Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 21:59:43 (6265)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[21:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum ansi merkt mál. Í anda þess að við sjálfstæðismenn höfum sagt að við styðjum ríkisstjórnina til allra góðra verka munum við standa með ríkisstjórninni í þessu máli. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 43/1999 þar sem um er að ræða tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til er ekki síst að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum, ekki síst Evrópuríkjunum, eins og segir í greinargerð. Verið er að leggja til eina breytingu á lögunum, þ.e. að endurgreiðsluhlutfallið hækki úr 14% í 20%. Ég styð þetta mál ekki síst á þeim grundvelli að um atvinnumál er að ræða og í árferði eins og nú er er mjög mikilvægt að við beitum öllum brögðum og nýtum öll tækifæri sem við mögulega höfum til að ýta undir atvinnusköpun. Eins og fyrr segir er verið að bæta samkeppnisstöðu íslenskrar kvikmyndagerðar, sjónvarpsþáttagerðar og auglýsingagerðar og er það mjög mikilvægt eins og staðan er í dag. Ef talað er sérstaklega um auglýsingagerð þá hefur hún dregist saman en það er því miður fylgifiskur þeirrar niðursveiflu sem við erum að fara í gegnum. Þess vegna er afar mikilvægt fyrir þá sem starfa í faginu að fá tækifæri til að ná í aukaverkefni til að halda sér við og til að geta haldið rekstri sínum í gangi.

Það er mjög mikilvægt í þeim bransa sem kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð er að hér séu samkeppnisfær skilyrði eða jafnvel betri en annars staðar gerist, en eins og komið hefur fram er þar mikil samkeppni á heimsvísu. Hv. þm. Árni Johnsen sem talaði á undan mér vildi eins og honum einum er lagið ganga lengra en frumvarpið leggur til og hækka endurgreiðsluhlutfallið í 25%. Það er að sjálfsögðu eitthvað sem mætti taka til skoðunar en ég fagna því skrefi sem tekið er að hækka það úr 14% í 20%.

Vegna þess að hér hefur verið talað um samkeppnisskilyrðin langar mig aðeins, með leyfi forseta, að lesa upp úr greinargerðinni sem gripið hefur verið niður í fyrr í umræðunni. Mér þykir rétt að við fáum heildarsamhengið og því ætla ég að lesa stuttan kafla sem varðar samkeppni og stöðu þessara mála í öðrum Evrópuríkjum. Í greinargerðinni á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Nokkur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa sett sér reglur um styrki vegna kvikmyndaframleiðslu. Reglurnar eru nokkuð mismunandi milli landa sem gerir samanburð erfiðan. Alþjóðasamtök kvikmyndamiðstöðva (AFCI) og einkafyrirtæki í Bretlandi hafa útbúið sérstakar vefsíður þar sem hægt er að gera samanburð milli landa til að auðvelda kvikmyndafyrirtækjum að velja heppilega tökustaði út frá ívilnunum.“

Á þessum upplýsingum sést að um mjög virka samkeppni er að ræða. Eins og hér hefur komið fram hefur Írland gengið einna lengst í þessum málum og segir í greinargerð að kvikmyndaverkefni á Írlandi geti öðlast styrk fyrir allt að 28% af útgjöldum sem stofnað hefur verið til á Írlandi að gefnu samþykki Evrópusambandsins og hafa Írar tryggt sér fyrirkomulagið til 2012. Þessi tímabundna ívilnun sem um er að ræða rennur út árið 2011, ef mig misminnir ekki. Þetta er því eitthvað sem við verðum að taka upp aftur væntanlega þegar því lýkur, þ.e. 31. desember 2011. Þetta skarast því að einhverju leyti.

