Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 14:23:16 (7288)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:23]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, talsmanni allsherjarnefndar í þessu máli. Ég skil hana þannig að hún taki undir þau sjónarmið sem ég rakti hér og gerði að umtalsefni og þann lagaskilning sem ég kom fram með að öllu leyti þannig að það liggi fyrir. Ég er mjög ánægður að heyra það og lít þannig til að það sé ótvírætt að vilji löggjafans standi til þess að afgreiða málið eins og hér hefur verið rakið. Það er mjög mikilvægt að það komi fram í umræðunni til þess að taka af allan vafa um það atriði. Ég tel að með þessu, svo fremi sem enginn annar hefur uppi aðrar skýringar, liggi alveg fyrir hver vilji löggjafans er hvað þetta varðar.

Ég er mjög ánægður með að þetta frumvarp skuli vera komið til umræðu og afgreiðslu og vænti þess að það verði afgreitt hið fyrsta frá Alþingi vegna þess að það skiptir miklu máli að fá þetta úrræði í lög. Við sjálfstæðismenn höfum lagt mikla áherslu á að þetta frumvarp verði afgreitt sem allra hraðast sem og önnur þau mál sem virkilegu skipta fyrir hag heimilanna og atvinnu fyrirtækjanna í landinu. Ég ítreka aftur þakkir mínar til forseta fyrir að gera þær breytingar á dagskrá sem við höfum farið fram á í þessu efni. Ég vænti þess að þingmenn greiði fyrir því að þetta merka mál og nauðsynlega verði afgreitt sem allra fyrst. Eftir að hafa verið í neytendastarfi um áratugaskeið þar sem þetta hefur verið eitt af helstu baráttumálum ásamt öðru sem hefur tekið gildi á Alþingi varðandi almenna greiðsluaðlögun og ýmislegt fleira, t.d. ábyrgðarmenn, verð ég lýsa yfir mikilli ánægju með að þetta mál skuli vera komið til afgreiðslu.