Húsnæðismál

Þriðjudaginn 11. nóvember 2008, kl. 17:05:23 (985)


136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að mér sé óhætt að segja við hv. þingmann að það verður enginn borinn út á götuna af Íbúðalánasjóði á næstu mánuðum eða árum. Það verður þá að hafa verið eitthvað annað en greiðslugetan sem veldur á þeim tíma. Tímasetningarnar verða endurnýjaðar jafnóðum og metnar. Ég trúi ekki að það komi til þess nema um sé að ræða einhver langvarandi vanskil aftur í tímann sem tengjast ekkert þessari uppákomu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það vanti meira. Ég nefndi það áðan að ég vildi sjá heildstæðan pakka sem tæki á þessum málum í heild. En það væri þá fyrst og fremst til að sýna hvað er verið að gera og hvað er í undirbúningi. Það verður ekki allt klárað með einni lagasetningu og ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að við tökum þessu jafnóðum og það er tilbúið að koma inn í þingið. Sem betur fer er það nú þannig að það eru ekki mjög margir sem hafa lent í miklum vandræðum nú þegar en það mun aukast mjög hratt og þess vegna þurfum við að höndla það.

Það er okkar hlutverk að tryggja að fólk sé rólegt. Það skiptir líka miklu máli að þingmenn tali ekki ótta í fólk og láti, af einhverjum annarlegum hvötum, í það skína að ekkert sé verið að gera. Það er búið að gera heilmikið. Það er búið að endurreisa og tryggja að hér verði bankastarfsemi. Það er búið að setja út reglur varðandi Íbúðalánasjóð. Það er verið að vinna að því að koma þessu á. Forseti ASÍ stjórnar hópi sem á að fjalla um verðtrygginguna og ég lýsti því yfir áðan að vonandi skilar sá hópur af sér nú í vikunni. Þetta er að gerast allt saman á þessum dögum.

En það er alveg hárrétt að það er ekki búið að stilla pakkanum upp í heild. Kannski getum við það seint vegna þess að það þarf að grípa til nýrra úrræða á hverjum tíma. Aðalatriðið er að við sýnum einbeittan vilja til að reyna að tryggja að fólk, heimili og einstaklingar lendi ekki í þrotum og að fólk búi ekki við sára fátækt (Forseti hringir.) á næstu mánuðum. Það skiptir mestu máli.