Aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði

Mánudaginn 30. mars 2009, kl. 20:48:42 (6148)


136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði.

43. mál
[20:48]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um úttekt á aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði.

Hv. félags- og tryggingamálanefnd fjallaði um málið og fékk umsagnir frá fjölmörgum hagsmunasamtökum.

Tillögunni er ætlað að fela félags- og tryggingamálaráðherra að gera úttekt á aðgengi í gömlu íbúðarhúsnæði með hag fatlaðra, aldraðra, barnafólks og annarra sem þarfnast bætts aðgengis, í huga. Á úttektin að vera gerð með það að leiðarljósi að þessum einstaklingum verði gert kleift að búa lengur í íbúðum sínum en nú er hægt eða festa kaup á hentugum íbúðum í eldra húsnæði.

Nefndin fagnar tillögunni enda mikilvægt að skapa öllum aðgengilegt samfélag og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem aldraðir og fatlaðir einstaklingar búa við. Nefndin áréttar mikilvægi þess að allir hafi jafnan rétt til þátttöku í daglegu lífi og til að velja búsvæði sitt eða búa áfram á heimili sínu, breytist aðstæður. Í þessu sambandi áréttar nefndin mikilvægi þess að reglur um aðgengi gildi jafnt í nýbyggingum sem eldra húsnæði þar sem því verður við komið. Þá telur nefndin mikilvægt að úttektin leiði til aðgerða og leggur því til að bætt verði við tillögugreinina að ráðherra skuli að lokinni úttekt leggja fyrir Alþingi tillögur til úrbóta á aðgengi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

Við tillögugreinina:

a. Orðin „mikilvægi þess að bæta“ falli brott.

b. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt verði ráðherra falið að leggja fyrir Alþingi tillögur til úrbóta.

Hv. þingmenn Ármann Kr. Ólafsson, Árni Johnsen og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þuríður Backman, Atli Gíslason, Helga Sigrún Harðardóttir og Kristinn H. Gunnarsson.