Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008, kl. 11:48:47 (1607)


136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[11:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni að það frumvarp sem hér er til umræðu skuli vera komið fram á Alþingi. Okkur hefur mörgum verið farið að lengja eftir því en það er gott að sjá að það er svo vel úr garði gert að halda má því fram að biðin hafi verið þess virði.

Það hefur verið eindregin afstaða Samfylkingarinnar frá því að þessi ósköp dundu yfir að rannsókn á tildrögum þessara atburða þyrfti að fara fram og sú rannsókn ætti að vera á höndum Alþingis en ekki á höndum framkvæmdarvaldsins að einu eða neinu leyti. Það væri mjög mikilvægt að kastað væri ljósi á alla þætti þessa máls, jafnt lagalega þætti sem og þá siðferðilegu og framkvæmdaatriði og að horft væri til myndarinnar í heild og að skýrslan sem kæmi fram legði þannig grundvöll að heilbrigðari samfélagi að öllu leyti. Jafnt í stjórnmálalífi, í opinberri stjórnsýslu sem í fjármálalífinu.

Sem þingmaður vil ég þakka forseta Alþingis sérstaklega fyrir góða vinnu í þessu máli og að hann skuli hafa lagt jafnmikla áherslu og hann hefur gert á að þetta mál verði í höndum þingsins og hafa haft forgöngu um málið og að flytja það hér á Alþingi. Það er mjög mikilvægt að Alþingi taki afgerandi forustu í þessu máli og að hvergi leiki vafi á því í samfélaginu að rannsókn fari fram á forsendum Alþingis og þeirrar löggjafar sem hér er mörkuð og að hún sé algjörlega óháð framkvæmdarvaldinu.

Sú rannsókn sem stefnt er að með frumvarpinu markar mikil tímamót í íslensku samfélagi. Rannsóknarnefndinni eru látnar í té gríðarlega víðtækar valdheimildir og rannsóknin getur beinst í margar áttir. Það er alveg ljóst að allir efnisþættir verða uppi á borði í rannsókninni og nefndin hefur allar forsendur til að kanna allt það sem hún telur máli skipta. Það er líka ljóst að þarna er komið í fyrsta skipti með skýrum hætti í hliðstæðum rannsóknum á vernd fyrir þá sem vilja koma fram með upplýsingar og ella væru bundnar þagnarskyldu eða gætu átt á hættu aðgerðir yfirmanna eða einhvers konar hefndaraðgerðir í starfi ef þeir láta upplýsingar í té. Það er gríðarlega mikils virði því nú eigum við allt undir því að allir geti talið sér fært að koma fram með allt sem þeir vita í þeirri rannsókn sem hér er efnt til.

Ég vil hins vegar fara nokkrum orðum um það sem ég tel að væri æskilegt að nefndin tæki sérstaklega tillit til í meðferð sinni. Ég tel að þótt vel hafi verið vandað til verka þá sé orðalag kannski ekki klappað í stein og því mikilvægt að nefndin fari vel yfir það í þeirri vinnu sem fram undan er þannig að tryggt sé að þetta mál sé eins vel úr garði gert og mögulegt er af hálfu þingsins.

Það skiptir líka máli að skýrt komi fram í umræðum til hvers vilji þingmanna stendur. Enda eru umræðurnar lögskýringargögn um það hver vilji Alþingis var þegar lögin voru sett og því mjög mikilvægt að bæði komi fram hvað þingmenn vilja sjá að sé rannsakað og ef því er ekki mótmælt í umræðum þá standi það sem skýring á þeim lagatexta sem á endanum mun koma frá Alþingi.

Mér þykir athugunarvert að ákvæði 1. gr. markmiðsgreinarinnar einkennast um of af nokkurri lagahyggju. Ég er ekki sannfærður um að það hafi verið veruleg vanhöld á löggjafarumhverfi sem hafi valdið þeim vanda sem við erum komin í í dag. Ég tel að í mörgum tilvikum sé líka löggjöfin svo óljós að það sem hafi t.d. verið leyft í einum banka hafi verið bannað í öðrum.

