Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 21:07:49 (6257)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[21:07]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Frú forseti. Það er auðvitað svolítið óvenjulegt að umræður séu brotnar upp, tekin fyrir önnur mál og farið í atkvæðagreiðslur í miðri umræðu um mál. Hins vegar ætla ég ekki að kvarta yfir því að það skuli vera gert að þessu sinni, sérstaklega þar sem mér sýnist það hafa leitt til þess að miklum mun fleiri þingmenn eru í salnum til að hlýða á mál mitt en annars hefði verið. (GMJ: Þeir fara út um leið og þú byrjar að tala.) Ég veit að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur ekki sérstakan smekk fyrir málflutningi mínum þannig að það getur vel verið að hann fari út. Það getur líka verið að það sé eins gott fyrir mig því að þá losna ég við hans eilífu frammíköll sem fræg eru orðin og reyndar farin að verða til hálfgerðs vansa eins og þau hafa verið upp á síðkastið. (Gripið fram í: Nei, nei.)

Ég reyndi, frú forseti, að tala um þetta mál á jákvæðum nótum. Ég held að þetta sé afskaplega jákvætt mál sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram. (Iðnrh.: Sem við studdum, ráðherrarnir.) Við höfum reyndar báðir, eins og kemur fram hjá hæstv. ráðherra, stutt málið í langan tíma. Ég hef farið yfir sögu þess þó að gera mætti það ítarlegar því að fleiri hv. þingmenn sem og hæstv. ráðherrar hafa komið að málinu og hægt væri að hafa um það talsvert langt mál. (GMJ: … þekkir málið.) Ég held að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hafi aldrei komið að þessu máli þannig að hann hefur ekki mikið til sögu málsins að leggja, a.m.k. ekki að þessu sinni, ekki nema hann vilji koma í ræðustólinn, halda ræðu og fara yfir málið þar og láta okkur, aðra hv. þingmenn, njóta þess á eðlilegan hátt að sitja í salnum, horfa á hann og hlusta þar sem hann tjáir sig úr ræðustólnum frekar en að tjá sig eilíft úr sæti sínu.

Reyndar var líka farið talsvert yfir umfang málsins, hvernig því hefur verið komið fyrir hjá okkur, einnig um umfang málsins annars staðar og um fyrirkomulag þess á öðrum vettvangi. Ýmis álitamál hafa komið upp í þessu samhengi og hefur verið fjallað ítarlega um það af öðrum hv. ræðumönnum í umræðunni og auðvitað um þær takmarkanir sem geta verið á því að beita reglum og ívilnunum af þessu tagi. Ýmislegt fleira hefur verið farið yfir.

Ljóst er af nefndarálitinu að mjög góð samstaða er um þetta, allir þeir sem eru á því eru málinu samþykkir. Þó voru tveir hv. þingmenn fjarverandi, hv. þm. Eygló Harðardóttir og títtnefndur hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Hann var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hann á sinn þátt í sögu þess en þann helst að hafa verið fjarverandi þegar málið var afgreitt, það er helsta tillegg hans til málsins.

Ég dreg þá ályktun, frú forseti, að sú samstaða sem kemur fram og sú umfjöllun sem hér hefur verið vísi öll í þá átt að um gott mál sé að ræða og það muni duga íslenskri kvikmyndagerð vel eins og það hefur reyndar gert í fortíðinni, á ákveðnum tímabilum þegar það var vel stillt af.

Það eru önnur atriði sem ég vil sérstaklega nefna, þ.e. að ég tel málið og það fyrirkomulag sem hér um ræðir skilgetið afkvæmi alþjóðavæðingarinnar. Við fjöllum um alþjóðlegan iðnað, kvikmyndaiðnaðinn, sem er virkur um nánast allan heim, hefur auðvitað mismikla virkni eftir löndum, en á þessu tímabili hinnar miklu alþjóðavæðingar hefur kvikmyndaiðnaðurinn breitt úr sér, fært sig land úr landi og lagt undir sig víðari lendur en áður var. Ég held að það sé fullkomlega rökrétt að tala þar af leiðandi um þetta mál sem skilgetið afkvæmi alþjóðavæðingarinnar því að það að svona mál skuli vera lagt fram leiðir af því hvernig málin hafa þróast og eins ýtir það undir frekari þróun og frekari alþjóðavæðingu þessa iðnaðar.

Í þessu tilfelli snýst málið í hnotskurn um skattasamkeppni. Það er samkeppni á milli landa um að skapa sem hagkvæmast skattumhverfi til að laða til sín starfsemina og ýta undir að starfsemin blómstri, dafni og aukist og verði umfangsmeiri, vindi upp á sig og skili þar af leiðandi meiru í kassann en annars hefði verið. Eins og kemur fram í nefndarálitinu koma þeir skattar sem afsláttur er veittur af eða felldir niður til baka og líkast til heldur meira en það sem hugsanlega má orða að hafi tapast. Þetta er jákvætt. Lægri skattar, minni skattlagning hefur þessi jákvæðu áhrif. Það er í samræmi við kenningar ýmissa hagfræðinga um að lágir skattar ýti undir hagkerfið, starfsemina, auki veltuna og auki á endanum skatttekjurnar í heild en að skatttekjur tapist í raun ekki.

