Húsnæðismál

Þriðjudaginn 11. nóvember 2008, kl. 17:28:16 (988)


136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[17:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum breytingar á lögum um húsnæðismál. Frumvarpið er ekki mikið að vöxtum, þrjár greinar. 3. gr. kveður á um gildistöku, 1. gr. um að heimila Íbúðalánasjóði að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði og 2. gr. gengur út á það að heimila að lánstími skuldbreytingalána sem Íbúðalánasjóði er heimilt að veita lánþegum sínum vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika verði lengdur úr 15 árum í 30. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þessar tillögur séu þáttur í aðgerðum sem félags- og tryggingamálaráðherra hafi gripið til í samvinnu við Íbúðalánasjóð til að rýmka heimildir og fjölga úrræðum sem Íbúðalánasjóður hefur til að koma til móts við lántakendur sem lenda í greiðsluvanda og síðan er rakið hvernig líklegt sé að sá vandi fari vaxandi vegna þeirra erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir.

Um heimildir Íbúðalánasjóðs til að annast leigumiðlun þá er getið um það í greinargerð hvernig þetta taki á þremur þáttum: Í fyrsta lagi að heimildin verði nýtt til að gefa leigjendum íbúðarhúsnæðis sem Íbúðalánasjóður hafi eignast á nauðungaruppboði kost á að leigja íbúð áfram. Í öðru lagi að Íbúðalánasjóður geti við sérstakar aðstæður boðið fyrrum eiganda íbúðarhúsnæðis að búa í húsnæði áfram í tiltekinn tíma. Og í þriðja lagi er heimildin hugsuð til að tryggja að Íbúðalánasjóður geti gætt hagsmuna sinna og haft arð af íbúðarhúsnæði sem kemst í eigu sjóðsins.

Allt er þetta góðra gjalda vert og nokkuð sem ég kem til með að styðja en ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að þótt þetta sé gott mál erum við náttúrlega bara að pissa í skóinn okkar. Hér er enn eina ferðina verið að lengja í hengingarólinni. Ríkisstjórnin er nýbúin að heimila vaxtahækkun um 50%, stýrivextir voru hækkaðir að skipun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um 50% upp í 18 prósentustig, nokkuð sem smitaði inn í allt vaxtakerfi landsmanna. Það eru nokkur áhöld um hver hafi ákveðið þetta og er kapítuli út af fyrir sig hvernig ríkisstjórnin fer undan í flæmingi. Það eru alls kyns útgáfur um þetta, hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi fyrirskipað þetta, hvort Seðlabankinn hafi ákvarðað þetta eða hvort ríkisstjórnin hafi ákveðið þetta. Það sem ég held að sé hið rétta í málinu er að þetta sé samkvæmt forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins uppáskrifað af ríkisstjórn en framkvæmt af Seðlabanka vegna þess að hann hefur hið lögformlega ákvörðunarvald með höndum. Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir, ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að keyra upp vaxtaskrúfuna.

Vextir á lánum Íbúðalánasjóðs eru núna 5,4%, þ.e. 5,4% ofan á verðbólgu, verðbólgu sem núna mælist um 16%. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að lán Íbúðalánasjóðs bera núna í reynd vexti upp á 21,4–21,5%. Hvað þýðir það? Það þýðir 250 þús. kr. á hverja milljón. Gera menn sér grein fyrir þessu? Gera menn sér grein fyrir því að við erum að tala um 2,5 millj. á ári fyrir hverjar 10 millj. sem fjöldi fólks skuldar? Þetta er náttúrlega hlægileg aðgerð ef út í það er farið hjá ríkisstjórn sem keyrir upp vaxtaskrúfuna á fyrirtækin og heimilin í landinu. Hér kemur eins konar afsökunarbeiðni, lenging í hengingaról, þetta er ekkert bjargráð fyrir fólkið og fyrirtækin, það er bara verið að lengja í hengingarólinni. Allar tillögur sem koma frá stjórnvöldum núna skuldurum til handa eru í þessa veru, þ.e. að fresta greiðslu á lánum frá einu upp í þrjú ár, færa þessar byrðar yfir á höfuðstólinn eftir þrjú ár en þá verður mannskapurinn náttúrlega leiddur upp í gálgann að nýju með þessum þungu klyfjum. Það er ekkert verið að létta á þeim, ekki neitt. Við skulum því hafa það hugfast, hæstv. forseti, að við búum við ríkisstjórn sem er að torvelda lántakendum, hvort sem það eru íbúðarkaupendur eða fyrirtækin í landinu, að ráða við skuldbindingar sínar. Þetta er bara til að lina þjáningarnar um stundarsakir. Það er ekki verið að gera neitt annað.

Síðan er annað sem ég vildi gjarnan koma inn á vegna þess að við höfum rætt um verðtrygginguna. Ég held að það hljóti að vera keppikefli og markmið að losna við verðtryggingu á lánum. Hins vegar hef ég ákveðnar efasemdir um að afnema verðtryggingu á lánum í óðaverðbólgu einfaldlega vegna þess að það þýðir þyngri raunvexti í núinu. Það er það sem gerist. Ég hef grun um að hæstv. forseti sé sammála mér hvað þetta snertir enda sitjum við saman í félagsmálanefnd þingsins. Hann gerir grein fyrir afstöðu sinni síðar. Vandinn við verðtrygginguna er nefnilega sá að verðtryggð lán eru dýrari kostur fyrir lántakandann þegar upp er staðið en í núinu eru greiðslur af verðtryggðum lánum ekki eins miklar og af óverðtryggðum lánum. Allar skýrslur sem gerðar hafa verið um þetta efni hafa sýnt okkur að greiðslukvöðin, greiðslan í núinu af verðtryggðum lánum er minni en af óverðtryggðum lánum vegna þess að hluti greiðslunnar frestast og færist yfir á höfuðstólinn síðar. Þetta er vandinn. Hins vegar er það svo að lántakandinn greiðir meira þegar upp er staðið og aftur segi ég: Það er dýrt að vera fátækur. Verðtryggðu lánin eru dýrari þegar upp er staðið þó að greiðslubyrðin sé minni í núinu. Þess vegna tel ég að það sé ekki ráð að afnema verðtrygginguna í óðaverðbólgu en hins vegar á það að vera markmið okkar. Þegar þjóðarsáttarsamningarnir svokölluðu voru gerðir árið 1990 var rætt um það og ákvæði var í samningunum eða í markmiðslýsingu sem kom frá ríkisstjórninni og aðilum vinnumarkaðarins um að ráðist yrði í afnám verðtryggingar samfara því að verðbólgan yrði keyrð niður. Það hlýtur að vera sameiginlegt keppikefli okkar og markmið að losa okkur við verðtrygginguna fyrr en síðar en að afnema hana núna er einvörðungu ávísun á meiri greiðslubyrði fyrir þann sem er að greiða af lánum.

Hæstv. forseti. Það sem ég vildi leggja áherslu á er þetta: Ríkisstjórnin er í þessu máli að grípa til ívilnandi aðgerða en þær gera ekkert annað en að lengja í hengingaról fólks, fólkið verður leitt upp í gálgann síðar. Það er ekki verið að létta byrðarnar og ríkisstjórnin er búin að skrifa upp á þyngri skuldabyrðar með því að fallast á afarkost Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að færa vaxtastigið upp og það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir fyrst og fremst.