Tekjuskattur

Miðvikudaginn 15. apríl 2009, kl. 15:05:29 (7533)


136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[15:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Án þess að vilja tefja framgang þessa máls má ég til með að tala eilítið um ákvæði 1. gr. Frumvarpið fjallar reyndar um töluvert mörg önnur atriði sem ekki var ágreiningur um og er svo sem í lagi að afgreiða að mati nefndarinnar.

Það er þó eitt atriði sem ég benti á að væri dálítið ankannalegt. Það er í 7. gr., með leyfi frú forseta, að fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, lögmenn og aðrir aðilar skuli halda sérstaka skrá yfir þá viðskiptavini sína sem þeir veita skattaráðgjöf eða aðra þjónustu sem snertir umráð eða beina eða óbeina eignaraðild viðskiptavina að rekstri félaga, sjóða eða stofnana sem skráð eru erlendis eða eiga eignir þar. Er þeim skylt að láta skattyfirvöldum í té umrædda skrá ef þau beiðast þess.

Þarna er náttúrlega verið að finna kennitölur og einstaklinga sem gætu hafa fengið ráðgjöf sem menn telja að sé varasöm. Hins vegar held ég því miður, frú forseti, að það sé afskaplega auðvelt að fara í kringum þetta og það gera menn vegna þess að þeir geta veitt ráðgjöf yfir landamæri um allan heim í dag. Maður getur setið í Taívan og veitt ráðgjöf á Íslandi og öfugt. Það er hægt að veita ráðgjöf þvers og kruss og er dálítið erfitt að segja hver fær ráðgjöf. Til dæmis ef einhver maður ætlar að gera eitthvað sem ekki samræmist góðum siðum og hann óskar eftir ráðgjöf er honum bent á að hann fari á ákveðinn lista ef hann ætlar að kaupa þjónustu af þessu fyrirtæki, en hins vegar geti fyrirtæki í Taívan eða einhvers staðar í heiminum veitt honum sambærilega þjónustu. Þá fær hann ráðgjöfina þaðan í gegnum netið. Í rauninni hefur ekkert breyst nema það að reikningurinn kemur einhvers staðar frá útlöndum, hann borgar með gjaldeyri og fer ekki á neinn lista.

Ég bendi á þetta vegna þess að mér finnst menn vera þarna komnir dálítið langt yfir í stóra bróður-eftirlitshlutverkið og það er tiltölulega auðvelt að fara fram hjá því. En vonandi vilja sem fæstir slíka ráðgjöf og það er eiginlega verkefni næsta kjörtímabils að koma á góðum siðum og gagnsæi í allan markaðinn, allt viðskiptalífið og alveg sérstaklega hjá fjármálafyrirtækjunum.

Þá komum við að 1. gr. sem er mjög lúmsk vegna þess að rökin fyrir henni eru mjög augljós. Í fyrsta lagi að íslenska ríkið fái tekjur og ef gerður er tvísköttunarsamningur getur móttakandi vaxtateknanna dregið íslenska skattinn frá. Yfirleitt eru skattar erlendis hærri af fjármagnstekjum en hér á landi þannig að í sjálfu sér breytist ekkert fyrir hann. Það eina sem gerist er að íslenska ríkið fær skatttekjur í vasann.

Í öðru lagi, sem er kannski meginmarkmið breytinganna, á að koma í veg fyrir að menn flytji peninga til skattaskjóla þar sem skattar eru litlir eða engir og ekkert eftirlit með fjármagninu að öðru leyti. Þessi tvö markmið eru í sjálfu sér ágæt og ekkert við þau að athuga. En þá rekumst við á það að heimurinn er ekki alveg svona einfaldur þegar komið er út fyrir landsteinana. Menn þurfa að huga að mörgu öðru, t.d. því að íslensk fyrirtæki, stórfyrirtæki á okkar mælikvarða, orkufyrirtækin og hálfopinber og opinber fyrirtæki þurfa á mikilli fjármögnun að halda næstu árin og áratugina og strax næstu mánuði. Þá er mjög mikilvægt að ekki sé verið að auka eða íþyngja þeim með lánveitingum.

Við skulum hugsa okkur að menn séu að leita að fjármagni til að bora eftir heitu vatni eða gufu til raforkuframleiðslu til þess að knýja álver í Helguvík eða eitthvað slíkt og þurfi til þess lán. Þeir séu búnir að leita á hefðbundnum mörkuðum og þar er orðsporið kannski ekki nægilega gott þannig að menn eru hræddir við að lána til Íslands. Þá leita þeir til annarra landa sem þeir hafa ekki leitað til enn þá eins og Taívan, arabaríkjanna eða Japans, þar er geysimikið um fjármagn vegna þess að þessar þjóðir allar hafa flutt út miklu meira en þær flytja inn í áratugi og eiga mikla gjaldeyrisvarasjóði, og þeir ætla að taka lán þarna. Segjum að í Japan séu ákveðnir vextir í boði sem eru markaðsvextir þar sem lánveitendur í því landi vilja fá og kemur í ljós að þeir þurfa að borga skatt til Íslands og geta ekki dregið hann frá skatti heima fyrir. Þá munu þeir að sjálfsögðu segja: Við viljum fá okkar vexti og engar refjar þannig að í rauninni þarf íslenska fyrirtækið að borga skattinn fyrir lánveitandann vegna þess að lánveitandinn segir: Ég get fengið ákveðna vexti í Japan og ef einhver skattur til íslenska ríkisins minnkar þessar vaxtatekjur vil ég fá þeim mun meiri vexti fyrir skatt þannig að ég haldi mínum tekjum sem ég get fengið hvort sem er fyrir fjármagn mitt hér á landi eða annars staðar. Það yrðu því íslensku fyrirtækin sem mundu borga þennan skatt og er ekki á kostnaðinn bætandi.