Það sem er í þessu máli og gæti verið gagnrýnisvert er að hér er valin úr ein tiltekin atvinnugrein og skattar lækkaðir á henni en ekki öðrum atvinnugreinum sem vissulega gætu notið þessarar sömu ívilnunar og skilað sams konar ávinningi í formi meiri veltu, fleiri starfa og meiri skatttekna. Það verður hins vegar að segjast líka að rökin fyrir því að hægt sé að gera þetta í þessari atvinnugrein en hugsanlega ekki í öðrum atvinnugreinum geta falist í því að þessi alþjóðlega kvikmyndagerð, kvikmyndastarfsemi, er færanleg. Hér er um það að ræða að kvikmyndafyrirtækin og framleiðendurnir geta valið um það hvar þeir láta starfsemina fara fram. Þetta er tímabundin starfsemi sem notar færanlegan tækjabúnað, færanlega hluti, stundum hluti sem eru kannski eingöngu notaðir í þessu eina tilviki og þar af leiðandi er starfsemin ekki bundin við einhverja tiltekna starfsstöð. Þess vegna er hægt að færa rök fyrir því að hægt sé að gera þennan hlut þarna en ekki annars staðar. Í því felst samkeppnin, það er verið að draga starfsemina á tiltekið svæði tiltekins lands, eða tiltekins fylkis í tilfelli Bandaríkjanna, þar sem skattaívilnanir geta verið mismunandi hvað þetta varðar.

Ef við veltum aðeins fyrir okkur þeim áhrifum sem við töluðum um áðan um lægri skatta sem hefðu jákvæð áhrif hafa lægri skattar ekki bara þessi áhrif á færanlega starfsemi. Þessi áhrif eru líka á starfsemi sem er bundin tilteknum stöðum og það eru þau sömu jákvæðu áhrif sem lægri skattar, meiri velta og þá meiri skatttekjur hafa.

Ljóst er að við höfum á undanförnum árum verið í ákveðinni alþjóðlegri samkeppni hvað það varðar að skapa aðlaðandi skattumhverfi fyrir fyrirtæki þannig að þau vildu vera hjá okkur en ekki annars staðar, bæði til að laða fyrirtæki annars staðar að og eins, sem er ekki síður mikilvægt, að reyna eftir mætti að tryggja að fyrirtækin yrðu hjá okkur en færðu sig ekki í eitthvert jákvæðara skattumhverfi. Sú skattasamkeppni sem við höfum verið í og hefur leitt til þess að við höfum lækkað skatta hér á landi, bæði á einstaklinga og fyrirtæki, virðisaukaskatt og þar fram eftir götunum, nánast má nefna hvaða skatts sem er því við höfum leitast við að lækka þá, hefur verið mikið gagnrýnd, ekki síst af öðrum stjórnarflokknum í dag, Vinstri grænum. Hún hefur mikið verið gagnrýnd af þeirra hálfu og mikið gert úr því að við höfum ekki gætt að því að passa upp á skattstofnana. Staðreyndin er hins vegar sú að við höfðum svigrúm til að lækka skattana og ef eitthvað er, ég held að menn þurfi ekki að velta því mikið fyrir sér, hefur það leitt til þess að skatttekjurnar jukust vegna aðgerðanna sem við fórum út í. Það breytir engu um þótt við höfum síðan lent í ákveðnum erfiðleikum sem reyndar hafa gengið yfir heimsbyggðina alla en verið okkur þungbærari en flestum öðrum og breytt stöðu okkar.

Til að ná fram þeim jákvæðu áhrifum af því að lækka skatta á veltuna og síðan skatttekjurnar verður að vera til svigrúm til skattalækkana, annaðhvort í því að afgangur sé af ríkissjóði til að nota í skattalækkanir eða möguleikar til að skuldsetja tímabundið ríkissjóð til að ná fram þessum áhrifum. Jafnvel þótt staðan sé eins og hún er í okkar tilfelli í dag hér á landi, ekki mikið svigrúm til að lækka skatta vegna stöðunnar, er alveg ljóst að það að hækka skatta hefur neikvæð áhrif. Það er andstaðan við að lækka þá sem hefur jákvæð áhrif, eykur veltuna og skatttekjurnar, en það að hækka skattana hefur neikvæð áhrif á hagkerfið og veltuna og getur mjög líklega leitt til þess að skatttekjurnar lækki, þær verði minni en þær hefðu annars verið. (Gripið fram í: Þú hækkaðir …) Skattar voru lækkaðir í minni tíð sem fjármálaráðherra á hverju einasta ári. Á allan þorra almennings lækkuðu skattarnir, meira að segja um síðustu áramót lækkaði tekjuskattur á allan þorra almennings.

Það sem mér finnst vera merkilegt við þetta mál, sérstaklega merkilegt — þetta er kannski orðinn dálítið langur formáli að því að nefna það — er að núverandi ríkisstjórn skuli leggja fram þetta frumvarp til lækkunar skatta sem á að hafa jákvæð áhrif vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem skattalækkunin hefur. Mér finnst auðvitað jákvætt að það skuli vera gert en vildi óska þess að ríkisstjórnin drægi almennan lærdóm af frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra um það hvað hægt er að gera með því að lækka skatta og hvað ber að forðast í því að hækka skattana. Það hefur öfug áhrif að lækka þá, það er jákvætt að lækka skatta fyrir hagkerfið og fyrirtækin, það er neikvætt að hækka þá fyrir hagkerfið og fyrirtækin.