Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 14:50:56 (7300)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa tekið tillit til óska okkar sjálfstæðismanna um að hliðra til dagskránni þannig að tekin yrðu fyrir mál sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu miklu og þó að ekki séu tekin fyrir nema tvö mál sem við ræðum hér, nr. 5 og 6 á dagskránni, skipta bæði þau mál miklu máli fyrir almenning, sérstaklega það sem við ræðum nú.

Hér hefur nokkuð verið rætt um svartsýni eða bjartsýni, menn hafa jafnvel vænt mig um það að ég sé óheyrilega bjartsýnn og hef ég svo sem heyrt það áður, sérstaklega frá framsóknarmönnum. En það skyldi nú ekki vera vegna þess að ég hef alveg skýra sýn til framtíðar um það hvernig við leysum þessi vandamál? Þeir sem hafa skýra sýn til framtíðar geta náttúrlega ekki verið annað en bjartsýnir. Það eru þeir svartsýnu sem ekki sjá neina lausn og sjá ekkert úrræði og þeir eru að sjálfsögðu alltaf svartsýnir.

Við höfum lent í miklu áfalli og að gefnu því áfalli er ég mjög bjartsýnn vegna þess að undirstöðurnar, vélarnar í vélarrúminu, mala og mala áfram, þökk sé stjórn Sjálfstæðisflokksins í átján ár, en það er nú yfirleitt ekki minnst á að hann hafi verið einn við stjórn í átján ár nema þegar honum er kennt um eitthvað. Bæði menntakerfið og atvinnulífið eru mjög vel undir þessa kreppu búin og auðvitað er það ekki bara Sjálfstæðisflokknum að þakka því að hann var nefnilega í stjórn með öðrum flokkum allan þennan tíma en það virðist iðulega gleymast.

Það sem ég er mjög ánægður með í þessu máli er að það er flutt af nefnd. Það er mín bjargfasta trú að þetta sé leið sem Alþingi eigi að fara til að losa um allt of mikil áhrif framkvæmdarvaldsins á Alþingi. Þess vegna gleðst ég sérstaklega yfir þessu. Þetta er vaxandi núna, ég fékk reyndar lista yfir það. Yfirleitt hafa nefndir flutt smávægilegri mál eins og breytingar á dagsetningum eða ef í ljós kemur galli í lagasetningu eða annað slíkt. En nú er það að aukast að Alþingi setji lagabálk eins og þann sem við ræðum hér og fjallar um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

Ég er kominn hér í samkeppni við einhvern síma en ég vona að ég sigri í þeirri samkeppni. Undanfarið hefur ýmislegt gerst sem gefur tilefni til bjartsýni, t.d. verður um næstu mánaðamót atburður sem er langt síðan að hefur gerst að verðbólgan er mínus, þ.e. verðhækkanir eru í mínus þannig að við erum að tala um verðhjöðnun. Þá munu skuldarar upplifa það að greiðsla af venjulegu láni lækkar frá því sem var mánuðinn áður og eftirstöðvarnar lækka umtalsvert líka. Þetta er mjög gleðilegt. En það sem vegur á móti og er mjög ógnvekjandi er hið mikla hrap á gengi krónunnar undanfarna einn, tvo daga sem ég hefði viljað spyrja hæstv. ríkisstjórn við tækifæri, herra forseti, hvað veldur. Hvað er að gerast? Hafa einhver mistök verið gerð hjá hæstv. ríkisstjórn eða eru þetta einhverja eðlilegar aðstæður sem ganga til baka? Raungengi krónunnar er orðið mjög lágt og krónan ætti því að styrkjast ef eitthvað er vegna ýmissa þátta, t.d. vegna þess að atvinnulífið, vélarrúmið gengur eins og klukka, bæði álverin og sjávarútvegurinn, og þrátt fyrir ákveðinn vanda við sölu ganga þessar atvinnugreinar mjög vel. Það sem er ógnvænlegt við fall krónunnar er að skuldir þeirra einstaklinga sem tóku ákvörðun um að taka lán í erlendri mynt, og þeir voru því miður ófáir, hækka umtalsvert á sama tíma og verðtryggðar skuldir lækka. Það þýðir að fleiri munu væntanlega lenda í þeim vanda sem þetta frumvarp á að taka á. Ég tel mjög brýnt að á þessu sé ráðin bót, að gengið færist nær því sem það á að vera.

