Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 15:09:26 (7302)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi 18 árin og Sjálfstæðisflokkinn, það vildi svo til að hann var alla tíð í samstarfi við aðra flokka og þeir bera ekki síður ábyrgð, Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Samfylkingin, á því sem gerðist, ekki síður, en þeir vilja bara eigna sér það sem er jákvætt. Gott atvinnustig allan tímann, góða stöðu ríkissjóðs til að takast á við vandann, gott menntakerfi, sem er frábært, og gott atvinnustig áður en við lentum í krísunni. Það skyldi nú ekki vera að það sé Sjálfstæðisflokknum einum að þakka?

Ég nefni líka undirstöðuatvinnugreinar þjóðfélagsins, álverin sem mala og mala á hverjum einasta degi og flytja út ál, reyndar með lækkuðu verði, en standa undir gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, og síðan sjávarútveginn. Þó að það séu vandamál þar líka í sölu á afurðum standa þessir tveir atvinnuvegir undir þjóðfélaginu, svo maður tali ekki um ferðamannaiðnaðinn. Allt var þetta skapað í 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og ef hann hefur verið einn í stjórn er þetta honum einum að þakka.

Varðandi 200 þús. kr. fjallaði nefndin ekkert um það að þessu yrði bætt aftast við veðröðina, hún fjallaði ekkert um það. Það er það sem ég óska eftir að nefndin fjalli um, ekki bara kostnaðarskiptingu, hvort um sé að ræða 100 manns eða 1.000 manns eða hvað það nú er, heldur að breyta frumvarpinu á þann veg að þessar 200 þús. kr. lendi aftast í veðröðinni og ef vel gengur, sem við vonum öll, og skuldari vonar líka, getur hann auðveldlega borgað þessar 200 þús. kr. og þá verður kostnaður ríkissjóðs miklu minni. Þetta vil ég að nefndin skoði milli 2. og 3. umr.