Friðlýsing vatnasviðs Skjálfandafljóts

Þriðjudaginn 04. nóvember 2008, kl. 15:30:59 (725)


136. löggjafarþing — 19. fundur,  4. nóv. 2008.

friðlýsing vatnasviðs Skjálfandafljóts.

34. mál
[15:30]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vildi bæta hér við nokkrum orðum og þá kannski helst að þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir góðan stuðning við þessa þingsályktunartillögu. Hún er jú búsett skammt frá því svæði sem við leggjum til að verði friðlýst og ég er nær sannfærð um að hún þekkir svæðið sjálf.

Það er svo mikilvægt að heimamenn sjálfir taki upp baráttuna og veifi flagginu, kynni þau svæði sem þeir vita sjálfir hversu verðmæt eru. Ég tel mig tala af nokkurri reynslu, búsett austur á Héraði. Það opnaðist mér alveg nýr heimur við að flytjast austur á Egilsstaði fyrir 25 árum síðan og fara í fyrsta skipti inn að Snæfelli, að Hafrahvammagljúfrum og inn á Austur-Öræfin þar sem ég hafði aldrei komið áður. Ég hafði ekki hugmynd um að þessi miklu gljúfur, Hafrahvammagljúfur, væru til á landinu. Ásbyrgi og gljúfrin fyrir norðan eru þekkt en Hafrahvammagljúfur höfðu ekki komist á blað. Það voru bara smalar og heimamenn sem vissu um þetta svæði. Ég efast um að ef sú óspillta náttúra sem núna finnst ekki nema undir vatni hefði verið þjóðinni kunn hefðum við ekki farið í að gera hið mikla lón, Hálslón. Það er alltaf sú nálgun að maður þurfi að þekkja til eða kynna sér til þess að geta verið í forustu og beitt sér fyrir verndun.

Því fagna ég sérstaklega vinnu heimamanna að heimasíðunni þar sem svæðið er kynnt. Ég vona að þessi þingsályktunartillagan fái enn frekara brautargengi. Ég tala nú ekki um ef við förum að vinna svo með nýja vatnatilskipun Evrópusambandsins þar sem fram kemur sú breytta sýn að líta á vatn sem auðlind, að gera sér grein fyrir mikilvægi drykkjarvatns og þeim skorti sem víða blasir við í heiminum þar sem fólk á heilu landsvæðunum og jafnvel í heilu álfunum þjáist af drykkjarvatnsskorti. Þar er einnig talað um aðgengi fólks að vatni, um forgangsröðun þjóða á nýtingu vatns og mikilvægi þess að vernda vatnasvæðin og koma þeim helst í sitt upprunalega horf á þeim svæðum sem hefur verið spillt af ýmsum ástæðum, auka sjálfbæra nýtingu vatns.

Hæstv. forseti. Það liggur í augum uppi að líta á á svæðið í kringum Skjálfandafljót og vatnasvæði þess sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði. Það hefur verið litið mjög jákvætt til þess að færa Vatnajökulsþjóðgarð til vesturs og taka inn vatnasvið Skjálfandafljóts. Ég tel að það sé næsta skref sem við eigum að taka í því máli þrátt fyrir aðhald í ríkisfjármálum og þeim þrengingum sem við stöndum frammi fyrir núna. Það verður erfitt að koma saman fjárlögum, ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, en það eru verkefni eins og fornleifarannsóknir sem skila okkur auðæfum til lengri tíma litið sem má ekki skera svo niður að ekki verði hægt að stunda þær með sóma áfram. Þar vil ég sérstaklega nefna Þingey sem er mjög merkilegur staður. Við Íslendingar ættum að þekkja þann stað og kynna hann betur í ferðaþjónustunni.