Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Þriðjudaginn 31. mars 2009, kl. 14:24:12 (6172)


136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við meðferð allsherjarnefndar á frumvarpi því sem varð að lögum í gær, um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., öðru nafni greiðsluaðlögunarfrumvarpinu, ræddi nefndin ítarlega hvort og að hvaða marki væri rétt að láta greiðsluaðlögun ná til veðlána. Ástæða umræðunnar var að í því frumvarpi var bráðabirgðaákvæði sem gerði ráð fyrir því að greiðsluaðlögun næði einnig til veðlána sem Íbúðalánasjóður og ríkisbankarnir hefðu veitt um tiltekinn tíma. Við meðferð málsins í nefndinni kom hins vegar fram að sérstök sjónarmið giltu að sumu leyti um veðkröfur og greiðsluaðlögun þeirra og þyrfti að svara því með öðrum hætti en um samningskröfur og því væri rétt að lagatextinn tæki með ótvíræðum hætti á þeim álitamálum sem sköpuðust ef veðkröfur féllu undir úrræði af þessum toga.

(Forseti (KHG): Forseti vill beina því til þingmanna að gefa ræðumanni betra tóm en honum heyrist vera í þingsalnum.)

Í umræðu nefndarinnar var m.a. litið til fordæmis í norskum lögum um greiðsluaðlögun þar sem greiðsluaðlögun tekur einnig til veðkrafna. Eftir umræður í nefndinni beindi ég því til dóms- og kirkjumálaráðuneytis og réttarfarsnefndar að leitað yrði leiða til að útfæra með fullnægjandi hætti almenna greiðsluaðlögun veðkrafna á þann veg að skuldsettu fólki í hóflegu húsnæði sem ekki réði við greiðslubyrði sína yrði gefið tækifæri til greiðsluaðlögunar án hefðbundinna nauðungarsölu- og gjaldþrotaúrræða. Með þessu móti næðist sá árangur að kröfuhafar héldu greiðsluflæði fyrir hluta áhvílandi skulda í stað þess að þurfa að afskrifa þær að fullu og öllu og mundu losna við kostnað af yfirtöku fullnustueigna. Skuldarar næðu með þessu úrræði að standa í skilum og forðast gjaldþrot. Ljóst væri að umtalsverður hluti skuldara væri í þeirri stöðu að skulda meira en sem næmi verðmæti eignar í yfirstandandi kreppu en úrræðið ætti einungis að taka til þeirra sem ekki hefðu greiðslugetu til að standa skil á skuldum. Það var því ekki ætlunin að þetta úrræði tæki til þeirra sem væru einungis með neikvæða eiginfjárstöðu, heldur væri skert greiðslugeta skilyrði fyrir því að þetta úrræði nýttist.

Í kjölfar þessa hófu dóms- og kirkjumálaráðuneytið og réttarfarsnefnd undirbúning þess frumvarps sem hér er lagt fram. Allsherjarnefnd samþykkti að leggja frumvarpið fram í meðferð fyrri greiðsluaðlögunar málsins, enda tilurð þess byggð á þeirri vinnu sem fram hafði farið á vettvangi nefndarinnar. Af þessu tilefni vek ég athygli á því að hér er um að ræða mjög óvenjulega aðferð við lagasetningu. Ég þakka sérstaklega dóms- og kirkjumálaráðuneyti og réttarfarsnefnd fyrir góða samvinnu við gerð þessa frumvarps. Það er mjög óvenjulegt að þingnefnd taki frumkvæði að lagasetningu með þessum hætti og slíkt reynir auðvitað á miðað við það kerfi sem við búum við í dag. Það kom auðvitað í ljós í þessari vinnu hversu vanbúið þingið er til að styðja við löggjafarfrumkvæði af hálfu nefnda að þessu leyti. Nefndin þurfti þar af leiðandi að reiða sig á ráðuneytið og réttarfarsnefnd við útfærslu málsins. Þetta er lexía sem við eigum að læra af fyrir þróun þingræðisins á næstu árum til að styrkja frekar getu þingnefnda til að flytja frumvarp að eigin frumkvæði.