Ég ætla rétt aðeins að ræða í fyrsta lagi hvernig nefndir þingsins eiga að vinna svona frumvörp. Ég skora á hæstv. forseta og af því að forseti Alþingis situr í forsetastóli núna vildi ég gjarnan að ræddar verði í forsætisnefnd einhverjar reglur fyrir nefndir sem ætla að semja frumvörp sem hafa eitthvert vægi eins og hér er um að ræða. Til dæmis að leitað sé umsagnar ráðuneyta í ferlinu þegar nefnd er að semja frumvarp og hvað veldur því að nefnd tekur eitthvert mál upp. Það þarf líka að setja reglur um það og t.d. að nefnd fái alltaf umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarp áður en það er lagt fram. Þetta er eitthvað sem þarf að vinna og búa til ákveðnar reglur um og ákveðna hefð í kringum. Ég skora á hv. forsætisnefnd að taka þetta fyrir.

Varðandi þetta frumvarp þá er það eins og ég hef nefnt áður mjög gott. Reyndar er það neyðarúrræði, síðasta úrræði, alsíðasta er náttúrlega gjaldþrot sem er afskaplega slæmt. Gjaldþrot er alltaf mjög slæmt, alveg sérstaklega fyrir þann sem lendir í gjaldþrotinu en líka allt í kringum það. Eignir hrapa í verði, það hefur enginn áhuga á þeim á ákveðnum tímapunkti. Það myndast ákveðið tómarúm. Viðhald þeirra fer alveg í vaskinn o.s.frv. Í rauninni tapa allir á gjaldþroti, hver einn og einasti sem kemur að því, kröfuhafarnir, sá sem er gjaldþrota, ríkið, samfélagið, það tapa allir á gjaldþroti. Þetta frumvarp lagar stöðuna þannig að ekki komi til gjaldþrots og lagar hana þannig að í rauninni græða allir.

Þess vegna er spurningin um þessar títtnefndu 200 þús. kr. sem hafa verið ræddar nokkuð hérna ákveðinn misskilningur, þetta getur orðið hærra en 200 þús. kr. vegna þess að í greininni stendur: „… allt að 200.000 kr., greiðist úr ríkissjóði ásamt öðrum kostnaði af greiðsluaðlögun samkvæmt ákvörðun héraðsdómara.“ Þetta gæti því orðið meira en 200 þús. kr., kannski 250 þús. kr., sem gæti orðið kostnaður þarna. En þetta á að sjálfsögðu að vera bara raunkostnaður. Þetta er þóknun og það á ekki að líta á þetta sem skatt, þetta á ekki vera meira en það kostar raunverulega að framkvæma hlutina.

En það sem ég vildi gera að tillögu til nefndarinnar, ég legg til að þetta mál fari til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr., ekki til að tefja málið heldur til að taka á því atriði að mér finnst að þessi tvö — ég vildi gjarnan að hv. flutningsmaður hlýddi á mál mitt, ég er ekki viss um að þetta fari annars í nefndina, herra forseti, ef flutningsmaður gæti hlýtt á mál mitt. Nú, jæja, ég ætla þá að sleppa þessu í bili.

(Forseti (GuðbH): Það eru komin skilaboð.)

Varðandi 12. gr. vildi ég benda á eitt atriði þar sem segir að það sem er umfram 10% verði afmáð af fasteigninni. En það hverfur ekki sem skuld, svo menn hafi það alveg á hreinu að skuldin heldur áfram þó að veðið hverfi. Þetta er eitthvað sem ég held að margir hafi misskilið og haldið að skuldin hyrfi. Ég mundi vilja að nefndin skoðaði þann flöt hvort það sé mögulegt að skuldin hverfi vegna þeirrar bágu stöðu sem skuldarinn er í. En auðvitað er óveðtryggð skuld ekki mikils virði og hugsanlega gæti skuldarinn keypt hana.

Nú er hv. þm. Álfheiður Ingadóttir komin í salinn og getur hlýtt á þá athugasemd sem ég ætla að gera. Ég vildi gjarnan að það yrði rætt í nefndinni — vonandi um helgina þannig að þetta tefji málið ekki neitt, það vil ég alls ekki — að þessi 200 þús. kr. kostnaður færist á eignina, aftast í veðröðina. Ef vel gengur, sem vonandi gerist í flestum tilfellum, þ.e. að ekki komi til þess að ýtrustu ákvæðum laganna verði beitt með skerðingu á kröfum, mundu þessar 200 þús. kr. verða greiddar aftast í skuldaröðinni. Mér finnst eðlilegt að þegar búið er að bjarga skuldaranum með þessum hætti taki hann að sér að greiða þennan kostnað, sem er óverulegur miðað við alla þá hagsmuni sem hann hefur, eftir 20, 30 eða 40 ár, og það hvíli þá aftast á veðréttinum, mín vegna án vaxta en hafa mætti á því lága vexti eða bara verðtryggingu. Ég mundi gjarnan vilja að nefndin fjallaði um þetta mál á milli 2. og 3. umr. Með þessu vil ég ekki tefja málið, herra forseti, en þetta mundi lækka skuldbindingu ríkissjóðs af þessu máli umtalsvert því að það eru eingöngu þeir sem lentu í 12. gr., þar sem talað er um að skuldir séu afmáðar og í rauninni felldar niður — það yrði þá eingöngu í því tilfelli sem þessar 200 þús. kr. mundu falla á ríkissjóð.

