Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008, kl. 11:44:02 (1604)


136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson um að ekkert skortir á sannfæringu mína um að rannsaka þurfi aðdraganda falls fjármálakerfisins á Íslandi og leiða fram í dagsljósið svör við öllum þeim álitamálum sem uppi eru og þeim mörgu spurningum sem ósvarað er frá því að bankarnir voru gerðir að hlutafélögum og síðan seldir. Þá vöknuðu ýmsar spurningar sem þarf að fá svör við.

Ég var reyndar að skerpa á því í ræðu minni að þættina sem skírskotað er til í greinargerðinni og frumvarpinu þurfi að leiða til lykta. Ég heyri að hv. þm. Sigurður Kári er mér sammála um þetta efni. Þannig að ef þau markmið nást í rannsókninni sem ég tíundaði í ræðu minni áðan og er vísað til í frumvarpinu þá tel ég vegferðina að sjálfsögðu mjög til góðs.

Ég get fullvissað hv. þingmann um það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt og leggur ríka áherslu á að þessi mál verði skoðuð og rannsökuð ofan í kjölinn. (Gripið fram í.)