Það er rétt að minna á það að á síðasta áratug, alveg frá 1995, hafa verið flutt frumvörp, fyrst af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem gerðu ráð fyrir að leidd yrðu í lög greiðsluaðlögunarúrræði. Var í flestum tilvikum gert ráð fyrir að það úrræði tæki einnig til veðlána að þessari norsku fyrirmynd. Í stuttu máli felst eðli úrræðisins í því að heimilt er að mæla fyrir um tímabundna greiðsluaðlögun greiðslna fasteigna á veðkröfum þegar skuldari getur sannanlega ekki nýtt sér önnur greiðsluerfiðleikaúrræði sem honum bjóðast. Er úrræðinu ætlað að vera tímabundið og getur staðið í allt að fimm ár. Það felst í því að skuldarinn getur leitað eftir tímabundinni greiðsluaðlögun vegna skulda sem hvíla á íbúðarhúsnæði því sem skuldari býr í. Skuldbindingarnar breytast þá með þeim hætti að gjalddögum þeirra skuldbindinga sem skuldari getur ekki greitt er frestað svo lengi sem greiðsluaðlögunin stendur. Í frumvarpinu er lögð til sú leið að greiðslubyrðin af verðtryggðum fasteignaveðkröfum verði tímabundið löguð að getu skuldara til greiðslu skuldanna en þó þannig að greiðslubyrði nemi að lágmarki fjárhæð hæfilegrar húsaleigu á almennum markaði fyrir þá fasteign sem um ræðir. Meðan á greiðsluaðlögunartímabili stendur falla því ekki dráttarvextir, vanskilagjöld eða innheimtukostnaður á veðkröfur, en vanskilaþáttur kröfunnar sem ekki fæst greiddur leggst við ógjaldfallinn höfuðstól kröfunnar. Á lánstíminn að lengjast sem því nemur til jafnlengdar þeim tíma sem greiðsluaðlögunin stendur.

Eins og ég rakti áðan tengist tilurð þessa úrræðis frumvarpinu um almenna greiðsluaðlögun. Það frumvarp sem hér er flutt mun vinna með því úrræði og verða því til fyllingar. Unnt er að sjá fyrir sér að hægt sé að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt báðum úrræðunum í senn eða leita eftir greiðsluaðlögun eftir hvoru um sig eftir aðstæðum skuldara. Þannig hljóðar hin almenna greiðsluaðlögun upp á aðlögun samningsskulda en þetta úrræði gæti átt við ef um er að ræða fólk sem einungis er í vandræðum vegna greiðslubyrði fasteignaveðlána en hefur samningsskuldir að öðru leyti í skilum. Þá er einnig líklegt að fólk verði í vandræðum með báða þætti á sama tíma og þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að hægt sé að leita eftir úrlausn með samningsveðkröfur og fasteignaveðkröfurnar á sama tíma.

Virðulegi forseti. Við núverandi aðstæður sjáum við að vaxandi fjöldi fólks á í vanda með greiðslubyrði fasteignaveðlána og það hlýtur að vera forgangsverkefni löggjafans að greiða fyrir því að fólk sem lendir í tímabundnum erfiðleikum við að láta enda ná saman lendi ekki í erfiðari stöðu en nauðsyn ber til við þær aðstæður sem nú eru uppi. Því er þetta úrræði hugsað sem nokkurs konar brú yfir erfiðasta tímabilið og hér er fyrst og fremst horft til greiðslugetu fólks og hvort það geti staðið undir greiðslubyrðinni. Margir verða nú annaðhvort fyrir tekjusamdrætti vegna atvinnuleysis eða minnkandi atvinnutekna sem geta í mörgum tilvikum grafið undan greiðslugetu fólks, jafnvel þótt það hafi ekki með nokkrum hætti stofnað til skulda með ámælisverðum hætti eða reist sér hurðarás um öxl. Það er mikið áfall fyrir fólk þegar, svo dæmi sé tekið, bæði hjón eru útivinnandi og í ágætlega launuðum störfum og annað missir vinnuna. Sú staða getur grafið undan greiðslugetu fjölskyldunnar. Þessu frumvarpi er ætlað að finna einfalda lausn á slíkri stöðu, veita ákveðið fyrirheit um stöðugleika út þann tíma sem greiðsluaðlögunin varir og fyrirheit um lausn að tímabilinu loknu.

