Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Þriðjudaginn 31. mars 2009, kl. 14:46:29 (6177)


136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:46]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Þau orðaskipti sem urðu hér áðan milli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og hv. þm. Árna Páls Árnasonar lýsa því úrræði sem um er að ræða. Þetta er nokkuð flókið úrræði þegar maður lýsir því fyrir fólki, þarna er um að ræða tæknilega hluti sem þarf að taka tillit til þegar við skoðum fullnusturéttarfarið.

Ef ég reyni að útskýra í stuttu máli hvað verið er að gera með greiðsluaðlögunarúrræðinu, hvort sem um er að ræða þetta úrræði eða frumvarpið sem nýlega varð að lögum, snýst það fyrst og fremst um að sjá hvað viðkomandi aðili getur borgað. Við byrjum eiginlega á öfugum enda þegar við skoðum þessi úrræði: Hvað getur viðkomandi aðili borgað? Hverjir eru tekjumöguleikar hans? Hverjar eru heimilistekjurnar? Hverjar eru skuldirnar? Við stillum okkur af miðað við ákveðna tölu sem talið er að viðkomandi geti innt af hendi á því tímabili sem úrræðið gildir. Þegar sú tala liggur fyrir er farið að stilla af gagnvart einstökum skuldum og þeim þáttum sem úrræðið þarf að taka til. Ég held að það sé grundvallaratriði sem við þurfum að hafa í huga þegar við skoðum þetta úrræði, það snýst fyrst og fremst um hvað viðkomandi getur innt af hendi.

Þetta mál er nokkuð merkilegt hér á þingi. Um er að ræða frumvarp sem varð til hjá allsherjarnefnd og er rétt sem fram kom hjá hv. þm. og framsögumanni, Árna Páli Árnasyni, að allsherjarnefnd var nokkur vandi á höndum þegar málið vaknaði innan nefndarinnar. Menn vildu bregðast við því frumvarpi sem þá lá fyrir nefndinni um almenna greiðsluaðlögun vegna þess að möguleikar þingsins til þess að setja af stað vinnu um lagafrumvörp eru ekki mjög styrkir. Þegar málið tók að þróast á vettvangi allsherjarnefndar var vilji til þess að tryggja að fasteignaveðlán yrðu hluti af þessu úrræði. Lá fyrir að ekki yrði hægt að hjálpa heimilunum öðruvísi en að taka mið af þeim gríðarlegu skuldum sem hvíla á fasteignum Íslendinga og reyndi allsherjarnefnd fyrst að móta sjálf tillögur í þá veru að bregðast við því.

Ég held að við þingmenn sameinumst um að efla þingið þegar kemur að svona málum svo að það þurfi ekki strax að snúa sér til framkvæmdarvaldsins um hvernig standa eigi að gerð þeirra. Við gerðum það í þessu tilviki, við leituðum til dómsmálaráðuneytisins með þann vanda sem við töldum liggja fyrir með ósk um að málið yrði skoðað á vettvangi dómsmálaráðuneytis og réttarfarsnefndar. Í samvinnu allsherjarnefndar, dómsmálaráðuneytis og réttarfarsnefndar varð málið til í þeim búningi sem það er í nú. Var eindreginn vilji allrar allsherjarnefndar, bæði fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna og þeirra sem eru í minni hluta, að standa að þessu máli þannig að ég held að hér sé mál sem við höfum verið að bíða eftir og við viljum öll styðja til þess að hjálpa fólkinu í landinu.

Úrræðið snýr fyrst og fremst að því að stilla af greiðslubyrði. Þetta er tímabundið úrræði til fimm ára og við erum búin að koma veðkröfunum í það form að þær eru orðnar samningskröfur eins og þessi hugmynd gengur út á. Við áttum okkur á því að þegar þeim tíma lýkur munu væntanlega margir af þeim sem úrræðið velja fara í almenna greiðsluaðlögunarúrræðið. Við sjáum því fyrir okkur að þær fjölskyldur eða þeir fasteignaeigendur sem munu velja þetta úrræði geta núna um nokkurt árabil leyst úr sínum málum.

Meðan sá valkostur er í gildi á þessu fimm ára tímabili hefur fasteignareigandinn ekki mjög mikið vald yfir því veði sem um er að tefla. Búið er að taka úr sambandi möguleika viðkomandi til að veðsetja eignina frekar en jafnframt er gengið frá því að ekki muni falla dráttarvextir eða aðrir vextir og kostnaður á kröfuna. Fasteignin verður heldur ekki tekin til uppboðsmeðferðar á meðan úrræðið býðst. Allar eðlilegar og venjulegar aðgerðir, þegar um er að ræða greiðsluerfiðleika, eru því teknar úr sambandi og í staðinn fyrir þær eru fjölskyldur settar í tímabundna meðferð, ef svo má segja, til þess að reyna að skapa möguleika fyrir það til að búa áfram í húsunum sínum og reyna að þessum tíma liðnum að ná vopnum sínum á ný. Það er mjög líklegt að þeir sem verða hvað harðast úti og eru með gríðarlega háar skuldir á fasteignum sínum — þeir hafa kannski verið fullbjartsýnir þegar þeir tóku lán og keyptu stórar eignir — séu sama fólkið og orðið hefur fyrir miklum tekjumissi og vandræðum á vinnumarkaði.