Ég tel þess vegna alla ástæðu til að víkka sýnina á málið frá þröngri lagahyggju því ég tel að það sé ekki hægt að gera því skóna að það hafi endilega verið ágallar í löggjöf sem hafi átt þátt í þessu hruni. Ég vek athygli á því að í 3. mgr. 1. gr. er fjallað um að athuga skuli hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði á fjármálamarkaði. Nefndinni er ekki ætlað að sinna þessu verkefni í hinni almennu rannsókn heldur er gert ráð fyrir því að sérstök nefnd verði skipuð af hálfu forsætisnefndar Alþingis til að fara með það verkefni.

Ég sé í sjálfu sér ekki rökin fyrir því að skipta viðfangsefni rannsóknarinnar upp með þessum hætti. Ég sé heldur ekki að það sé hægt að líta á þetta mál annars vegar út frá lögfræði og hagfræði og svo hins vegar út frá siðferði og góðum stjórnsýsluháttum. Ég tel að það verði að horfa á málið í heild og það sé ekki þannig að hægt sé að horfa á lagalega þætti og hagfræðilega þætti án nokkurrar tengingar við siðferði eða góða stjórnsýsluhætti. Auðvitað þarf að horfa á heildarmyndina og hún þarf að vera ljós.

Ég sé því engin tormerki á því að fella 3. mgr. einfaldlega inn undir hin tölusettu markmið þannig að þetta sé eitt af markmiðum rannsóknarinnar og jafnframt að greinin verði útvíkkuð á þann hátt að hún taki ekki einungis til þess að rannsakað verði hvort skýringar á falli íslensku bankanna og tengdum efnahagsáföllum megi að einhverju leyti finna í starfsháttum og siðferði á fjármálamarkaði heldur verði hún víkkuð út þannig að hún taki líka til starfshátta og siðferðis í stjórnmálalífi eða í opinberri stjórnsýslu. Þessi efnisþáttur rannsóknarinnar falli þá inn undir hin tölusettu viðmið og sé því hluti af hinni heildstæðu rannsókn. Ég sé engin rök til að setja álitamál sem eru siðferðilegs efnis eða lúta að góðum stjórnsýsluháttum eða starfsháttum á fjármálamarkaði skör lægra en önnur viðfangsefni. Ég tel ekki heldur rétt að taka bara fyrir starfshætti og siðferði á fjármálamarkaði en ekki í stjórnmálalífi eða í opinberri stjórnsýslu. Ég tel einfaldlega að þarna þurfi allt að vera undir.

Sem dæmi um atriði sem þetta skiptir máli þá eru fjölmargir þættir í starfsháttum og starfsumgjörð í opinberri stjórnsýslu sem kunna að hafa haft áhrif. Því hefur t.d. verið haldið fram af mörgum sérfræðingum að sú ákvörðun, árið 2002, að leggja Þjóðhagsstofnun niður hafi haft mikil áhrif til hins verra. Eftir að hún var lögð niður var engin sjálfstæð opinber stofnun sem sinnti hagrannsóknum heldur voru rannsóknir í efnahagslífi settar undir aðila sem líka höfðu ákveðin verkefni í stjórnkerfinu og þar af leiðandi óbeinna hagsmuna að gæta, þ.e. felld til Seðlabanka, felld til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis eða felld til greiningardeilda bankanna. Allt eru þetta aðilar sem eru virkir þátttakendur í atburðarásinni. Þannig að sú stofnun sem átti að veita ráð einungis ráðgjafarinnar vegna var tekin burt úr heildarmyndinni.

Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á það góða fólk sem starfar hjá umræddum stofnunum en eftir þessar breytingar varð þetta einfaldlega ekki þannig að einhver stofnun hafi haft ráðgjöf á sinni könnu, algjörlega hlutlaus stofnun og hafin yfir vafa um að tengjast með nokkrum hætti verksviði viðkomandi stofnunar að öðru leyti. Ég held að þessi ákvörðun ríkisstjórnarmeirihlutans árið 2002 hafi verið afar misráðin og hafi grafið undan upplýstri umræðu um efnahagsmál í landinu á árunum á eftir.

Ég tel einnig, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á áðan, að nauðsynlegt sé að rannsaka þetta mál líka aftur í tímann. Það verður að horfa til allra þátta og það verður að horfa allt aftur til einkavæðingar bankanna. Það á allt að vera undir á þessu sviði, þ.e. hvernig atburðarásin hefur þróast, alveg frá þeim tíma þegar bankarnir eru ríkisbankar og lúta tiltekinni umgjörð í því ljósi og þangað til að við endum í þeirri stöðu sem nú er. Þar verður allt að vera undir og athugunin verður að beinast að öllum þessum þáttum.

Í framhaldi af þessu tel ég síðan eðlilegt að ákvæði 13. gr. frumvarpsins verði endurskoðuð, þar sem vikið er að því hvernig nefndin muni gera grein fyrir niðurstöðum. Hér er gert ráð fyrir að hún muni gera þeim viðvart sem orðið hafa á mistök eða orðið uppvísir að vanrækslu í starfi, gera þeim skriflega grein fyrir afstöðu sinni og eftir atvikum lagatúlkun og þegar komið er að niðurstöðu og gefa þá viðkomandi hæfilegan frest til að gera skriflegar athugasemdir. Þarna þarf að koma inn líka vísan til almennra ábendinga um það sem betur megi fara í framgöngu í opinberri stjórnsýslu og aðra þætti sem nefndin telur ástæðu til að gera tillögu um.

Ef allsherjarnefnd telur í meðferð sinni að ekki sé hægt að breyta með þessum hætti markmiðslýsingunni vegna samsetningar nefndarinnar þá held ég að æskilegra sé að stækka nefndina og setja þar inn fleiri sérfræðinga frekar en að skipta rannsókninni upp með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég tel einfaldlega að það séu meiri hagsmunir af því að heildarmyndin sé undir í einni skýrslu í höndum þessarar yfirnefndar heldur en geta falist í því að brjóta rannsóknina upp með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 3. mgr. 1. gr. og svo aftur í 3. mgr. 2. gr.

Ég bendi líka á að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. hefur yfirnefndin víðtækar heimildir til að skipa sérstaka vinnuhópa sem síðan er ætlað að aðstoða eða sinna ákveðnu rannsóknarverkefni og hún gæti þá þess vegna sett sérstakan hóp sem horfi á siðferðilega þætti eða starfsháttaþætti, jafnt í stjórnmálalífi sem í fjármálalífi undir sinni yfirstjórn. Ég tel því öll rök mæla með því að rannsóknin verði gerð heildstæðari að þessu leyti og að rannsóknin á siðferðilegum þáttum og alls staðar á fjármálamarkaði, í stjórnmálalífi og í opinberri stjórnsýslu verði beinn hluti af stóru rannsókninni en ekki gerð að einhverri hliðarrannsókn sem hefur minna vægi.

Að síðustu, virðulegi forseti, vil ég ítreka þakkir fyrir vinnslu þessa máls. Þetta eru mikil tímamót. Það hefur ekki áður gerst að stofnað sé til rannsóknar sem á að leiða sannleikann í ljós með jafnvönduðum hætti og hér er gert. Eins og hv. 1. flutningsmaður, forseti Alþingis, nefndi í framsöguræðu sinni þá eigum við mikið undir því að það takist að endurheimta traust á efnahagslífið. Til þess þarf að byggja upp traust á stofnunum samfélagsins og þeirri grunngerð sem efnahagslífið hvílir á. Þetta er mjög gott fyrsta skref í þeirri vegferð.