Húsnæðismál

Fimmtudaginn 04. desember 2008, kl. 12:09:19 (1745)


136. löggjafarþing — 42. fundur,  4. des. 2008.

húsnæðismál.

137. mál
[12:09]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þingmálið. Eins og fram kom í máli formanns félagsmálanefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, er ég á þessu nefndaráliti sem fulltrúi í félagsmálanefnd og tek undir þau sjónarmið sem fram komu í máli hans. Ég tek einnig undir það sem hann lagði áherslu á að hér væri verið að lengja í lánum, opna kerfið, rýmka það, gera það sveigjanlegra. Ég hef áður sagt að þessar ráðstafanir, þótt mikilvægar séu, leysi ekki vanda fólks til frambúðar enda sé fyrst og fremst verið að lengja í hengingarólinni — eins og það var einhvern tíma orðað og nokkuð til í því — en skipti vissulega máli til að fá ráðrúm til að taka á málinu.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. formanns að við þurfum að halda vinnunni áfram, finna leiðir til að bæta stöðu skuldara og fjölskyldna sem standa frammi fyrir því að missa heimili sín ef fer sem horfir. Þar þarf að taka vísitölugrunninn sjálfan til skoðunar og endurmats og síðan þarf að kalla lífeyrissjóðina og bankakerfið til samráðs um framhaldið, hvað varðar vexti, vísitölutengingu lána og annað sem snertir lánskjörin.