Í því sambandi er mjög áhugavert að fara yfir og velta fyrir sér þeirri vinnu sem nú fer fram hjá Seðlabankanum þar sem verið er að skoða hvernig skuldir heimilanna eru. Nú er starfshópur starfandi á vegum Seðlabankans sem reynir gera sér grein fyrir því hversu stór vandinn er. Við í allsherjarnefnd fengum fulltrúa Seðlabankans til okkar til nefndarinnar til að reyna að varpa ljósi á vandann vegna þess að það er svo erfitt að átta sig á því hversu umfangsmikill þessi vandi er. Við vitum í raun og veru ekki hversu margir þeir eru sem eiga í miklum vanda og þurfa að fara þessa leið. Við vitum ekki hversu margar fjölskyldur hafa slíkar skuldir á bakinu að ekki sé önnur leið til að bjarga þeim en að velja þetta úrræði.

Seðlabankinn hefur safnað gögnum til þess að gera sér grein fyrir stöðu mála. Hann hefur nú skilað tveimur bráðabirgðaniðurstöðum, fyrst upplýsingum um skuldir, bílaskuldir og alls kyns neysluskuldir og nú síðast, 27. mars, komu fleiri niðurstöður starfshóps Seðlabankans um skuldir heimilanna. Þá var verið að velta því fyrir sér hvernig dreifing húsnæðisskulda eftir eigna- og skuldahópum er háttað. Í framhaldinu ætlar Seðlabankinn að afla dulkóðaðra gagna um tekjur heimila að fengnu samþykki ríkisskattstjóra og þegar þau gögn liggja fyrir er hægt að gera sér enn frekar grein fyrir í hvaða stöðu þessir hópar eru.

Þær skuldbindingar sem Seðlabankinn hafði til hliðsjónar þegar verið var að skoða hversu stórir þessir hópar eru heildarfasteignaveðlánaskuldir í gagnagrunni sem samanstendur af gögnum frá Nýja Kaupþingi, Nýja Landsbankanum, Íslandsbanka, Íbúðalánasjóði, sparisjóðunum og öðrum minni fjármögnunarfyrirtækjum, en þær eru um 1.260 milljarðar kr. Fasteignaveðlán frá lífeyrissjóðunum eru ekki innifalin en þau gætu numið allt að 170 milljörðum kr. til viðbótar þannig að heildarhúsnæðisskuldir gætu verið um 1.530 milljarðar kr. Öll lán sem eru að baki þessu eru með veð í húsnæði sem skilgreind eru sem fasteignaveðlán. Þegar talað er um fasteignaveðlán í frumvarpi um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána er átt við öll lán sem tryggð eru með veði í fasteignum. Þetta eru ekki endilega lán sem eru tekin til kaupa á fasteignum, þau eru tryggð með veði í fasteignum.

Við vitum að á undanförnum árum var töluvert meira um að tekin væru annars konar lán út á fasteignaveð en við þekktum áður. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir því í þessu úrræði að annars konar veð séu tekin til grundvallar þarna. Ekki er um að ræða veðlán vegna frístundahúsa eða neins slíks, sumarbústaða eða annars sem er í skipulögðum frístundabyggðum, í þessu samhengi. Það er því alveg hægt að hugsa sér að sum þeirra heimila sem orðið hafa hvað verst úti hafi líka tekið lán vegna slíkra fjárfestinga en þá þarf fólk að leysa úr því sjálft.

Þegar maður horfir á dreifingu húsnæðisskulda eftir eigna- og skuldahópum hjá Seðlabankanum sýna niðurstöðurnar að heimili sem eiga mikinn húsnæðisauð, þ.e. stórar eignir, eru með hlutfallslega stóran hluta af heildarhúsnæðisskuldunum. Það sem mig grunar, án þess að vita það hreint út, og það sem við bíðum eftir að heyra um frá Seðlabankanum er að þeir sem eru með hæstu veðskuldirnar á stórum eignum séu fólk sem hefur tekið mikla áhættu. Ég óttast mjög að tekjurnar sem þar eru að baki séu ótryggar.

Stóru húsnæðisskuldirnar eru ekki bara í íslenskum krónum heldur er oft um að ræða erlend lán þannig að við komum alltaf aftur og aftur að því að það er mikill munur á þeim sem tóku lán í íslenskum krónum og þeim sem tóku lán í erlendri mynt. Þar er sá vandi sem við höfum talað um í vetur.

