Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 22:14:05 (6266)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Einn helsti gallinn við þá ríkisstjórn sem nú starfar í landinu er sá að henni hefur ekki tekist að standa við stóru orðin um að slá skjaldborg um heimilin og fyrirtækin í landinu. Hún hefur verið verklítil, (Gripið fram í: Verklaus.) allt af því verklaus, og það má best sjá á þeirri dagskrá sem liggur fyrir þessum fundi. Við sjálfstæðismenn höfum sagt að við munum greiða fyrir öllum góðum málum sem gagnast heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Þegar maður dvelur við þá dagskrá sem liggur fyrir þessum fundi þá eru teljandi á fingrum annarrar handar frumvörp sem hafa eitthvað með málefni heimilanna og fyrirtækjanna í landinu að gera. Þau eru afar fá.

Hér eru reyndar mál eins og listamannalaun, náttúruverndaráætlun, frumvarp um visthönnun vöru sem notar orku, það er einnig áformað að ræða um skýrslu umboðsmanns Alþingis, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og svona ýmis dægurmál. Dægurmál sem þingmenn og ráðherrar sem fylgja núverandi ríkisstjórn hafa mikinn áhuga á að flytja sem væri kannski eðlilegt er ef þeir væru búnir að klára þau veigamiklu verkefni sem þeir stefndu að í upphafi þegar stofnað var til þessa ríkisstjórnarsamstarfs, þ.e. að koma heimilunum til bjargar, endurreisa bankakerfið og tryggja að hjól atvinnulífsins fari að snúast á nýjan leik.

Undantekningin frá þeirri meginreglu sem ég fór yfir er það mál sem við fjöllum um núna. Mál sem er mér mjög hjartfólgið og varðar breytingar á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Ríkisstjórnin getur hins vegar ekki gortað sig af þessu máli. Hún fylgir nefnilega í kjölfar þeirrar stefnumörkunar sem við sjálfstæðismenn í samstarfi við Framsóknarflokkinn lögðum upp með fyrir nokkrum árum, að taka upp endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Mig rekur minni til þess að þegar lögunum var breytt árið 2006, þegar endurgreiðsluhlutfallið var hækkað úr 12% í 14%, hafi þáverandi hv. þingmaður og formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, greitt atkvæði gegn þeirri breytingu. Af þeirri ástæðu er auðvitað merkilegt að sá hinn sami hv. þingmaður eða hæstv. ráðherra skuli núna standa að því að ganga lengra í endurgreiðslunum til kvikmyndagerðar og hækka hlutfallið úr 14% í 20%.

Ég leyfi mér hins vegar að fagna því og það gerum við sjálfstæðismenn eða að minnsta kosti langflestir, við fögnum því að endurgreiðsluhlutfallið sé hækkað. Ástæðan er sú að þetta mál er til þess fallið að laða til Íslands verkefni á sviði kvikmyndagerðar og kvikmyndaframleiðslu sem kvikmyndaiðnaðurinn þarf sárlega á að halda.

Þegar ég var formaður menntamálanefndar Alþingis á árunum 2004 eða 2005 til 2008 komu inn á mitt borð fjölmörg verkefni sem vörðuðu kvikmyndagerð og kvikmyndaiðnaðinn í landinu og þær menntastofnanir þar sem lögð er stund á kvikmyndagerð og ýmsar greinar því tengdar. Þá voru menn heldur upplitsdjarfari í kvikmyndaiðnaðinum en þeir eru nú. Það fann ég sem nefndarmaður eða fulltrúi í starfshópi sem menntamálaráðherra skipaði á haustdögum sem var ætlað að fjalla um auglýsingar á sjónvarpsmarkaði. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Ég verð var við að stjórnarliðar eru heldur órólegir og sitja órólegir undir ræðu minni en ég hyggst halda henni áfram engu að síður. (Gripið fram í: Þeir eru ekki margir.) Þeir eru reyndar örfáir hér í salnum en þeir ættu að fara varlega vegna þess að þeir átta sig kannski ekki á því í hvers konar stöðu kvikmyndaiðnaðurinn er í dag og allur sá fjöldi fólks sem starfar í þeirri grein. Það er alveg ljóst að verkefnum á sviði kvikmyndagerðar og kvikmyndaiðnaðar og auglýsingagerðar mun fara fækkandi, einfaldlega vegna fjárskorts. Af þeirri ástæðu er afar mikilvægt að grípa til aðgerða eins og við lögðum til að gert yrði árið 2006 og samþykkt var og verið er að gera núna.