Nokkuð hefur verið rætt um sjálfstæða atvinnurekendur og skuldir þeirra. Þeir falla að sjálfsögðu undir þessi lög og ég held því að þetta sé mjög gott mál til þess að taka á þeim sem eru virkilega illa settir. Þá er það kannski í lokin, frú forseti, spurning um að athuga hversu margir munu falla undir þessi lög. Eitt er afskaplega mikilvægt að fá að vita: Hver er staðan í þjóðfélaginu? Mér finnst menn, og sérstaklega fjölmiðlar, allt að því hafa nautn af því að tönnlast á vandræðum. Þannig er jafnvel komið að sumt fólk sem ég þekki hlustar ekki á fréttir lengur af því að þær eru svo daprar og svo svartsýnar.

Þegar 10% þjóðarinnar eru atvinnulaus er það hræðileg staða fyrir þau 10%, en ég vil benda á að 90% eru þó áfram með atvinnu. Þegar 5 eða 10% þjóðarinnar til viðbótar eru í vandræðum vegna gengistryggðra lána eða vegna lækkunar launa — búið að fella niður yfirvinnu og annað slíkt — eru það kannski 15%, í hæsta lagi 20%, þjóðarinnar sem eru í vanda, en þá eru 80% ekki í vanda. Þetta þurfa menn að hafa í huga. Það má ekki tala kjarkinn úr þjóðinni á þann veg að hún haldi að allt sé að fara norður og niður. Það er mjög skaðlegt ef menn einblína svo mikið á vandann að öll þjóðin haldi að öll þjóðin sé í vanda og menn fyllist svartsýni og þunglyndi.

Stærsti hluti þjóðarinnar hefur reyndar þurft að sætta sig við launalækkun, þ.e. að laun hafa ekki hækkað í takt við verðlag. Þau hafa hækkað eitthvað en alls ekki í takt við verðlag þannig að það er í raun kjararýrnun. Þetta er það sem menn lenda í, en það er verið að taka til baka launahækkun síðustu tveggja ára, eða þar um bil, þannig að menn eru í sömu stöðu og þeir voru í 2007, það er ekki verra en það. Sá hópur manna er í tiltölulega góðum málum, frú forseti, og það er því mjög hættulegt að tala stöðuna niður á þennan hátt.

Í ljós kom í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka, ekki Íslands heldur Jóhönnu Sigurðardóttur — hún skipaði alla stjórn Seðlabankans og alla peningastefnunefndina og ber þar af leiðandi alfarið ábyrgð á háum stýrivöxtum, allt of háum stýrivöxtum, sem eru í gangi í dag. Þetta eru hennar verk, hún ber ábyrgð á þeim, hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, af því að hún skipaði þetta fólk allt saman sjálf. Ég hef bent á að raunstýrivextir séu um 28% í þessum mánuði, 28% raunvextir, og þetta eru lægstu óverðtryggðu vextirnir í landinu. Þetta á eftir að valda óhemjuvanda hjá heimilum og fyrirtækjum og þetta frumvarp er til að mæta því.

Ég mundi vilja að peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti umtalsvert vegna þess að verðbólgan er horfin. Raunvextir stýrivaxta voru neikvæðir í haust, í janúar og febrúar voru raunvextir um 10% en í mars voru þeir 28%, sem er óheyrilega mikið. Ég vonast til þess að stýrivextirnir verði lækkaðir umtalsvert þannig að ekki þurfi að beita þessum ákvæðum þessara laga allt of mikið. Svona hangir þetta allt saman og á vissan hátt má segja að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, og það hvað lítið er að gerast með t.d. bankana og það, sé ástæðan fyrir því að því miður verða það fleiri sem falla undir þessi lög en ella væri. Þessi lög eiga auðvitað eingöngu að taka til þeirra sem eru í alverstu stöðunni.

Fleiri flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn hafa lagt til að í þrjú ár tímabundið gætu þeir sem óska eftir því fellt niður helming af greiðslum af lánum sínum og það flyttist þá aftur fyrir, lengdi lánin. Það finnst mér mjög skynsamleg leið vegna þess að menn búast við tímabundnum vanda, þetta er ekki eitthvað sem varir í 20 til 30 ár — nema mjög illa fari með Icesave-reikningana. Það búast allir við að þetta sé tímabundinn vandi og þá á að leysa það með tímabundnum aðgerðum. Ég fagna mjög þessu frumvarpi og legg til að því verði vísað til nefndar á milli 2. og 3. umr. og það verði unnið núna um páskana þannig að það geti farið í 3. umr. á næsta fundi.