Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 20:15:33 (6252)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég missti því miður af 2. umr. á dögunum en hér er á ferðinni mál sem er sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í að ræða og eiga tök á að styðja. Ég held að hér sé einmitt á ferðinni mál sem skiptir miklu máli við þær aðstæður sem eru á Íslandi um þessar mundir þar sem þeir aðilar sem muni geta komið inn í kvikmyndaiðnaðinn sem vonandi vex hér eru einmitt þeir sem hafa kannski minni möguleika til atvinnu akkúrat þessa dagana.

Ég er viss um að þessi hækkun á endurgreiðslu til að hvetja erlend kvikmyndafyrirtæki til að koma hingað og taka myndir mun skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. Við skulum ekki gleyma því að ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein, mikilvæg grein fyrir okkur, verulega gjaldeyrisskapandi og einmitt núna, þegar Ísland hefur skyndilega og mjög hratt orðið mun ódýrari viðkomustaður en áður var, nokkuð sem höfðum ekkert sérstaklega sóst eftir, eru enn þá meiri tækifæri til að reyna að kalla hingað verkefni sem henta vel á Íslandi þar sem saman fer atvinnusköpun, öflun gjaldeyristekna, verkefni sem harmónera vel við landið sjálft þar sem við auglýsum og kynnum okkar góða og fallega land, víðáttuna, okkar fallegu fossa og dali, einmitt mál sem er þannig að það kallar fram það skemmtilegasta og besta sem er að finna á Íslandi.

Þess vegna finnst mér þetta mál, þótt það láti lítið yfir sér við fyrstu sýn og frumvarpið sé einungis tvær greinar, ljómandi gott og í samræmi við þau mál sem Alþingi ætti núna að vera að fjalla um sem eru til þess fallin að skapa hér, eins og ég sagði áðan, auknar gjaldeyristekjur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessum lögum sem eru frá 1999 er breytt. Á árinu 2006 var lagt fram á þinginu frumvarp þar sem ætlunin var að endurgreiðslur eða ívilnanir yrðu færðar upp úr 12%. Í meðförum þingsins var það hækkað upp í 14% en reynslan hefur samt verið sú, og menn virðast vera sammála um það, að betur megi ef duga skal og það sé á það reynandi og æskilegt að hækka endurgreiðsluhlutfallið upp í 20%. Þá veltir maður auðvitað fyrir sér hvernig þetta samræmist reglum á Evrópska efnahagssvæðinu, hvernig þetta samræmist ríkisstyrkjareglum. Það er ágætlega gerð grein fyrir því í frumvarpinu að í EES-samningnum er undanþáguákvæði í 61.–63. gr. og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur litið svo á hvað kvikmyndaframleiðslu varðar að hægt sé að fara í slíkar endurgreiðslur. Nú vitum við að Noregur hefur um nokkurt skeið velt fyrir sér tilraunaverkefni af þessu tagi og eins og ég skil málið eru þeir að velta fyrir sér styrkjum sem yrðu þá 15% af þeim kostnaði sem til verður í Noregi. Mér er ekki kunnugt um að þetta verkefni sé farið af stað en áform eru uppi um það.

Á Írlandi hins vegar, því ESB-landi, er um að ræða 28% styrk eða endurgreiðslu af þeim útgjöldum sem þar skapast. Hefur það reynst nokkuð vel, a.m.k. virðist vera vaxandi ásókn í að taka kvikmyndir á Írlandi.

Hvatt hefur verið til þess á undanförnum árum og við höfum fengið töluvert af auglýsendum hingað til að taka auglýsingar. Við höfum séð ýmis alþjóðleg bílafyrirtæki hér uppi á fjöllum taka myndir af fínum sportbílum og við sjáum, þar sem við erum kannski stödd í útlöndum, allt í einu glitta í Herðubreið eða önnur falleg fjöll á Íslandi þannig að þar hefur verið vaxtarbroddur. Maður heyrir á þeim sem starfa í þeim greinum, auglýsendum, kvikmyndatökumönnum, leikurum, öllum þeim fjölmörgu aðilum sem koma að gerð einnar auglýsingar, að þarna er um að ræða vaxtarbrodd, frú forseti, sem sjálfsagt er að reyna að gera meira út á.

