Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 14:25:21 (7289)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er örlitlu við þetta að bæta sem ég kom ekki að tímans vegna í fyrra andsvari og varðar almennu greiðsluaðlögunina. Það er rétt sem hv. þm. Jón Magnússon sagði um að almenna greiðsluaðlögunin er ætluð almennum launþegum og aðeins í undantekningartilfellum þeim sem hafa stundað atvinnurekstur og þá háð því að viðkomandi hafi hætt atvinnurekstri. Forsendan fyrir þessu er ekki aðeins sú að þannig hefur þetta tíðkast í löggjöf annars staðar á Norðurlöndunum heldur einnig það að nauðasamningsúrræðið sem er að finna í gjaldþrotaskiptalögunum er talið henta betur í þeim tilfellum þegar um atvinnurekstur er að ræða og samningskröfur og þar sem um skuldir af atvinnurekstri er að ræða falli það betur að gjaldþrotaskiptalögunum þar sem atvinnurekendur stórir og smáir geta alltaf óskað nauðasamninga.

Ég ítreka þann skilning að það er ekki um neitt slíkt að ræða varðandi greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Greiðsluaðlögun fasteignaveðlána tekur jafnt til launþega sem atvinnurekenda.