Virðulegi forseti. Í 12. gr. frumvarpsins er fjallað um hvernig fara skuli með skuldastöðuna, stöðu veðskulda að loknu greiðsluaðlögunartímabilinu. Þar er gert ráð fyrir að skuldari geti óskað eftir því við lok tímabilsins, ef ljóst er að hann muni ekki um fyrirséða framtíð geta staðið í fullum skilum með greiðslu þeirra skulda sem tryggðar eru með veði í eigninni, að veðréttindum verði létt af eigninni umfram 110% af markaðsvirði eignarinnar. Hér er farið að norskri fyrirmynd, horft til verðmætis eignarinnar og bætt við 10 prósentustigum. Ástæðan er sú að úrræðið á ekki að leiða til óréttmætrar eignaaukningar á kostnað kröfuhafa en á móti er úrræðinu ætlað að greiða fyrir því að kröfuhafar horfist í augu við raunverulegt tap á kröfum sem engar horfur eru á að fáist greiddar. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér að við þessar aðstæður verði veðréttindum aflétt en krafan standi eftir sem áður sem samningskrafa á hendur skuldara. Við þær aðstæður er skuldara veittur sá kostur að leita eftir greiðsluaðlögun samningsskulda, þ.e. þeirra skulda sem umfram eru. Þá hefur veðum verið aflétt af eigninni sem eru umfram það sem eignin mun líklega standa undir til lengri tíma litið og skuldari getur þá fengið greiðsluaðlögun samningsskulda til að gera sér kleift að standa undir því sem hann raunverulega getur staðið undir til greiðslu samningsskulda að þessu tímabili loknu.

Grundvallarhugsunin í frumvarpinu er að halda aðskildum annars vegar greiðslum vegna samningsskulda og hins vegar greiðslum vegna veðskulda, enda er gengið út frá því í hinni almennu greiðsluaðlögun að þar sé reiknaður húsnæðiskostnaður skuldara sem tæki mið af eðlilegri húsaleigu miðað við fjölskyldustærð. Þess vegna er mikilvægt að það sé samfella í báðum þessum úrræðum. Markmið frumvarpsins er þá að að loknu þessu tímabili tímabundinnar greiðsluaðlögunar verði greiðslubyrði af fasteignahlutanum þannig að skuldari fái undir honum risið, það sem umfram standi teljist til samningsskulda og skuldari geti fengið þær skuldir aðlagaðar samkvæmt hinum almennu viðmiðum um greiðsluaðlögun samningsskulda sem felast í frumvarpinu sem við gerðum að lögum á Alþingi í gær.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara um þetta fleiri orðum en þakka þó í lokin fyrst og fremst allsherjarnefnd fyrir góða samvinnu í útfærslu þessa máls. Eins og ég rakti hefur oft verið rætt á vettvangi þingsins um þörf á greiðsluaðlögun veðskulda en aldrei hefur það mál komist á verulegan rekspöl. Það er sérstakt hróssefni að á þessum erfiðleikatímum skuli fulltrúar allra flokka í allsherjarnefnd hafa náð að lyfta sér yfir flokkspólitískar þrætur, koma þessu þjóðþrifamáli inn í þingið og ná fullri samstöðu um að leggja fram þetta frumvarp. Það boðar gott og er mikilvægt að þakka þessa samstöðu. Vonandi á frumvarpið greiða leið í gegnum þingið á næstu dögum og verður að lögum fyrir vikulok. Ég er þess sannfærður að fjöldi fólks bíður eftir að þetta úrræði verði að lögum og telur miklu varða að sjá úrræði sem þetta taka gildi. Því er rétt að ítreka óskir og vonir um að þingheimur sjái sér fært að afgreiða þetta mál hratt og örugglega í vikunni.