Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 13:47:12 (7520)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[13:47]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Mér fundust þær umræður sem spunnust í kringum ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar vægast sagt mjög sérstakar. Þar setti hv. þm. Álfheiður Ingadóttir enn einu sinni fram þau sjónarmið að bankahrunið á Íslandi væri Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þetta er nokkurs konar slagorð sem Vinstri grænir og skoðanabræður í Samfylkingu þylja í sífellu. Þeir telja að með því að endurtaka lygina nægilega oft verði henni trúað.

Tiltölulega skammt er liðið frá bankahruninu og sandurinn er ekki fokinn af því sem þar gerðist, það liggur því ekki ljóst fyrir hvað átti sér stað. Ákveðnar vísbendingar eru þó til staðar, gerðar hafa verið ákveðnar kannanir og ákveðnar niðurstöður liggja fyrir. Þær niðurstöður benda til þess að bankahrunið sem hér varð, aðdragandi þess, sé af allt öðrum toga spunnið og sé ekki á ábyrgð þeirra pólitísku yfirvalda sem verið hafa við stjórn á Íslandi síðustu ár. Það er merkilegt að jafnvandaður og góður þingmaður og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, virðist ekki hafa kynnt sér þær skýrslur og þau sjónarmið sem fram hafa komið varðandi það hvað olli bankahruninu — hvort það var vegna þess, eins og hún hefur ítrekað haldið fram, að Seðlabanki Íslands hafi ekki gætt að vandamálum sem hafi verið að hrannast upp, hvort Fjármálaeftirlitið hafi ekki gætt að sér, eins og Vinstri grænir hafa hrópað aftur á bak og áfram, eða hvort ríkisstjórn Íslands hafi brugðist.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að skoða það sem tekið hefur verið saman og best liggur fyrir hvað þetta varðar. Við höfum m.a. fyrir framan okkur skýrslu sem Kaarlo Jännäri tók saman og birtist 30. mars 2009. Þeir hv. þingmenn sem hafa blandað sér í þessar umræður virðast einhverra hluta vegna annaðhvort ekki hafa kynnt sér þau sjónarmið sem þar koma fram eða vísvitandi viljað forðast að koma þeim sjónarmiðum að. Í skýrslu þessa finnska sérfræðings, sem var fenginn sérstaklega til þess að skoða hvað hefði gerst, sem er eiginlega fyrsta heildstæða skýrslan sem unnin er af óháðum aðila, sem mikið var kallað eftir, um það hvernig að hlutum var staðið og hvernig þetta var — þessi skýrsla virðist ekki rata inn í umræður á Alþingi. Mér finnst það mjög miður að umræður hér skuli ekki vera á hærra stigi en raun ber vitni, að kastað skuli vera fram einhverjum pólitískum sleggjudómum eins og komið hafa fram hér í morgun frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og líka frá hv. þm. Merði Árnasyni.

Ég hef haldið því fram, og ég hef bent á það með rökum, að frumástæða bankahrunsins sé óeðlileg útlánastarfsemi bankanna sjálfra sem hafi hvorki með eftirlitsstjórnvöld né stjórnmálamenn að gera, hafi ekki með síðustu ríkisstjórn að gera eða þá sem þar stóðu í forsvari. Það liggur fyrir að það var ekki vilji eða ósk pólitískra yfirvalda að svona færi. Það liggur fyrir að þegar á árinu 2007 höfðu menn áhyggjur af því hvernig hlutirnir hefðu verið að þróast. Það liggur fyrir, miðað við skýrslu hins finnska sérfræðings, sem ég vísaði til, að seinni hluta ársins 2007 hafi það verið stefna þáverandi ríkisstjórnar, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka að draga úr stærð bankanna. Það var meðvitað, það var talið að bankarnir væru orðnir of stórir og að bregðast þyrfti við. Meðal annars þess vegna var Kaupþing, sem ætlaði sér að kaupa hollenskan banka, að því er mig minnir NIBC-bankann, knúið til að hverfa frá þeim kaupum. Það er bein aðgerð sem stjórnvöld beittu sér fyrir. Hefði það ekki verið gert hefði, eftir því sem best verður séð, gjaldþrot þess banka sennilega orðið mun fyrr og alvarlegra.

Það er athyglisvert atriði sem kemur fram hjá finnska sérfræðingnum, á bls. 16 í skýrslu hans. Hann vísar þar til þess með hvaða hætti íslenskt þjóðlíf hafi verið, hvernig brugðist hafi verið við þegar bankarnir hafi verið gagnrýndir. Hann bendir á að þeir sem hafi gagnrýnt bankana hafi ekki verið teknir alvarlega. Það þekki ég vel. Ég gagnrýndi íslenska banka og íslenska bankastarfsemi og hef gert það allt frá því á árinu 2002, með hvaða hætti þeir fóru fram, fram á árið 2007 og síðar. Finnski sérfræðingurinn segir, og ég get vottað að það er rétt, að þeir sem hafi gagnrýnt bankana og hvernig þeir störfuðu hafi ekki verið teknir alvarlega eða ekki vakið sérstaka athygli. Bankamennirnir, fjármálafyrirtækin, voru álitnir þjóðhetjur og fjölmiðlarnir kepptust við að leggja áherslu á hvað starfsemi bankanna væri stórkostleg. Þjóðin var hreykin af bönkunum sínum og þeim árangri sem þeir höfðu náð. Hann bendir m.a. á að möguleikar stjórnvalda til þess að hafa áhrif hafi verið mjög takmarkaðir miðað við það sem var í gangi í þjóðfélaginu og það verður að hafa það í huga. Það er athyglisvert að skoða hvaða áherslu þessi finnski sérfræðingur leggur á veikasta hluta lýðræðisins í landinu, fjölmiðlana, sem að mínu viti voru sú stofnun eða það vald — stundum kallað fjórða valdið í þjóðfélaginu — sem gjörsamlega brást. Það verður að láta hvern hafa það sem hann á skilið.

