Skattlagning kolvetnisvinnslu

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:28:41 (1957)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki „að þvæla því máli hér inn í umræðuna“ heldur vinnubrögðunum í því máli, þar sem það mál er í vinnslu innan iðnaðarnefndar og það er meira en ein vika og meira en tvær vikur síðan fyrir því máli var mælt hér í þingsölum. Við skulum því hafa það alveg á hreinu að það er ætlun þess formanns iðnaðarnefndar sem hér stendur að það mál fái góða, djúpa, efnislega umfjöllun og ég ætla að biðja þingmenn um að gera ekki mönnum upp að þeir ætli að vinna þingmál sem lögð eru fram í þinginu, illa og hroðvirknislega. Það er hvorki ætlun þeirrar sem hér stendur né annarra í iðnaðarnefndinni sem vinna að því máli vegna þess að við ætlum að vanda til þeirra verka. Ef við náum því fyrir 15. janúar er það frábært, ef ekki verður að breyta þeirri dagsetningu vegna þess að þetta mál ætlum við að vinna vel á grundvelli þeirrar góðu skýrslu sem ég hef áður nefnt.

Mér þykir undarlegt ef hv. þingmaður er fyrst að vita af þeirri skýrslu nú í vetur vegna þess að hún kom út í mars 2007 og var kynnt innan þingsins þá og í þeirri iðnaðarnefnd sem þá sat, en í henni sat ég og fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og við fengum, ásamt öðrum fulltrúum nefndarinnar, rækilega kynningu á skýrslunni þar.