Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 11:56:53 (7508)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[11:56]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það sem kom fram í andsvari hv. formanns viðskiptanefndar. Allir kröfuhafar eru hundóánægðir. Og það vill svo til að ég hitti nokkra fulltrúa kröfuhafanna, þeir voru allir sammála því og sögðu: Við erum allir hundóánægðir. Við töpuðum miklum fjármunum.

Hins vegar bentu þeir á að það væri vitað. Hitt væri óljóst, þ.e. hvernig þeir gengju síðan í burtu frá þessu ferli og hver tilfinning þeirra yrði gagnvart Íslandi, íslenskum lögum og íslensku umhverfi þegar málum lýkur. Munu þeir verða sáttir við það ferli sem við blasti eða ekki? Það er enginn ágreiningur um að þeir eru hundóánægðir. Það skiptir okkur máli ef þeir eru sáttir.

Það kom fram hjá hv. formanni viðskiptanefndar að þeir sættust á lögin frá í nóvember og fengin var viðurkenning á því ferli beggja vegna Atlantshafsins. Ég er líka sammála því að það er mjög mikilvægt fyrir kröfuhafana að slitastjórnir komi inn í, taki við kröfum og það ferli fari af stað.

Allir kröfuhafar og fulltrúar þeirra kröfuhafa sem við hittum eða fengum póst frá nefndu það að þeir vildu gjarnan halda áfram að vinna með skilanefndunum til að reyna að hámarka virði eignanna. Ég get tekið undir allt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði en það breytir því ekki sem ég sagði áðan.