Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 13:47:10 (7285)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[13:47]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. allsherjarnefndar um frumvarp til laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Frumvarpið, sem er að finna á þskj. 859, er flutt af nefndinni sem slíkri.

Í frumvarpinu koma fram ítarleg lagafyrirmæli um þetta úrræði sem er greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Til þess þarf viðkomandi að vera þinglýstur eigandi íbúðarhúsnæðisins, greiðsluaðlögunin þarf að taka til þeirrar fasteignar þar sem hann heldur heimili og um hóflegt íbúðarhúsnæði þarf að vera að ræða. Viðkomandi húseigandi óskar eftir greiðsluaðlögun með skriflegri beiðni til héraðsdómstóls, gerir grein fyrir skuldum sem á fasteigninni hvíla og hverjar tekjur hans og annarra manna sem halda með honum heimili í íbúðinni eru. Enn fremur þarf að fylgja staðfesting fjármálafyrirtækis á því að bankinn eða fyrirtækið hafi tekið að sér að annast greiðslumiðlun, samkvæmt því sem lögin segja til um.

Taki héraðsdómari beiðni um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána til greina skal hann þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni og ef viðkomandi skuldari hefur fengið almenna greiðsluaðlögun þá skal alla jafnan vera sami umsjónarmaður sem fer með hvort tveggja. Þóknun umsjónarmannsins, allt að 200 þús. kr., skal greiðast úr ríkissjóði ásamt öðrum kostnaði af greiðsluaðlögun, samkvæmt ákvörðun héraðsdómara.

Rétt er að rifja það upp að reiknað er með að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna geti annast undirbúning málsins — framsetningu á skuldum og eignum, framsetningu á beiðninni sem slíkri til héraðsdóms — skuldara að kostnaðarlausu. Í því er þó ekki fólgin nein skylda. Menn geta gert þetta sjálfir og menn geta fengið aðra en Ráðgjafarstofuna til þess að gera þetta fyrir sig en hjá Ráðgjafarstofunni er reiknað með að framkvæmdin verði nokkuð samræmd og hún verður skuldara að kostnaðarlausu.

Ef fallist er á greiðsluaðlögunina frestast nauðungarsala sem leitað kann að hafa verið á viðkomandi fasteign á meðan reynt er að koma greiðsluaðlöguninni á. Það fer þannig fram að umsjónarmaður gerir frumvarp til greiðsluaðlögunar, eins og greinir í 5. gr. frumvarpsins, og þar kemur fram útreikningur hans á grundvelli þeirra upplýsinga og gagna sem hann hefur að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra eðlilegra útgjalda skuldarans. Þá kemur fram hvað skuldara er kleift að greiða þegar í stað af þeim skuldum sem greiðsluaðlögunin tekur til og síðan með föstum mánaðargreiðslum á því tímabili sem hún stendur yfir en greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, skv. 1. gr. frumvarpsins, getur staðið í allt að fimm ár. Ég minni á að almenna greiðsluaðlögunin getur staðið í allt að 3 ár. Í 5. gr. er nánar tilgreint hvað koma skuli fram í frumvarpi til greiðsluaðlögunar en það skal kynnt veðhöfum innan fjögurra vikna frá skipun aðstoðarmannsins.

Herra forseti. Ég rek þetta hér því að fullyrt hefur verið að þetta geti verið ansi flókið úrræði. Ég tel ekki nauðsynlegt að fara ítarlega ofan í einstök atriði frumvarpsins að öðru leyti en þessu, það á að vera aðgengilegt í gegnum Ráðgjafarstofu heimilanna og gegnum héraðsdómara að leita greiðsluaðlögunar svo framarlega sem ákvæði 1. og 2. gr. er fullnægt, þ.e. að það sé eigandi íbúðarhúsnæðis sem sýnir fram á að hann sé og verði um einhvern tíma ófær að standa í fullum skilum á greiðslum skulda, að um sé að ræða þinglýsta eign viðkomandi og hann þurfi að búa í henni eða fjölskylda hans og að um hóflegt húsnæði sé að ræða. Það er síðan aðstoðarmannsins að gera tillögu um hversu mikið viðkomandi getur borgað strax og hversu mikið hann getur borgað á mánuði á tilteknum tíma, allt að fimm árum, og að loknum þeim tíma tekur við ferli sem nánar er greint frá í 12. gr. frumvarpsins og þá er um það að ræða hvað verður gert við eftirstæðar kröfur.

Segjum að greiðsluaðlögunin vari í fimm ár. Að loknum þeim tíma, en með þriggja mánaða fyrirvara, skal skuldari gera sýslumanni viðvart um að hann geti ekki staðið skil á því sem eftir er af skuldunum. Fer þá fram mat undir forsjá sýslumanns á því hvers virði viðkomandi eign er annars vegar og síðan mat á veðskuldunum sem eftir standa. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að 10%, tíu hundraðshlutum, sé bætt ofan á matsverðið og er þar fylgt norskri reglu um greiðsluaðlögun, en það hefur margoft komið fram að þetta úrræði um greiðsluaðlögun, bæði almennu greiðsluaðlögunina og fasteignagreiðsluaðlögunina, er sótt í norrænan rétt. Mat eignar, og 10% þar ofan á, er síðan vegið á móti þeim skuldum sem eftir eru og það sem umfram þetta hlutfall er, er síðan afmáð eins og segir í 12. gr. úr veðbókum hjá sýslumanni.

