Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Þriðjudaginn 31. mars 2009, kl. 14:17:06 (6170)


136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[14:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég segi já við þessu eins og frumvarpinu í heild sinni en bendi á að hér er um að ræða skattasamkeppni milli landa sem sumir þingmenn Vinstri grænna hafa varað við, sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra. Hér er líka um að ræða undanþágu sem íslensk fyrirtæki fá ekki og mundu gjarnan vilja fá. Ég bendi á að svo verður náttúrlega reynt að fara fram hjá þessu með því að einhver ætlar að halda rokktónleika og af því að hann tekur þá upp er það kvikmyndagerð og þá fær hann niðurfellingu líka.

Svo er þetta auðvitað styrkur til auðhringa, eins og vitað er eru það auðhringar sem standa að kvikmyndagerð. Það er það sem Vinstri grænir eru að styrkja á sama tíma og þeir leggja til að auka skatta á almenning í landinu. Ég segi já af því að þetta er gott mál. [Hlátrasköll í þingsal.]