Mikil samkeppni er í þessum geira og ef við ætlum að ná árangri og hvetja íslenska kvikmyndaframleiðslu til dáða þurfum við að vera með í þessu. Það er ekki bara að mikilvæg störf skapist við kvikmyndatökuna og vinnsluna sjálfa heldur er verið að flytja gífurlega mikilvæga þekkingu til landsins með þeim erlendu sérfræðingum sem koma hingað og vinna við þær erlendu kvikmyndir sem þessu máli er ætlað að laða hingað til lands. Sú þekking mun og hefur orðið til þess að bæta íslenska kvikmyndaiðnaðinn. Við sjáum það á þeirri miklu grósku sem hefur verið í íslenskri kvikmynda- og þáttagerð með nýjum íslenskum sakamálaþáttum á a.m.k. tveimur íslenskum sjónvarpsstöðvum og hafa verið sýndir að undanförnu. Við sjáum að þetta hefur þegar haft mikil áhrif á íslenska kvikmynda- og þáttagerð. Ég held að með því að hækka endurgreiðsluhlutfallið muni það einungis koma til með að bæta þetta allt til mikilla muna.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða tímabundnar endurgreiðslur og þær gilda til loka árs 2011. Frá því að þetta var tekið upp hefur verið endurgreiddur tæpur 1 milljarður af virðisaukaskatti, mismunandi mikið eftir árum. Ef litið er til upplýsinga sem liggja fyrir í greinargerð var áberandi mest greitt til baka árið 2005 eða 307 millj. kr. og lýsir því að stórar erlendar kvikmyndir voru teknar á því ári. Í kostnaðarmatinu sem fylgir frumvarpinu má sjá að verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að hækka þurfi fjárheimildir til endurgreiðslnanna um 32 millj. kr. á ári og segir hér að það hækki úr 125 millj. kr. í 157 millj. kr. Þetta er að vísu erfitt að áætla og alls óvíst hvert umfang kvikmyndagerðar verður og hversu miklar tekjur koma á móti. Að mínu mati eru þessi útgjöld réttlætanleg í ljósi þess að verið er að skapa störf, þarna koma miklar tekjur á móti og sem liður í atvinnusköpun og atvinnuuppbyggingu finnst mér þetta mjög mikilvægt.

Það má í raun bera þetta saman við annað frumvarp sem varð að lögum ekki alls fyrir löngu, sem undirbúningur var reyndar hafinn að í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, en það eru breytingar á lögum um virðisaukaskatt þar sem heimilað er að hækka endurgreiðslur á virðisaukaskatti í úr 60% í 100%, þegar um er að ræða viðhald og vinnu manna á byggingarstað við eigið íbúðarhúsnæði. Reyndar voru lögin, sem á endanum voru samþykkt, víkkuð talsvert meira út en lagt var til í upphafi og átti þetta m.a. við um frístundahús, framkvæmdir á vegum sveitarfélaga, hönnun arkitekta og fleiri framkvæmdir. Þessi tvö frumvörp eru sambærileg að því leyti að verið er að endurgreiða úr ríkissjóði með það að markmiði að hvetja til atvinnusköpunar. Eins og staðan er í dag eru svona verkefni ákaflega mikilvæg vegna þess að margt smátt gerir eitt stórt og vonandi leggjast þarna til nokkur störf sem mikilvægt er að skapa hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðu minni ekkert komið að því sem aðrir ræðumenn hafa lagt mikla áherslu á og það er það sem gerir Ísland að ákjósanlegum stað til að taka upp kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Það er ekki nóg að vera með endurgreiðslur á skattinum. Það er eitthvað annað sem laðar menn hingað til að upplifa og tek ég svo sannarlega undir með hv. þm. Árna Johnsen, sem talaði á undan mér, að birtan á Íslandi leikur þar stórt hlutverk. Ég hef oft sagt það við erlenda vini mína þegar þeir spyrja mig í hverju sérstaða Íslands felist að hún snúist um samspil ljóss og lita og skiptir ekki máli hvort um er að ræða fallega vetrarbirtu eða langa sumarnótt. Það er fátt sem keppir við íslenska birtu og sannarlega hef ég skilning á því að hingað til lands vilji kvikmyndatökumenn koma sem hafa næmt auga fyrir fegurð lands. Þeir fá sannarlega að upplifa fyrir allan peninginn sérstakar aðstæður sem við Íslendingar þekkjum svo vel.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er eitt af örfáum góðum málum sem minnihlutastjórnin, sem nú ríkir í landinu, leggur fram og því höfum við sjálfstæðismenn ákveðið að styðja við bakið á frumvarpinu og greiða fyrir því í gegnum þingið og það verði að lögum fljótlega.

Ég vil að lokum hvetja ríkisstjórnina til að fara yfir verkefnalistann, skoða verkefnalistann sem liggur fyrir og taka út sambærileg mál sem sannarlega geta orðið til að skapa hér störf og koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju og einbeita sér að þessum málum og hætta að eyða tímanum í önnur ómerkari mál sem hafa ekki neina þýðingu aðra en eyða tíma okkar og athygli og gera ekkert til að aðstoða heimilin og fyrirtækin í landinu við að koma sér út úr þeim vandræðum sem þau eru í núna.

Virðulegi forseti. Ég fer að ljúka máli mínu en ítreka hvatningu mína til hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar að leggja sig fram um að koma með þau mál sem geta skipt einhverju máli til uppbyggingar í þjóðfélaginu.