Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 22:29:27 (6267)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu vil ég lýsa aðdáun minni á hv. ræðumanni Sigurði Kára Kristjánssyni og þeirri yfirburðaþekkingu sem hann hefur á því viðfangsefni sem hér er til umfjöllunar. Hann stóð sig frábærlega í því orðaskaki sem hann átti við þá hv. þingmenn sem sýndu honum þá kurteisi að vera hér með eilíf frammíköll, (Gripið fram í.) hæstv. fjármálaráðherra og hv. þingflokksformann Samfylkingarinnar sem hafa ekkert betra við tímann að gera en að eyða þessu fallega og góða kvöldi til þeirra óþarfaverka sem þeir dunduðu sér við hér í kvöld í stað þess að leggja frekari drög að bata í atvinnulífi landsins með því að einhenda sér til vinnu við tillögur og úrræði sem betur ættu heima í þingsölum en þetta annars ágæta mál.

Tilefni mitt til að koma í pontu er afstaða flokksbróður míns og félaga, hv. þm. Sigurðar Kára. Ég tók eftir að hann blimskakkaði á mig augunum áðan úr ræðustóli þegar hann lýsti því yfir að flestir hefðu fagnað málinu við atkvæðagreiðslu í gær. Sá sem hér stendur var einn þeirrar gerðar í gær að greiða atkvæði gegn þessu á þeirri forsendu að við værum hér að fjármagna viðbótarútgjöld ríkissjóðs með lántökum. Satt best að segja hefði ég aldrei trúað því upp á minn ágæta félaga og vin að hann tæki máli sem þessu fagnandi, allra síst á þeim tímum sem nú eru uppi, og í ljósi viðvarana hæstv. fjármálaráðherra um afkomu ríkissjóðs nú um stundir hefði ég talið eðlilegt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson stæði með mér í þeirri staðföstu vinnu að verja ríkiskassann áföllum þegar vinstri stjórnin sækir að sameiginlegum sjóði landsmanna.