Við Íslendingar höfum yfirleitt verið frekar dugleg að leita okkur að tækifærum og finna leiðir til að afla okkur atvinnu og hvetja fólk til að gera ýmislegt hérna heima. Þegar saman fer sköpunin, náttúran og frumkvöðlamátturinn hefur oft gengið vel hér. Og í þessum efnum, þegar um er að ræða kvikmyndagerðarlistina held ég að þetta henti okkur alveg skínandi. Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig þetta er í öðrum löndum þar sem menn hafa styrkt slíka starfsemi eða verið með ívilnandi kerfi. Við skulum líta til Bandaríkjanna, við þurfum ekkert að fjölyrða um það að kvikmyndaiðnaður þar hefur um áratugaskeið staðið í miklum blóma en ekki hef ég nokkra trú á því að það hafi gerst af sjálfu sér. Auðvitað hafa menn sem hafa haft miklar hugmyndir, verið stórir í sniðum og tekið mikla áhættu komið að þessu en auðvitað hafa líka einstök fylki í Bandaríkjunum ýtt verulega undir til að gera þessa starfsemi sem öflugasta hjá sér. Það kemur líka fram í greinargerðinni að endurgreiðsluhlutfallið í Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og Nýfundnalandi sé á bilinu 15–55%. Það kemur raunar ekki fram og væri sannarlega áhugavert að heyra hvort það hefði komið fram í nefndinni hvar þetta 55% hlutfall er. Ég sá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, formann nefndarinnar, á göngunum áðan, ég veit ekki hvort hún heyrir til mín en það væri virkilega áhugavert að vita hvort það væri kannski í einstökum löndum og í hvaða löndum menn hafa gengið svona langt að vera með 55% endurgreiðslu á þeim kostnaði sem til fellur í viðkomandi landi.

Ég er viss um að þau okkar sem hafa áhuga á kvikmyndagerð og hafa fylgst með kvikmyndum hafa tekið eftir því að það er stöðugt vaxandi hópur kvikmynda sem er einmitt tekinn í þeim löndum, Nýja-Sjálandi og Nýfundnalandi. Börnin okkar hafa mörg hver horft á þær myndir sem eru hvað frægastar þegar kemur að þessu. Ég nefni hér Hringadróttinssögu sem hefur, má segja, skipt verulegu máli á Nýja-Sjálandi við það að kynna landið sem merkilegan ferðamannastað.

Þarna held ég að við Íslendingar gætum lært af Nýsjálendingum á þessu sviði og svo mörgum öðrum. Við höfum oft og tíðum litið til Nýja-Sjálands með ýmsa hluti og finnst mér mjög áhugavert að þeir skuli hafa gengið svona langt, bæði á Nýja-Sjálandi og Nýfundnalandi, í að laða til sín þessa starfsemi. Það er ekki endilega augljóst við fyrstu sýn að menn fari til Nýfundnalands að taka myndir og eflaust finnst mörgum það sama um Ísland, að það sé ekki augljóst að hingað muni menn leita. En það hafa menn gert.

Á undanförnum árum hafa menn komið hingað til að taka hluta úr myndum í okkar fallegu náttúru, á Jökulsárlóni og víðar uppi á fjöllum og jafnvel í Reykjavík, niðri í miðborg þótt okkur finnist mörgum hverjum mjög sérkennilegt að það sé sá staður sem gæti selt í þessu efni. Hann hefur samt sem áður gert það. Oft er glöggt gests augað og við þurfum að kalla hingað fólk til að velta fyrir sér hvort þessi staður uppi á Íslandi sé heppilegur í þessu efni.

Til þess að svo sé verðum við að leggja eitthvað af mörkum. Þarna er gerð tilraun til þess að fara í ívilnandi aðgerð með því að hækka þetta um 6 prósentustig. Sú lagasetning sem frumvarpið byggir á, frá 1999, virðist vera tímabundin aðgerð og þessi ívilnun eigi að falla úr gildi 31. desember árið 2011. Ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra, og þá alþingismenn sem hafa áhuga á þessu máli, til að fylgjast vel með hvernig málinu vindur fram og hvort á tímabilinu sé ástæða til að ganga enn lengra eða að framlengja lagasetninguna til þess að meiri reynsla komi á málið. Sannleikurinn er sá að þegar við förum í svona langtímaverkefni, frú forseti, eins og það að sækja sér ný verkefni út í hinn stóra heim tekur það ákveðinn tíma. Þolinmæðin skiptir öllu í því og við megum ekki vera of fljót að láta hlutina ganga til baka og þá jafnvel tapa þeim tækifærum sem kunna að hafa verið handan við hornið. Þarna skulum við velta fyrir því okkur hvort ástæða sé til að framlengja eða jafnvel ganga lengra og ég á von á að menn muni fylgjast vel með því, þeir aðilar sem í greininni starfa munu væntanlega þrýsta á að það verði gert og ég held að við stjórnmálamenn ættum að velta því fyrir okkur, vegna þess að við vitum að þarna er ekki farið á svig við neinar samkeppnisreglur að þarna sé vel á málum haldið.