Síðan er það líka þannig að þegar erlendu fyrirtækin sjá að þetta er reglan hér á landi og ekki er búið að gera tvísköttunarsamninga verða þeir hræddir við að lána. Þetta getur jafnvel orðið til þess að þeir láni ekki neitt af því að þeir hafa frjálst val um hvort þeir lána til Íslands eða ekki. Þetta var rætt nokkuð ítarlega í nefndinni og varð niðurstaðan sú að menn ættu að bíða með þetta og setja ekki svona reglur sem eru auk þess ekki mjög algengar í öðrum löndum.

Þá komum við að þeim endanum sem eru skattaskjólin. Ég held að það séu allir á því að það þurfi að reyna að koma í veg fyrir að menn stofni hlutafélög einhvers staðar, á Tortólaeyju eða eitthvað slíkt og þá er spurning um að fara aðra leið sem bent hefur verið á, mér skilst að Norðmenn hafi farið þá leið. Það mætti hafa þetta þrískipt: Í fyrsta lagi ef vextirnir eru greiddir til landa sem gerður hefur verið tvísköttunarsamningur við verði lagður á þá skattur. Ef vextirnir eru greiddir til landa sem ekki hefur verið gerður tvísköttunarsamningur við og ekki er skattaskjól sé ekki greiddur skattur. Ef vextir eru greiddir til skattaskjóla sé settur á þá skattur.

Ég hygg að einhvern veginn svona muni niðurstaðan verða þegar hv. nefnd fer í gegnum þetta vonandi eftir kosningar og setur um þetta reglur þannig að ríkið fái sínar tekjur þegar um er að ræða tvísköttunarsamninga. Enginn skattur sé greiddur þegar um er að ræða lönd sem ekki hefur verið gerður tvísköttunarsamningur við og varðandi skattaskjólin, sem munu víst vera nokkuð skilgreint hugtak í alþjóðarétti, verði greiddur skattur til að koma í veg fyrir að menn komi tekjunum undan skattlagningu yfirleitt.

Hins vegar held ég að menn þurfi að skoða miklu betur hvar fyrirtæki fá áhættufé og lánsfé og að settar verði miklu gagnsærri reglur en hingað til hafa tíðkast. Ég hef einmitt flutt um það þingsályktunartillögu, 3. mars minnir mig, þar sem Alþingi skorar á viðskiptanefnd að flytja um það frumvarp, sem er líka nýmæli, um að búa til nýtt hugtak hlutafélaga sem eru gagnsæ hlutafélög en þau upplýsa um öll dótturfélög sín á netinu t.d. og alla eigendur sína sem ekki eru einstaklingar og veita ekki arð eða atkvæðisrétt til annarra hlutafélaga en þeirra sem eru gagnsæ. Þannig sé búið til nýtt net af gagnsæjum hlutafélögum. Svo er eitt ákvæði í viðbót sem er kannski það mikilvægasta að gagnsætt hlutafélag má ekki kaupa í eigendum sínum beint eða óbeint. Það á ekki kaupa upp fyrir sig og það má ekki heldur lána til eigenda sinna beint eða óbeint. Þannig er komið í veg fyrir hringamyndun þar sem peningastreymi er í hring eins og við höfum upplifað í mjög ríkum mæli hér á landi með krosseignarhaldi sem gerir fjármálakerfið mjög viðkvæmt fyrir áföllum. Það býr til peninga sem ekki eru til með því að lána til starfsmannanna með veði til hlutabréfakaupa, með veði í hlutabréfum sem er mjög óvenjulegt. Ég held að verkefni næstu ára — og það er mín sýn til framtíðar — sé að breyta atvinnulífinu þannig að eignarhald í fyrirtækjum verði gagnsætt og heiðarlegt og að bæði lánveitendur og fjárfestar gangi að því vísu hvernig eignarhaldinu er háttað. Þá hverfa fyrirtæki á Tortólaeyju sem eigendur vegna þess að þar er eignarhaldið ekki nægilega skýrt. Þegar búið er að búa til kerfi gagnsærra hlutafélaga munu önnur hlutafélög innan mjög skamms tíma ekki eiga neinn „séns“ vegna þess að gagnsæ hlutafélög mundu njóta velvildar fjárfesta og lánveitenda. Þannig held ég að við séum búin að koma á ákveðinni siðvæðingu í atvinnulífinu til nokkurra ára og alveg sérstaklega í fjármálakerfinu sem stoppar í öll þau göt sem við sjáum í dag á þessu kerfi. Við höfum orðið vitni að ótrúlegum lánveitingum og ótrúlegum hlutafjárkaupum í hringi.

Ég hugsa að verkefni næsta kjörtímabils verði einmitt það að breyta þessu og þar mun ég ekki liggja á liði mínu og mun nota alla mína krafta til að koma slíku kerfi í gegn. Mín sýn á vandann er mjög greinileg eftir þau áföll sem við höfum orðið fyrir, ég tel mig vera búinn að greina að einhverju leyti hvað olli þessum ósköpum sem urðu hérna sl. haust. Þegar búið er að greina vandann og finna út úr því hvað það var sem olli þessu getum við að sjálfsögðu farið að leita lausna og ég tel að eitt af því sé t.d. skattlagning á vexti á milli landa.