Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 21:23:02 (6259)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[21:23]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef marglýst því yfir að ég er mjög hlynntur þessu frumvarpi og tel að það sé bara af því góða. Ég kynnist því dálítið þegar Clint Eastwood var við kvikmyndagerð í Sandvík á Reykjanesi fyrir þrem, fjórum árum síðan að það var mikil innspýting á okkar svæði, þ.e. Suðurnesjasvæðið. Það sneri að hótelum, veitingastöðum, og svo voru margir sem höfðu af þessu annars konar atvinnu meðan á verkefninu stóð.

Það skiptir ekki aðeins máli fyrir þetta svæði að búnar séu til stórmyndir heldur líka auglýsingar. Það er mikið um það á Suðurnesjum að búnar séu til auglýsingar, t.d. í Bláa lóninu og víðar á okkar svæði.

Það er sorglegt til þess að vita að fyrrverandi fjármálaráðherra, sem er nú búinn að sigla íslensku skútunni í strand, orgar svo á strandstað og vælir yfir nánast öllu — hann hefur verið í málþófi af verstu tegund — fer að tala um að ekki megi mismuna í skattlagningu á Íslandi. Hvað með niðurgreiðslur í landbúnaði? Hvað með gjafakvótakerfið? (Gripið fram í: Hvað með sjómannaafsláttinn?) — Sjómannaafsláttinn og ríkisstyrkinn í íslenskum sjávarútvegi, þ.e. gjafakvótakerfið, að leyfa mönnum að afhenda öðrum fiskinn í sjónum ókeypis sem þeir geta svo leigt, selt og veðsett. Það er dapurlegt að horfa upp á svona í málþófi eins og sjálfstæðismenn eru í núna.