Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 20:42:01 (6145)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmundur Jónasson er ekki við en kannski verður hann kominn þegar við greiðum atkvæði um þetta að lokum þannig að hann geti fjallað um þetta, og ég mun þá inna hann eftir því ef ég man eftir því.

En ég vil benda á að hér er verið að veita afslátt sem ekki öll íslensk fyrirtæki fá, alls ekki. Ég veit ekki til þess að frystihús fái svona niðurfellingu á kostnaði eða bara hvaða fyrirtæki annað sem ég nefni fái niðurfellingu á kostnaði. Það eru nefnilega bara fyrirtæki í kvikmyndaiðnaði sem fá þessa niðurfellingu, bara þau, ekki hljómsveitir, ekki aðrir listamenn sem koma til landsins, þeir fá ekki þessa niðurfellingu. Með nákvæmlega sama hætti er hægt að segja að bara þau fyrirtæki sem eru í álvinnslu fái niðurfellingu og með sömu rökum, af því að álfyrirtækin búa til svo mikið af störfum og svo mikla veltu í kringum sig og skila þjóðhagslegum hagnaði fyrir þjóðfélagið, mætti sennilega dúndra tekjuskatti þeirra niður í núll og samt myndi íslenska ríkið græða á því að fá þau til landsins. Ég næ bara ekki þessum rökstuðningi þó að ég sé í sjálfu sér hlynntur þessu frumvarpi vegna þess hvernig staðan er í efnahagsmálum. En þetta er niðurgreiðsla til auðhringa, bandarískra auðhringa, á sama tíma og flokkur hv. þingmanns er að segja úti um allt að hann vilji auka skatta á íslenskt launafólk.