Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:18:26 (1954)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:18]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka heils hugar undir orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og tek undir gagnrýni hans á ríkisstjórnina og kannski líka á forseta Alþingis. Það er auðvitað spurning hvort forseti Alþingis eigi ekki að hafa sterkari bremsur en raun ber vitni. Mér þótti nóg um þegar íslensk málstefna sem við ræddum fyrr í dag kom á dagskrá fundarins en hún var sett á dagskrá með afbrigðum. Þá hugsaði maður með sér að meira að segja íslensk málstefna þyrfti að fara á dagskrá þingsins með afbrigðum. Þetta er auðvitað ekki nógu góður svipur.

Svo segi ég sömu sögu og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, það er innan við klukkutími síðan ég fregnaði að hér ætti að setja nýjan fund klukkan fjögur og að af níu málum sem eru á dagskrá eru sjö sett á dagskrána með afbrigðum. Það er langt í frá að þetta geti talist sæmandi, hæstv. forseti, og jafnvel þó að við séum að fara í gegnum óvanalegar aðstæður þá tel ég það hvorki réttlæta né afsaka að hér sé unnið með þessum hætti.

Í umhverfisnefnd Alþingis var tekin fyrir í morgun beiðni frá iðnaðarnefnd um að gefa umsögn um frumvarp til laga um kolvetnisvinnslu. Þetta frumvarp um skattlagningu kolvetnisvinnslu er beintengt því frumvarpi, eins og kemur fram í greinargerð. Á fundi umhverfisnefndar í morgun, þar sem við vorum að taka á móti gestum til þess að undirbúa umsögn okkar til iðnaðarnefndar, kom fram að ráðuneytin hafa látið undir höfuð leggjast að hafa samráð við allar þær stofnanir sem eiga að koma að þessum málum. Með öðrum orðum, hæstv. forseti, hér er verið að búa til glænýtt lagaumhverfi fyrir gríðarlega sérhæfðan iðnað, sem er olíuiðnaður, og ég spyr hvort ríkisstjórnin sé í raun og veru vakandi og með opin augun þegar hún setur þessi frumvörp á dagskrá jafnóundirbúið og raun ber vitni. Og það kemur í ljós að stofnun eins og Skipulagsstofnun, sem á að sjá um stóran þátt, á að hafa samkvæmt frumvarpi iðnaðarráðherra gríðarlega mikið hlutverk, svo mikið að það nær allan hringinn í kringum borðið, það er með þeim hætti að það er fullkomlega óásættanlegt stjórnsýslulega hvernig hlutverk Skipulagsstofnunar er útlistað í frumvarpinu. Með öðrum orðum, þetta mál er fullkomlega vanreifað og ég fullyrði að um leið og ég er búin að kíkja á mál iðnaðarráðherra hlýtur þetta mál fjármálaráðherra að vera með svipuðum hætti vanreifað því að hér er um anga af máli iðnaðarráðherra að ræða. Að ætla að fara að setja á dagskrá frumvörp sem tengjast innleiðingu gríðarlega umfangsmikils iðnaðar eins og olíuvinnslu með þessum hætti, getum við ekki sætt okkur við, hæstv. forseti.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það sé frá árinu 1997, þá hafi verið með markvissum hætti kannað hvort olía eða gas finnist á landgrunni Íslands. Það segir að í mars 2006 hafi ríkisstjórn Íslands, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að öllum líkindum, ákveðið að hefja undirbúning að útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis í lögsögu Íslands, nánar tiltekið á svokölluðu Drekasvæði. Í mars 2006, það eru sem sagt tæp þrjú ár síðan ríkisstjórn tók ákvörðun um þetta og þegar málin koma fyrir þingið koma þau í einhverri tímapressu og greinilega svo illa útbúin að það vantar mikið upp á að þau séu boðleg eða þinghæf.

Ég fullyrði héðan úr þessum ræðustól, hæstv. forseti: Allar hugmyndir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru vanreifaðar og illa undirbúnar varðandi þetta stóra mál, varðandi það að fara út í að hefja stórfelldan olíuiðnað á Drekasvæðinu innan lögsögu Íslands. Að ekki sé minnst á það að ríkisstjórnin þykist vera að búa til einhverja stefnu sem geti verðskuldað að vera kennd við sjálfbæra þróun og hér eigi að auka hlut vistvænna orkugjafa. Átta menn sig ekki á því að olíuvinnsla fer í þveröfuga átt? Hvar hafa menn þá verið? Ætla menn að keyra hér eftir sjálfbærri orkustefnu og taka ábyrgð á því í gegnum öll lög ákvarðana hér á Alþingi og í stjórnsýslunni eða ætla menn að búa til vistvæna orkustefnu með annarri hendinni og hefja olíuiðnað með hinni? Hvað er hér í gangi? Má ég biðja um, hæstv. forseti, að það sé þá gert með þeim hætti að undirbúningur málanna sé með fullum sóma. Því er ekki að heilsa í þessu máli.

Ég ítreka mótmæli gegn því að mál af þessu tagi skuli tekin á dagskrá með þessum hætti og þinginu gefinn jafnsnautlegur tími til þess að fjalla um þau. Því eins og hefur komið fram þarf þetta frumvarp að vera samþykkt fyrir jólaleyfi til þess að hægt verði að fylgja þeirri áætlun sem ríkisstjórnin er með, að hefja útboð leyfanna fyrir miðjan janúar næstkomandi. Það er skömm að þessu, hæstv. forseti, skömm að því að okkur skuli boðið upp á að taka þátt í vinnu af þessu tagi.