Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 12:20:32 (7513)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:20]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. og formanni viðskiptanefndar, Álfheiði Ingadóttur, fyrir andsvar hennar og svör við því sem ég innti hana eftir. Ég trúi hins vegar ekki öðru en að viðskiptaráðuneytið hljóti að láta Evrópusambandið fylgjast vel með því hvernig við höfum brugðist við málum. Því eins og ég sagði áðan hlýtur það að vera mikilvægt fyrir það að fá að heyra hvernig hefur verið brugðist við og hvernig það hefur gefist þannig að það geti þá að minnsta kosti flýtt sinni vinnu. Það er óþarfi að finna upp hjólið að því leyti sem við höfum kannski rambað niður á regluverk sem dugar.

Ég trúi ekki öðru en samskipti okkar við Evrópusambandið séu af þeim toga að þau séu gagnkvæm og við getum miðlað. Þó að tilefnið sé slæmt er það auðvitað alltaf ánægulegt að geta miðlað í hina áttina en ekki alltaf tekið við, eins og hefur nú kannski verið frekar hlutskipti okkar hingað til. Við höfum verið að aðlaga regluverk okkar að reglum Evrópusambandsins og það væri ánægjuleg tilbreyting ef regluverk Evrópusambandsins væri smíðað að þessu, a.m.k. í ljósi þess sem við settum upp af því við þurftum að bregðast við áður en aðrir gerðu það.

Eins og ég benti á í fyrra andsvari mínu og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ýjaði að erum við auðvitað líka fórnarlömb þess að enginn sá þetta fyrir og þess vegna m.a. sitjum við í þeirri súpu sem við sitjum, ef við sitjum þá í henni, varðandi t.d. Icesave-reikningana. Því enginn gerði ráð fyrir að hrun yrði af því tagi og innstæðutryggingarnar sem settar voru miðuðu ekki við það að allt hryndi þó svo að við höfum a.m.k. tímabundið, hver svo niðurstaðan verður, verið neydd til þess að gangast þar við hlutum.