Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008, kl. 12:05:09 (1610)


136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:05]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það sem þingmaðurinn átti við sé alveg skýrt núna. Í sjálfu sér þykir mér mikilvægt að fá þá yfirlýsingu frá hv. þingmanni, talsmanni Samfylkingarinnar í umræðunni, að það skipti verulegu máli að hinn siðferðilegi þáttur sé rannsakaður jafnhliða öðrum þáttum málsins og að sú hlið málanna geti þá verið einn af tölusettu liðunum undir þriggja manna nefndinni, en jafnframt líti hann svo á að skipa megi sjálfstæðan vinnuhóp varðandi þá þætti og þá sé það kannski ekki alfa og omega hvort sá vinnuhópur sem mundi vera skipaður fræðimönnum á hugvísindasviði verði skipaður af forsætisnefnd eða af þriggja manna nefndinni sjálfri. En það er búið að varpa ljósi á þau álitamál sem ég taldi vera eftir ræðu þingmannsins.