Slíkar breytingar og ný verkefni á sviði kvikmyndagerðar varða ekki einungis kvikmyndagerðarmenn heldur stóran hóp manna, smiði, leikara, tæknimenn, klippara, alla þessa hópa (Gripið fram í: Klæðskera.) og jafnvel klæðskera eins og hér er kallað inn í. Í þessu máli kemur fram vilji til að stuðla að atvinnuuppbyggingu í landinu.

En úr því að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson heyrði ekki upphaf ræðu minnar þá lýsti ég því yfir að þegar maður fer yfir dagskrá fundarins eins og hún liggur fyrir þá er þetta líklega eina málið á dagskránni sem er til þess fallið að auka atvinnusköpun á Íslandi. Hv. þingmaður getur hugsanlega fundið eitt eða tvö önnur mál af þeim 21 sem eru á dagskrá en þau eru sárafá. Það er vandinn við þessa ríkisstjórn, hún hrúgar inn alls kyns málum á dagskrá þingsins sem hafa ekkert með vandamál samfélagsins að gera. Ekki nokkurn skapaðan hlut. En ríkisstjórnin getur ekki gortað sig af því að hafa átt frumkvæði að þessu máli því eins og ég sagði áðan og hæstv. fjármálaráðherra sem nú er genginn í salinn heyrði mig segja, þá á þetta mál auðvitað rætur sínar að rekja til ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að. (Fjmrh.: Viltu ekki segja það aftur?) Nei, ég ætla ekki að segja það aftur.

En ég ætla að koma að öðru vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur belgt sig nokkuð út í fjölmiðlum á síðustu vikum. (Gripið fram í.) Hann hefur greint frá áformum — (Gripið fram í.) Nú verð ég að biðja (Forseti hringir.) hv. þm. Lúðvík Bergvinsson um að hafa sig hægan, getur hæstv. forseti beðið hv. þingmann um að hafa sig hægan svo ég geti haldið hérna áfram ræðu minni?

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmann um að halda áfram ræðunni og aðra þingmenn að gefa honum hljóð.) (Gripið fram í.)

Þakka þér fyrir það, frú forseti. Ég ætla að víkja að öðrum þætti þessa máls úr því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn (Gripið fram í: Tilvonandi.) og tilvonandi forsætisráðherra, segir hann. Já, það er nefnilega það. (Gripið fram í: Vinstri slysin …) Vinstri slysin eru víða. En það skyldi þó ekki vera að hann sé búinn að semja við Jóhönnu Sigurðardóttur, núverandi hæstv. forsætisráðherra, um að hann taki við af henni í næstu ríkisstjórn?

En ég ætlaði að koma að því að núverandi hæstv. fjármálaráðherra hefur í fjölmiðlum á síðustu vikum lýst yfir eindregnum vilja sínum til þess að hækka skatta í landinu. Hækka skatta, taka upp hátekjuskatt og gera ýmsar breytingar í skattkerfinu sem munu leiða til þess að skattar verði hækkaðir. Ég veit ekki alveg hvar hann ætlar að bera niður, hvort það verða aldraðir og öryrkjar sem þurfa að greiða hærri skatta, t.d. í formi eignarskatta sem við sjálfstæðismenn afnámum. Hæstv. ráðherra á eftir að skýra út hver áform hans eru varðandi skattahækkanirnar. En það er sjálfsagt mál að kalla eftir þeim áformum í þessari umræðu. (Fjmrh.: Hvað með niðurskurðinn ykkar?) Það er ástæða til þess að kalla eftir tillögum hæstv. fjármálaráðherra um hvernig hann ætlar að hækka skatta. Hann hefur nefnilega sjálfur lýst því yfir að einhvern veginn þurfi að brúa fjárlagagatið (Gripið fram í.) og ætlar þess vegna að hækka skattana. Þess vegna kemur manni á óvart,

