Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008, kl. 12:35:45 (1617)


136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[12:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verð ég þó að segja að sá sem ekki hefur áttað sig á því að gjaldeyriskreppan sem varð í landinu vó þungt í því hversu mikið áfallið varð, sá sem ekki hefur áttað sig á því hve veikur, vanmáttugur og stundum viðvaningslegur Seðlabankinn var, okkar litli seðlabanki í okkar litla landi, í því að reyna að veita hinum stóru og alþjóðlegu fyrirtækjum þann bakstuðning sem þau þurftu — ég hélt að það hefði ekki farið fram hjá neinum.

Ég hélt að það hefði ekki farið fram hjá neinum að það sem hér skorti var lausafé, ekki krónur því að þær prentum við sjálf, heldur mynt sem hægt var að nota. Þess vegna hefði það auðvitað verið algjört grundvallaratriði við að minnka áhrifin af þessu mikla áfalli ef við hefðum notað hér mynt sem hefði verið hægt að nota í þessari stöðu í viðskiptum við aðrar þjóðir og það á einnig við í dag. Það hefur verið okkar helsta vandamál í viðbrögðunum við þessum bráðavanda. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að á næstu vikum þegar við förum að fleyta krónunni okkar aftur komi sú vöntun enn og aftur í ljós.

Um fjármálakreppur er einfalt að segja að það er auðvitað allur munur að hafa risastóran og mjög öflugan seðlabanka sem bakhjarl viðskiptabankanna í sínu landi en að eiga þann litla seðlabanka sem við áttum sem ekki hafði neina gjaldeyrisvarasjóði í hlutfalli við stærð fjármálakerfisins sem hér var.

Það er það sem ég meina með þeim félagslegu „strúktúrum“ sem eru á evrópska markaðnum og við eigum að eiga aðild að. (Forseti hringir.)