Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Miðvikudaginn 08. apríl 2009, kl. 15:11:22 (7303)


136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er eðlilegt og sjálfsagt, fyrst eindregin ósk er um að nefndin komi saman á milli umræðna, að orðið verði við því.

Ég vil vekja athygli á því að bæði í umfjöllun nefndarinnar og hér í þingsal, um frumvarp til laga um almenna greiðsluaðlögun, sem þegar hefur tekið gildi, og um það úrræði sem hér er um að ræða, hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að þeir sem eiga nú í greiðsluerfiðleikum geti leitað til og fengið aðstoð sérfræðinga við að finna úrlausn mála sinna án mikilla fjárútláta. Þess vegna hefur verið sett upp það kerfi að Ráðgjafarstofa heimilanna geti komið að þessu í byrjun og þannig búið til ramma utan um upphafsferlið með nokkuð almennum hætti sem gæti gagnast mörgum, það er sem sagt verið að tala um ákveðið hagræði að því. Þetta fari síðan til héraðsdóms og aðstoðarmanna eins og hér hefur verið rakið, en jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð falið sýslumönnum eða opinberri stofnun þetta hlutverk til þess m.a. að tryggja jafnræði en ekki síður til þess að draga úr kostnaði, því að það er jú rétt, sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að lækka kostnað ríkissjóðs af þessu.

Við munum þá væntanlega fjalla um þetta í nefndinni á milli umræðna. Ég tel ekki rétt að fara þá leið sem hv. þingmaður nefnir hér en það kann að vera að hann geti sannfært mig um annað á milli umræðna.