Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 21:26:27 (6261)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[21:26]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það var nú reyndar minnst á það í iðnaðarnefnd, þegar við lögðum til að þetta yrði samþykkt, að nefndarmenn þar gengju fyrir þegar valið yrði í hlutverk fyrir næstu kvikmynd sem taka ætti upp á svæðinu. En ekki voru nú allir sammála um hverjir ætti að vera í aðalhlutverkum og hverjir ættu að vera í aukahlutverkum. (ÁJ: Þú getur verið James Bond.)

Það væri nú létt verk fyrir mig, hv. þm. Árni Johnsen, að taka að mér hlutverk James Bonds ef hann kæmi hérna en ég ætla ekki að leggja það til núna. Ég nefni þetta bara af því að hv. þm. Árni Mathiesen talaði um að ekki mætti mismuna í skatti. Ég benti á að við gerum það nánast í hverri einustu atvinnugrein, varðandi raforkuverð til stóriðju og raforkuverð til garðyrkjubænda. Við mismunum meira og minna á öllum sviðum hvað skatta varðar.

(Gripið fram í.) Samkeppni milli atvinnuvega? Jú. Það er alveg rétt. En það er með ýmsum hætti sem ríkið og sveitarfélög og aðrir koma að fyrirtækjum og aðstoða þau.

Hv. þingmaður minntist á að ég hefði ekki verið í nefndinni. Það er ekki rétt. Ég er búinn að vera á öllum fundum í iðnaðarnefnd þegar þessi mál hafa verið tekin fyrir, að undanskildu einu skipti. Og það vill nú svo til að ég er í þremur nefndum og stundum eru nefndirnar að störfum á sama tíma. Svo þarf ég að mæta á aðra fundi sem tengjast þinginu sem (Gripið fram í: Þingflokksformaður.) þingflokksformaður. En ég er sammála þessu og skrifa upp á frumvarpið, ég styð eindregið að það verði gert að lögum.