Í upphaflegri gerð frumvarps til greiðsluaðlögunar var að finna bráðabirgðaákvæði um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána þar sem gert var ráð fyrir því að menn gætu fengið greiðsluaðlögun svo fremi sem fasteignaveðlánin væru í Íbúðalánasjóði eða einhverjum ríkisbankanna þriggja, sem sagt í ríkiseigu. Hv. allsherjarnefnd tók þetta atriði til sérstakrar athugunar, sérstaklega með tilliti til þess að þarna gæti verið um ójafnræði að ræða. Jafnræðisreglu væri ekki gætt ef skuldarar gætu bara fengið greiðsluaðlögun fasteignaveðlána í ríkisbönkum eða ríkissjóðum og við afgreiðslu frumvarps um greiðsluaðlögun var þetta bráðabirgðaákvæði fellt út en nefndin hafði forgöngu um það, með dyggri aðstoð dómsmálaráðuneytis og starfsmanna nefndasviðs, að semja það frumvarp sem hér að finna á þskj. 859.

Milli umræðna fjallaði nefndin um málið að nýju og leggur til eina breytingu, sem sé að gildistökunni sé flýtt þannig að lögin taki gildi 15. maí nk. í stað 1. júlí eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Ástæða þess að flýta gildistökunni var sú að talið var að gefa þyrfti þeim stofnunum sem að málinu eiga að koma tíma til að undirbúa úrræðið. Nefndin telur þó, eins og segir í nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Nefndin telur þó að nægilegur tími gefist til undirbúnings þótt gildistöku sé flýtt og leggur áherslu á að tíminn fram að gildistöku verði einnig nýttur til að kynna úrræðið fyrir almenningi.“

Á fundi nefndarinnar ræddum við einnig þann kostnað sem þetta úrræði hefur í för með sér fyrir ríkissjóð og fékk nefndin kostnaðarumsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem unnin hafði verið fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið þegar fyrirhugað var að flytja málið sem stjórnarfrumvarp. Kostnaðarumsögnin er birt sem fylgiskjal með álitinu. Nefndin tekur sérstaklega fram að í kostnaðarumsögninni er miðað við að kostnaður verði um 250 þús. kr. við hvert mál en nefndin lagði í frumvarpinu til að hámarksþóknun til umsjónarmanns fyrir hvert mál yrði 200 þús. kr. Því má ætla að kostnaðurinn við hver 100 mál verði um 20 milljónir og við hver 1.000 mál 200 milljónir kr. Mjög erfitt er að spá fyrir um það hve margir munu nýta sér þetta úrræði. Mikið hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum, og meira að segja endurtekið hér úr ræðustól Alþingis, að í upphaflega frumvarpinu, um almennu greiðsluaðlögunina, hafi verið reiknað með að 100–200 einstaklingar mundu notfæra sér það úrræði sem greiðsluaðlögunin er. Í umfjöllun í nefndinni kom fram að búast megi við mun meiri fjölda, allt að tíföldun, 1.000–2.000 manns, og kom það mjög skýrt fram, bæði í nefndaráliti hv. allsherjarnefndar með almennu greiðsluaðlöguninni og í framsöguræðum og ræðum allra nefndarmanna.

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að ítreka það enn einu sinni að frumvarpið byggðist á öðrum forsendum en þeim sem nefndin leggur nú fyrir þingið og því má reikna með að ekki verði um 100–200 manns að ræða heldur 1.000–2.000 manns. Það er viðmiðið sem nefndin hefur talið vera réttara. Fyrir hver 1.000 mál, eins og ég sagði áðan, mun kostnaður ríkissjóðs verða 200 millj. kr., bara af þóknuninni til umsjónarmannsins.

Herra forseti. Ómögulegt er að spá fyrir um það hversu margir munu notfæra sér þetta úrræði. Margt bendir til þess að fjöldinn geti orðið umtalsverður en einnig kann að vera að tilkoma þessa úrræðis greiði fyrir frjálsum samningum skuldara við kröfuhafa utan formlegrar greiðsluaðlögunarmeðferðar. Með því að menn hafa þetta úrræði í hendi sé auðveldara fyrir þá að ná frjálsum samningum við kröfuhafa.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég, eins og aðrir nefndarmenn í hv. allsherjarnefnd, vænti mikils af bæði almennu greiðsluaðlöguninni og því úrræði sem hér er lagt til að verði lögfest — tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna. En ég hlýt líka að minna á að hvort tveggja er liður í umfangsmiklum aðgerðum til varnar heimilum í landinu í þeirri erfiðu skuldastöðu sem við blasir. Ég bendi á að næsta mál á dagskrá er 25% hækkun vaxtabóta. Þegar hefur verið leitt í lög bann við gjaldþrotum fram til loka október á þessu ári, dráttarvextir hafa verið lækkaðir með lögum og sem betur fer fengum við í dag þær ágætu fréttir að stýrivextir eru eitthvað á niðurleið. Allt gefur þetta mér ástæðu til þess að vera nokkru bjartsýnni um hag heimilanna en fyrir nokkrum vikum.

Við leggjum til í hv. allsherjarnefnd að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem lögð er til á þskj. 919 sem varðar gildistökuna sem ég gerði grein fyrir áðan.