Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 12:44:26 (7518)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:44]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að verið sé að rannsaka þetta við marga háskóla. Ég vona að það verði rannsakað mjög víða og menn komist að niðurstöðu um hvað hefði mátt fara betur í regluverkinu til þess að bankar yxu ekki eigin þjóðarbúi jafnhátt yfir höfuð og íslensku bankarnir gerðu. Það er um það sem þetta snýst. Það er um það sem þessi íslensku dæmi snúast um. Það er þá spurningin: Hvaða reglur þurfa að vera í gildi til þess að menn geti komið í veg fyrir að þróunin verði á þann veg sem hér varð?

Ég sé ekki í þessum dæmum, og ég hef lesið um þetta víða greinar og álit, að verið sé að víkja þannig að Sjálfstæðisflokknum eða íslenskum stjórnvöldum að menn séu að rannsaka það sérstaklega. Verið er að rannsaka hvaða tæki menn hafi haft til þess að stemma stigu við ofurvexti banka og til þess að taka á þeim málum. Það er það sem verið er að fjalla um á þessum alþjóðafundum.

Íslenska dæmið er til marks um það að bankastarfsemi getur þróast á þann veg að hún vaxi viðkomandi efnahagskerfi yfir höfuð, það er ekkert einsdæmi hér á Íslandi. Þótt við höfum stigið þetta skref og stöndum í stærsta og erfiðasta stórfljótinu þegar þessi skriða fer yfir þá glíma aðrar þjóðir við sama vanda í annarri mynd og þurfa að takast á við hann. Það er engin furða þó að menn vilji greina það og bera saman. Öll hagfræði virðist byggja mikið á samanburði og slíkum hlutum því það eru nú ekki nákvæmnisvísindi heldur er verið að læra af reynslunni. Ég vona að reynsla okkar Íslendinga verði til þess að forða mörgum frá sama vanda, að þeir geti komið upp regluverki ef það er nauðsynlegt til þess að sama þróun verði ekki og hér. En ég fullvissa hv. þingmann um að ekki er verið að fjalla um Sjálfstæðisflokkinn eða stjórn hans heldur er verið að fjalla um þær leikreglur sem giltu á þessu sviði hér á landi.