Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Miðvikudaginn 01. apríl 2009, kl. 23:51:43 (6282)


136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[23:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Því miður náði ég ekki að koma inn á alla þætti málsins í fyrri ræðu minni í umræðunni um þetta mál. Ekki síst vegna þess að þeim stjórnarliðum sem þá voru í salnum, hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, formanni þingflokks Samfylkingarinnar, leið eitthvað hálfilla undir lestri mínum og voru með sífelld frammíköll. Þeir eru nú horfnir af vettvangi og ætla ekki að hlýða á þessa umræðu frekar hvað þá að taka þátt í henni. Ég fæ því tækifæri til að ræða það atriði sem út af stóð, nú í seinni ræðu minni.

Það varðar skattalega samkeppni á milli landa. Árið 1998 hélt Evrópusambandið ríkjaráðstefnu (Gripið fram í.) í Nice í Frakklandi, um skattalega samkeppni. Niðurstaða þeirrar ríkjaráðstefnu varð sú að Evrópusambandið sendi út tilmæli til aðildarríkja sinna um að stunda ekki slíka samkeppni heldur voru lögð drög að því að skattareglur í öllum löndum álfunnar yrðu hin sömu.

Ástæðan fyrir þessum tilmælum Evrópusambandsins til aðildarríkjanna voru skattareglur sem Írar höfðu sett. En Írar felldu inn í löggjöf sína ákvæði um lægri tekjuskatt til fyrirtækja en þá þekktust í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Sú reglusetning fór ákaflega mikið fyrir brjóstið á skriffinnunum í Brussel sem vildu steypa allt í sama horf og standa enn þá við þá skoðun sína. Samfylkingin hefur verið þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og hefur þar með tekið undir sjónarmið Evrópusambandsins um að það eigi ekki að ríkja skattaleg samkeppni á milli ríkja.

Ég er mótfallinn því. Ég tel að það sé heilbrigt og eðlilegt að ríki stundi skattalega samkeppni sín á milli, séu í samkeppni um að búa fólki og fyrirtækjum sem hagfelldust lífs- og rekstrarskilyrði. Það mál sem við ræðum hér, sem varðar tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi, er dæmi um að við Íslendingar viljum taka þátt í skattalegri samkeppni á milli ríkja. Þetta mál er viðleitni í þá átt að reyna að búa kvikmyndafyrirtækjum og kvikmyndaframleiðendum hagstæðari framleiðslu og rekstrarskilyrði en önnur lönd og áhrifin eiga að vera þau að draga hingað og laða að erlend kvikmyndafyrirtæki til atvinnuuppbyggingar.

Það er af þeirri ástæðu sem ég styð þetta mál. Ég tel að við Íslendingar ættum jafnvel að ganga lengra í viðleitni okkar til þess að laða að slík verkefni. Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin ætti ekki að taka þetta mál upp og hugleiða hvort endurgreiðslan ætti að vera enn hærri en þetta frumvarp kveður á um.

Það er nefnilega þannig að jafnvel þó svo að við færum endurgreiðsluhlutfallið upp í 20% þá liggur fyrir að Írar greiða 28% til baka til kvikmyndaframleiðendanna. Ég hef upplýsingar um það frá fyrstu hendi, herra forseti, að við Íslendingar séum að missa stór kvikmyndaverkefni úr landi og til Írlands. (Gripið fram í: Þá þarf að bregðast við því.) Ef það er svo þarf að bregðast við því enda væri slík þróun skref aftur á bak fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað.

Ég vildi í seinni ræðu minni koma þessum ábendingum á framfæri til ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og hæstv. forseta svo ríkisstjórnin geti brugðist við (Forseti hringir.) ef þær fréttir sem ég hef fært fram eru réttar.