Það kom fram í niðurstöðu nefndarálitsins að hv. þingmenn Björk Guðjónsdóttir, Herdís Þórðardóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafa haft fyrirvara á málinu og gerð hefur verið ágætlega grein fyrir þeim fyrirvara. Bæði gerði Björk Guðjónsdóttir grein fyrir honum áðan og eins var eitthvað um það rætt í aðdraganda málsins. Ég skil það þannig að fyrirvarinn hafi fyrst og fremst verið af því hvort þarna væri með einhverjum hætti aukin óeðlilega útgjöld ríkissjóðs, nokkuð sem við horfum núna mjög til að ekki megi gera of mikið af. Ég get ekki betur skilið en svo þegar maður skoðar umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að geri menn ráð fyrir því að tekjurnar af þessari starfsemi séu svo miklar að þær muni á tímabilinu vega upp á móti og vonandi skila þessu máli heilu í höfn með aukum tekjum.

Hvaða hópar munu græða og njóta góðs af því að fá fleiri verkefni af þessum toga? Við vitum að mörg þessara verkefna eru tímabundin verkefni. Það tekur tíma að koma þessu svo langt fram að það komi alltaf hvert verkefnið á fætur öðru þannig að núna erum við kannski meira að tala um akkorðsverkefni. Við erum að tala hér um alla leikarastéttina, kvikmyndagerðarmenn, alls konar leikstjóra af minni gerðinni — ég geri ráð fyrir að aðrir komi að utan — sminkur, við erum að tala um svo margt fólk sem að þessu kemur, fleiri hundruð manns. Það þarf að skaffa þessu fólki húsnæði, þetta styrkir hótelrekstur og gistihús, það þarf að skaffa bíla, það þarf allt að vera til staðar og við þurfum að tryggja að svo sé.

Ég held að fyrir ferðaþjónustuna skipti þetta verulega miklu máli. Víða um land er búið að byggja óskaplega vel upp ferðaþjónustu. Ég get nefnt t.d. Mývatn þar sem gríðarleg stórvirki hafa verið unnin í ferðaþjónustu á undanförnum árum. Varla er hægt að hugsa sér fegurri stað á Íslandi en Mývatn og þar hefði maður haldið að hægt væri að hvetja menn til að koma, frú forseti, og taka myndir af ýmsum toga. Þar eru komin jarðböð, alveg stórkostleg jarðböð. — Það þýðir ekkert að hlæja eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. — Það er ýmislegt þar sem gaman er að skoða. — Það þýðir ekkert að kalla fram í einhverja brandara og rugla mann í ríminu þegar maður er að segja frá þessu merkilega máli.

Ég vil bara ítreka það vegna þess að þetta hefur ekki verið rætt á fyrri stigum málsins. Ég ítreka að hér er um að ræða mál sem er verulega mikilvægt fyrir okkur núna. Um leið og við hvetjum til þess að við göngum fram með stór atvinnutækifæri fyrir þjóðina, um leið og við viljum sjá aukna áherslu á stærri mannfrek verkefni eru líka minni verk, verk sem virka kannski minni við fyrstu sýn, sem skipta feikilega miklu máli. Oft og tíðum er þar um að ræða greinar sem eiga nú verulega undir högg að sækja. Ég held að því miður sé það svo að einmitt á því sviði, hjá auglýsendum eða þeim sem starfa á auglýsingastofum og koma að gerð ýmiss konar auglýsinga, og leikstjórum hafi menn dregið verulega saman eftir að fór að kreppa að.

Við vitum ekki hvernig fer núna með innlenda kvikmyndagerð, ég vona svo sannarlega að hún muni ekki bera skarðan hlut frá borði í því kreppuástandi sem ríkir. Þá eigum við að sameinast um það hér að gera allt sem við getum til að ýta undir þessar greinar, passa upp á það fólk sem hefur atvinnu af þessu, passa líka upp á þessa menntun sem við höfum fjárfest svo mjög í þegar kemur að þessum hlutum. Við höfum á Íslandi fjárfest verulega í allri hönnun, Listaháskólinn stendur blómlegur sem aldrei fyrr, þessu megum við ekki glutra niður og einmitt núna er svo mikil hætta á að akkúrat það gerist þegar menn þurfa að horfa í hverja einustu krónu og eiga að horfa í hverja einustu krónu. Menn eiga að gera það en á sama tíma að passa sig að leita alltaf að nýjum tækifærum, nýjum verkefnum og ekki síst horfa til mála eins og þess máls sem hér er og styðja vel við það. (Forseti hringir.) Við sjálfstæðismenn munum styðja þetta mál.