem hafa tekið aðra stefnu en íslenska þjóðin á undanförnum 20 til 30 árum, verið með stöðugan meiri útflutning en innflutning, stöðugt jákvæðan vöruskiptajöfnuð og viðskiptajöfnuð, andstætt við Íslendinga sem hafa löngum verið með neikvæðan vöruskiptajöfnuð og viðskiptajöfnuð. Þar vil ég t.d. nefna Japan sem ekki hefur verið gerður tvísköttunarsamningur við en á mikið af peningum, einnig Taívan og Arabaríkin. Þetta eru bara dæmi valin af handahófi, herra forseti. Það er ljóst að nú þegar sverfur að að fá lán í útlöndum fyrir íslensk fyrirtæki, banka og aðra — og ríkið, þurfa menn að leita þangað líka og þá gerist það að þessi skattgreiðsla hækkar vexti innlendra fyrirtækja vegna þess að það er ótrúlegt að íslensk fyrirtæki geti haft áhrif á markaðsvexti í Japan eða Taívan eða Arabaríkjunum, ég held að það sé alveg útilokað og því þurfa Íslendingar að borga skattinn. Þessi erlendu ríki vilja fá sína vexti og engar refjar og ef það er skattur á vextina borgast það af innlenda aðilanum. Það sem undirstrikar þetta ákvæði er það sem í 1. gr. stendur:

„Ákvæði þetta gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum …“

Það er sem sagt verið að undanskilja Seðlabankann þessum lögum sem segir manni það að ef það hefði engin áhrif þá þyrfti þess ekki en hann er samt undanskilinn.

Ég held ég sé þá búinn að nefna það sem ég hef helst haft athugasemdir við, þ.e. að þetta muni hækka vexti á þau fyrirtæki sem eru að leita að lánum í löndum sem ekki eru með tvísköttunarsamning.

Að öðru leyti þar sem eru tvísköttunarsamningar þá flyst eiginlega skattbyrðin eða skattgreiðslan til íslenska ríkisins — og það er í sjálfu sér jákvætt — frá hinu erlenda, og í sjálfu sér ekkert við því að segja og bara gott mál.

Þá er það CFC-löggjöfin sem mikið var rædd og er mjög nauðsynleg og ætti að auka gagnsæi í viðskiptum. Ég held, herra forseti, þegar maður lítur yfir sviðið og á það sem gerðist á Íslandi að meginmeinsemdin sé að koma í ljós núna. Það eru lánveitingar til eigenda, það er gagnkvæmt krosseignarhald og alls konar hringir sem menn bjuggu til í efnahagslífinu sem spóluðu upp eigið fé sem ekki var til, bjuggu til arð sem ekki var til, ekki var forsenda fyrir, og bjuggu til völd sem ekki áttu að vera til. Þetta er ekki íslenskt fyrirbæri, þetta er alþjóðlegt fyrirbæri, gagnkvæmt eignarhald er því miður um allan heim. Það sem gerðist hjá okkur var mjög öfgafullt og það var mjög mikið um þetta sem gerði það að verkum að atvinnulífið var mjög háð hvað öðru, fyrirtækin voru mjög háð hvert öðru, þegar eitt byrjaði að rúlla átti það í öðru sem líka rúllaði o.s.frv. þannig að keðjuverkunin var mjög mikil.

Til að vinna bug á þessu má í þessu sambandi nefna að ég hef flutt tillögu til þingsályktunar um nýja tegund af hlutafélögum sem eiga að heita gagnsæ hlutafélög. Þar er gert ráð fyrir því að slík félög megi ekki lána eigendum sínum eða kaupa hlut í þeim og þau mega ekki fjárfesta nema í gagnsæjum hlutafélögum og eiga að gefa upp allar sínar dætur eða dótturfélög og ef hlutafélag á í slíku gagnsæju hlutafélagi, sem ekki er gagnsætt, nýtur það hvorki arðs né atkvæðisréttar. Ég hygg að eftir mjög stuttan tíma með þannig hlutafélag mundi þetta form taka yfir markaðinn vegna þess að lánveitendur mundu treysta slíkum félögum miklu betur en þeim ógagnsæju sem eru í dag og fjárfestar mundu sömuleiðis treysta slíkum félögum miklu betur. Fyrirtæki sem ekki væru gagnsæ hlutafélög ættu þar með mjög erfitt uppdráttar og það með réttu, að mínu mati.

Ég held að það sem við þurfum að gera á næstunni — og sýn mín í því er alveg kristaltær — er að auka gagnsæi og heiðarleika í atvinnulífinu og það gerum við með því að skilgreina svona hlutafélög sem eru gagnsæ. En það þarf að gera meira, það þarf að koma í veg fyrir og rekja það sem er gert saknæmt. Það þarf að leggja áherslu á það eins og við höfum reyndar gert með sérstökum saksóknara og það þarf að fylgja því eftir og þó að það kosti mikið verðum við að leggja í þann kostnað því að það er í rauninni ákveðin hreinsun út úr kerfinu að fylgja eftir þeim lögbrotum sem hafa átt sér stað.

Síðan og ekki síst er kannski mikilvægast að læra af því sem gert var, t.d. mistökum sem eru í lagasetningunni. Ég fer ekkert ofan af því þó að ég hafi heyrt ávæning af því, og það hefur reyndar verið í umræðu í allan dag, að komið hafi skýrsla frá finnskum sérfræðingi sem segir að lagasetningin eigi ekki sök á hruninu, þá er ég ekki alveg sammála því. Ég held að lagasetningin eigi sína sök á hruninu en það er ekki séríslensk lagasetning, það er alþjóðleg lagasetning, Evrópulagasetning sem veldur því að fyrirtækin hrundu hér og eru að hrynja um allan heim. Það er vegna þessa gagnkvæma eignarhalds og lána til eigenda, þ.e. þar sem peningar fara í hring. Það er eitthvað sem þarf að berjast gegn. Ég sé þetta frumvarp sem lið í þeirri baráttu, sem lítinn lið reyndar en mjög mikilvægan og ég held að nýtt form, gagnsæ hlutafélög, mundi gera slíkt frumvarp óþarft.

Svo er eitt lítið mál sem er svona meira praktískt, það er það að menn gefi upp kennitölur þeirra sem hafa leitað ráðgjafar hjá þeim. Það má sjá fyrir sér að einhver ætlar að fara að gera eitthvað sem ekki má og hringir í ráðgjafarstofu þar sem sagt er: Ef ég veiti þér ráðgjöf þarf ég að gefa upp kennitöluna þína. Þá segir hinn: Nei heyrðu, það gengur ekki. Þá bara skreppa þeir upp í flugvél til London og ráðgjöfin á sér stað þar á hóteli einhvers staðar og … (Gripið fram í.) maður sér ekki alveg hvernig menn ætla að koma í veg fyrir það. Það er þá stofnað eitthvert lítið hlutafélag einhvers staðar úti í heimi sem sér um þetta. En það getur vel verið að menn séu ánægðir með þetta. Ég held að það sé í sjálfu sér ágætt að þetta sé gefið upp, menn eiga ekki að hafa neitt að fela í sambandi við þessi mál en ég bendi á bara þetta.

Að öðru leyti er flest jákvætt við þetta frumvarp nema þetta sem ég benti á með vextina sem kann að valda því að íslensk fyrirtæki þurfi að borga hærri vexti en ella, sérstaklega ef þau leita eftir fjármagni til landa sem ekki hafa gert tvísköttunarsamning við Ísland.