(Forseti (ÞBack): Gefið þið hv. þingmanni hljóð.)

að á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra boðar skattahækkanir á íslenska einstaklinga, á íslenska skattgreiðendur, líklega á eldri borgara með álagningu eignarskatts, eins og Lilja Mósesdóttir, frambjóðandi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur boðað, á sama tíma og þau áform eru uppi flytur hæstv. fjármálaráðherra frumvarp um skattalækkanir fyrir erlenda aðila sem koma hingað til lands til þess að stunda kvikmyndagerð. (Gripið fram í.)

Þá veltir maður auðvitað vöngum — (Fjmrh.: Er þingmaðurinn á móti því?) Þingmaðurinn er ekki á móti því. (Gripið fram í: Nú?) Nei, nei, nei. Þingmaðurinn er ekki á móti því. Sá sem hér stendur er fylgjandi því frumvarpi sem hér er til umræðu og ég hef margoft lýst því yfir. (Gripið fram í.) Ég er hins vegar ósammála Lilju Mósesdóttur og hæstv. fjármálaráðherra um það að hér eigi að taka upp eignarskatta og hækka skattana á fólkið í landinu. Ég get ekki sætt mig við það í því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu, þar sem vextir eru himinháir og verðbólgan líka, fólk er að missa vinnuna eða lækka í launum, að komandi vinstri stjórn ætli að hækka skattana á fólkið í landinu og láta því líða enn verr en því líður í dag. (Fjmrh.: Varstu ekki að tala um kvikmyndagerðarfrumvarpið?) Jú, ég var að tala um kvikmyndir. Þess vegna velti ég vöngum yfir því hvernig stendur á því að hæstv. fjármálaráðherra getur staðið að því að lækka skattana á þá sem stunda kvikmyndagerð á Íslandi en í hinu orðinu talar hann og hans fólk um skattahækkanir. (Fjmrh.: Örva atvinnulífið.)

Frú forseti. Það er nefnilega það sem við sjálfstæðismenn höfum verið að segja. Það þarf að endurreisa bankana hér á Íslandi til þess að hjól atvinnulífsins fari að snúast svo fólk hafi vinnu til þess að það hafi tekjur svo það geti greitt af lánum sínum. Þetta er í rauninni einfalt dæmi sem þarf að fara í og manni virðist núverandi ríkisstjórn ekki skilja hver viðfangsefnin eru vegna þess þegar maður les dagskrá þessa þingfundar þá er nánast ekkert á dagskránni, þó svo að málin séu 21, ekkert mál á þessari dagskrá sem hefur með þessi brýnu verkefni að gera. (Gripið fram í: Þetta kallar á mikla umræðu.) Þess vegna kalla ég eftir því að hæstv. ríkisstjórn fari að kynna fyrir okkur hvaða áform hún hefur uppi varðandi vernd heimilanna og uppbyggingu atvinnulífsins að öðru leyti en því sem kemur fram í þessu máli. Að öðru leyti en því. (Fjmrh.: Þið hækkuðu skattana fyrir jólin.) Það er rétt og það voru mistök. Ég get alveg lýst því yfir hér að ég tel að það hafi verið mistök af hálfu síðustu ríkisstjórnar að hækka skattana. En ég get hins vegar sagt hæstv. fjármálaráðherra að við máttum teljast heppnir, held ég, og skattgreiðendur þessa lands að þeir voru ekki hækkaðir meira vegna þess að samstarfsflokkur hæstv. fjármálaráðherra í ríkisstjórn, (Gripið fram í.) Samfylkingin vildi ganga miklu lengra í því að hækka skattana. Ég er þó ærlegur með það.

En, herra forseti. Þetta er gott mál. Þetta mál er atvinnuskapandi. Við sjálfstæðismenn höfum alltaf stutt alla tilburði í þá átt að byggja upp atvinnu á Íslandi og ég tel að kvikmyndaiðnaðinum veiti ekki af því eins og staðan er núna (Forseti hringir.) og af þeirri ástæðu munum við styðja þetta mál.