Tæplega þriðjungur húseigenda er með húsnæðiseign umfram 30 millj. kr. en sá hópur er með næstum helming allra húsnæðisskulda. Hins vegar eru 68% húseigenda með húsnæðiseign fyrir minna en 30 milljónir og er með rúman helming af því í húsnæðisskuldum. Þegar litið er til heimila með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði kemur í ljós að rúmlega 6% heimila í gagnagrunninum eru með um 5 milljónir í neikvæðri eiginfjárstöðu en eru með tæplega 20% af heildarhúsnæðisskuldum. Þetta eru tæplega fimm þúsund heimili og þau eru í afar erfiðri og viðkvæmri stöðu og í mikilli hættu á því að fara í þrot ef þau verða fyrir tekjumissi og ráða ekki við greiðslubyrðina. Hins vegar eru u.þ.b. 60% heimila með meira en 5 millj. kr í jákvæðri eiginfjárstöðu en eru þá með 44% af húsnæðisskuldum.

Ég held að þarna sé sá hópur sem við höfum hvað mestar áhyggjur af og við höfum rætt það í þinginu og reynt að slá á hversu fjölmennur sá hópur er. En þegar við horfum á þessar tölur blasir við að á meðan við gerum okkur ekki almennilega grein fyrir því hvernig tekjuhliðin er, er erfitt að gera sér grein fyrir hversu mikill vandinn er. Ég býst við því að þegar menn leita í þetta úrræði — ég á von á því að margir muni kanna hvort þessi úrræði henti þeim — munum við sjá sæmilega vel hversu víðtækur vandinn er.

Við höfum nú þegar samþykkt almenna greiðsluaðlögunarúrræðið þannig að væntanlega fáum við betri upplýsingar um það hvernig það hefur gengið þegar það fer að virka betur, en ég held að afar erfitt sé að gera sér grein fyrir því núna hversu mikill vandinn er.

Það var viðtal í Morgunblaðinu við hæstaréttarlögmann hér í bæ sem taldi að þingið vanmæti þörfina stórlega. Þar var um ákveðinn misskilning að ræða vegna þess að allsherjarnefnd hefur ekki gert sér fullkomlega grein fyrir því hversu mikill vandinn er, eins og ég hef sagt, en það er útilokað fyrir nokkurn að slá á hversu margir það verða. Við höfum þær upplýsingar ekki á takteinum, hvert okkar gæti haft einhverjar óljósar skoðanir en það er útilokað að við getum að óreyndu áttað okkur á því hversu mikill vandinn er.

Þetta úrræði felur í sér, eins og fram kom hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni, blandaða aðferð þar sem um er að ræða lengingu og síðan getur verið um einhverja niðurfellingu að ræða á einstaklingsbundnum grunni. Starfshópur Seðlabankans skoðaði nokkuð þær tvær tillögur sem verið hafa í umræðunni í þjóðfélaginu um hvernig hægt væri að bregðast við vanda heimilanna. Þá er annars vegar um að ræða 20% flatan niðurskurð á skuldum og hins vegar lækkun um 4 millj. kr. Það er áhugavert að lesa skoðun bankans á þessu. Ég skil auðvitað að bankinn er ekki í aðstöðu til þess að lýsa skoðun sinni, hann tekur enga pólitíska afstöðu til málsins heldur bendir á að það sé erfitt að átta sig á því hversu vel slík úrræði nýtast þegar við höfum ekki heildarmyndina.

Ég verð samt að segja að í þeim vanda sem við erum í er fásinna að slá slíkar hugmyndir út af borðinu og ræða þær ekki. Ég held að það sé skylda okkar fyrir heimilin í landinu, fólkið okkar, fjölskyldurnar, ungt barnafólk — maður sér fyrir sér fullt af ungu barnafólki sem í bjartsýni sinni tók lán fyrir of stórum íbúðum, fyrir endurbótum á íbúðum, en hefur nú jafnvel misst vinnuna og stendur frammi fyrir gríðarlegum vanda. Þetta fólk getur flúið úr landi, sem við getum ekki hugsað okkur að gerist. Við slíkar aðstæður verðum við öll að tala saman um þær hugmyndir sem geta hjálpað. Ég vil ekki vera svo örugg með mig að segja að þessi aðferðin sé ómöguleg og hin sé betri, sérstaklega ekki þegar við erum í raun ekki komin með neina almennilega mynd af því hvaða úrræði henta best.

Þetta vil ég segja vegna þess að hér í salnum áðan var rætt um 20% niðurfellingu á skuldum og ég held að almennt séð eigum við þingmenn að ræða þessa hluti: Hvað getum við gert til að hjálpa því fólki sem er nú svefnlaust af áhyggjum vegna skulda? Atvinnutækifærin eru ekki fyrir hendi og ef það er eitthvert verkefni sem við eigum að sinna hér á Alþingi er það þetta. Hér er komið mál sem er mjög gott innlegg í þá umræðu, þetta er mál sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur heils hugar á bak við.