Það liggur líka fyrir og er staðfest að allt frá því haustið 2007 hafi eftirlitsstjórnvöld gert sér grein fyrir því að alvarleg vandamál gætu komið til í bankakerfinu. Vísað er til þess að í mars og apríl árið 2008 hafi verið haldnir ítrekaðir fundir og viðvaranir komið fram hvað þetta varðar. Það hafi þá legið fyrir að alvarlegir hlutir gætu gerst ef lánsfjárkreppa skylli á. Það liggur líka fyrir, virðulegi forseti, að bankastarfsemi og fjármálastarfsemi byggist á trausti. Ef traustið er ekki fyrir hendi þá hrynja fjármálafyrirtæki mjög fljótt, jafnvel þó að þau hafi möguleika til áframhaldandi starfsemi. Ég hjó sérstaklega eftir því í skýrslu hins finnska sérfræðings þar sem hann fjallar um ástæður bankahrunsins, á bls. 21, 30 og 32, að hann setur alla sök á starfshætti bankanna. Hann bendir á að alþjóðlega fjármálakreppan hafi vissulega orðið þess valdandi hvernig fór en hann bendir líka á að bankarnir hafi farið mjög óvarlega miðað við þá stöðu sem þeir hafi verið í. Þá talar hann um það hvernig bankamenningin hafi verið í landinu og þau vandamál sem þar hafi verið um að ræða og sérstaklega vekur hann athygli á því, á bls. 32 í skýrslunni, hvernig óbein áhætta hafi verið fólgin í íslenskri bankastarfsemi þar sem bankarnir hafi átt talsverða og jafnvel stóra hluti hver í öðrum. Með falli eins mynduðust gagnkvæm áhrif sem við urðum vitni að. Þetta er í hnotskurn það sem um var að ræða.

Einnig er hægt að benda á það, og reyndar kemur það fram í umræddri skýrslu, að bankarnir stóðust með ágætum þau álagspróf sem þeir fóru í en undirliggjandi var ákveðinn vandi sem kom ekki fram við slík álagspróf sem nú hefur orðið ljós við frekari skoðun. Það liggur því fyrir að höfuðástæða bankahrunsins var það hvernig íslenskri bankastarfsemi var fyrir komið. Það liggur líka fyrir að krosseignatengsl ollu miklu vandamáli en höfuðábyrgðina á öllu þessu ber sá aðili sem skuldaði í bankakerfinu yfir 1.000 milljarða þegar bankahrunið varð og án þess að geta greitt til baka það sem þar var um að ræða. Hér er um svo gríðarlega fjárhæð að ræða að ljóst var að þar var komið út yfir öll mörk. Það er eðlilegt að fólkið í landinu spyrji hvernig í ósköpunum hafi staðið á því að meira og minna öll fjármálafyrirtæki landsins hafi verið búin að lána þessu eina fyrirtæki, þessum eina aðila eða fyrirtækjum honum tengdum, þ.e. Baugi, helsta styrktaraðila Samfylkingarinnar, langt umfram eðlilega hluti, án nauðsynlegra trygginga og umfram raunverulega fjárhagslega getu. Ef finna á einn aðila eða eina ástæðu sérstaklega innan lands fyrir því hruni sem varð þá er það fyrst og fremst því að kenna að þessum eina aðila var lánað langt umfram öll eðlileg mörk. Menn geta spurt sig að því hvernig hafi staðið á því að þessum aðila var lánað með þessum hætti. Var það vegna þess að orð viðkomandi voru alltaf tekin góð og gild? Var það vegna þess að viðkomandi fyrirtæki átti trausta málsvara í fjölmiðlum og einn stærsta stjórnmálaflokk landsins eða voru það einhverjar aðrar ástæður? Höfuðástæða bankahrunsins er sú að þessi eini aðili skuldaði yfir 1.000 milljarða í íslenskum fjármálafyrirtækjum þegar bankarnir hrundu.

Aðrir þætti sem valda síðan ójafnvægi í íslenska umhverfinu, sem ég hef iðulega gert að umtalsefni, t.d. verðtrygging lána og gengisbundin lán til einstaklinga, stafa fyrst og fremst af því að stjórnvöld gættu þess ekki að hafa hér gjaldmiðil og gjaldmiðilskerfi sem gæti gengið fyrir minnsta fjármálakerfi heims. Á það verður að minna í þessu sambandi að gengishrunið kemur á undan bankahruninu. Það er víti til varnaðar að vera með slíkan gjaldmiðil, við verðum þegar í stað að huga að því að taka upp breytta stefnu. Það er útilokað að láta heimilin í landinu sitja uppi með afleiðingar af því að verðtrygging fer upp úr öllu velsæmi og gengisbundnu lánin þróast með þeim hætti sem raun ber vitni. Huga verður að breyttum hlutum. Á sama tíma og ég lýsi yfir stuðningi við frumvarpið sem hér er um að ræða þá ítreka ég að það er rangt — það eru beinlínis vísvitandi rangfærslur — sem fram kom hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur áðan, að efnahagshrunið hafi verið íslenskum stjórnvöldum eða eftirlitsstjórnvöldum að kenna. Allar skýrslur og allar vísbendingar sýna fram á annað. Það verðum við að hafa í huga og við verðum að taka tillit til þess.