Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008, kl. 12:29:45 (1614)


136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:29]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi hv. þm. Helga Hjörvar á þann veg að við stæðum ekki frammi fyrir þessum vanda hefðum við verið aðilar í ESB og reyndar hefur Samfylkingin fleygt því fram að lausnin á vandanum sé aðild að ESB þannig að það er sama á hvorn endann er litið þar. Ég lít svo á að þetta gefi mér tilefni til að álykta sem svo að það verði hluti af þeirri rannsókn sem hér er mælt fyrir um að skoðað verði hvort slíkar staðhæfingar eigi rétt á sér. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um það að rannsóknin taki til þess hvort ESB hefði komið í veg fyrir vandann og jafnvel leyst hann fyrst hann kom upp — að leysa hann með því að ganga í Evrópusambandið strax.

Það er einu sinni svo að Samfylkingin hefur nefnt þetta sem töfralausn, bæði evru og ESB, án þess að rökstyðja það. Við höfum lögtekið 2/3 af löggjöf Evrópusambandsins, m.a. með eftirlitsstofnanir, þannig að þetta kallar á betri skýringar. Sú staðreynd liggur líka fyrir, hv. þingmaður, og ég vona að ég fari rétt með nöfn landa, að Ungverjaland er aðili að ESB, hefur ekki fengið að taka upp evru en er í vandamálum. Sama gildir um Lettland eða Litháen. Það gerðist líka í aðdraganda kreppunnar úti að stærstu ríki ESB komu saman til að reyna að leysa efnahagsvandann og fóru heim hvert í sínu lagi og fóru að leysa hann heima hjá sér. Ekki hjálpaði það þeim. Af hverju eru erfiðleikar þar ef ríkin í ESB eru hvert í sínu lagi að leysa vandamálin? Þetta kallar á rökstuðning, hv. þingmaður. Einberar staðhæfingar að þessu leyti duga ekki almenningi þessa lands.