Kjararáð

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 16:59:13 (1969)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[16:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er búin að vera dálítið torsótt fæðing hjá hæstv. ríkisstjórn eftir að hún hrökk í gang og áttaði sig á því að sú þróun var þegar hafin í landinu að kjör landsmanna voru að skerðast. Ýmsir sem betur voru settir sýndu reyndar gott fordæmi og ákváðu einhliða að lækka laun sín. Það var gert í allmörgum tilvikum í einkafyrirtækjum en stjórnendur og aðrir hæst launaðir starfsmenn höfðu þá gengið þar á undan með góðu fordæmi. Ljóst er að lífskjör á Íslandi eru því miður almennt að skerðast verulega um þessar mundir og hafa farið ein þrjú ár aftur í tímann, mælt í kaupmætti meðallauna.

Það var eins og fleira hjá hæstv. ríkisstjórn að vinnubrögðin voru kannski ekki beinlínis fumlaus og markviss því að hæstv. forsætisráðherra greip til þess ráðs 21. nóvember sl., sem sagt einum sjö vikum eftir að efnahagshrunið hófst, að „spandera“ heilu bréfi á kjararáð. Ég hugsaði með mér um leið og ég frétti af því bréfi að þetta væri nokkuð sérkennilegt ef hæstv. forsætisráðherra gerði sér vonir um að bréf með tilmælum mundi upphefja skýr ákvæði laga á grundvelli hverra kjararáð starfar. Mér sagði svo hugur, sem og varð, að kjararáð mundi að sjálfsögðu komast að þeirri niðurstöðu að það væri bundið af lögum og gæti ekki farið úr fyrir þau í störfum sínum. Á meðan það hefði ekki í höndum nein gögn sem gerðu því kleift að fella nýjan efnislegan úrskurð á grundvelli nýrrar viðmiðunar hlyti það að hafna þessari ósk, hvað og varð, því að kjararáð sagði með bréfi, dagsettu 1. desember sl., ósköp einfaldlega að það hefði ekki lagaskilyrði til að fella nýjan almennan úrskurð um laun og starfskjör þeirra sem úrskurðarvald ráðsins tæki til, þar með talið alþingismanna og ráðherra.

Þetta fór því heldur snautlega hjá hæstv. ríkisstjórn og nú erum við komin þangað sem við erum, langt inn í jólamánuðinn, og þá kemur frumvarp frá hæstv. ríkisstjórn. Það er þannig úr garði gert að Alþingi ætlar sér með því, ef að lögum verður, að mæla fyrir um að kjararáð felli nýjan úrskurð er feli í sér 5–15% launalækkun alþingismanna og ráðherra er gildi frá 1. janúar 2009.

Það er nokkuð sérkennilegt þegar haft er í huga að Alþingi tekur sér þá ákvörðunarvaldið í þessum efnum en með þessum sérkennilega hætti að ákvarða eitthvert launabil og segja kjararáði að kveða upp nýjan úrskurð innan þess ramma. Mér finnst þetta vera krókótt leið og ég held að það sé ekki til bóta upp á samskipti löggjafans við þetta ráð sem þarna starfar að gera þetta með þessum hætti. Alþingi á auðvitað að ákveða það beint hve mikið og með hvaða hætti kjörin verða skert á afmörkuðu tímabili og taka ákvæði laganna um kjararáð úr sambandi að því leyti á tilteknu tímabili og blanda kjararáði alls ekki neitt inn í það mál. Það er augljóslega miklu hreinlegra en að fara þessa skrýtnu leið, ég tala nú ekki um ofan í samskiptin sem ríkisstjórnin er þegar búin að eiga við kjararáð með bréfinu góða frá 21. nóvember.

Ég minni á að ríkisstjórnir hafa áður misstigið sig í samskiptum við kjararáð sem þá hét Kjaradómur. Það leiddi til þess að Kjaradómur sagði af sér í heild sinni vegna þess að vinna hans var í raun og veru gerð ómerk. Alþingismenn ákváðu þá að tiltekinn úrskurður Kjaradóms gengi út fyrir einhver þolanleg mörk, annaðhvort þeirra sjálfra eða samfélagsins, og gripu inn í með þeim hætti að Kjaradómur sagði af sér eins og hann lagði sig. Ég ætla nú ekki að segja að þessi framganga nú gæti leitt til svipaðra hluta en það munar þó kannski ekki mjög miklu að kjararáði finnist því gefið dálítið langt nef með því að setja verkefnið aftur í þess hendur og það með þessum hætti.

Nú vill svo til, herra forseti, að fyrir þessu þingi liggur þegar frumvarp sem tekur á því að laun hinna svokölluðu æðstu embættismanna þjóðarinnar sem heyra jafnframt undir lög um eftirlaun forseta, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, verði skert með tilteknum hætti. Sú útfærsla verði þannig að Alþingi mæli skýrt fyrir um það með því að setja ákvæði til bráðabirgða inn í lögin um kjararáð að heildarlaun verði lækkuð með tilteknum hætti sem þar er útfært og þá þannig að laun ofan við tiltekið hámark verði skert hlutfallslega meira en hér er lagt til. Með öðrum orðum að tekið verði ofan af eða skert ofan frá þannig að í því sé fólgin ákveðin launajöfnun um leið og þeir taki á sig mestu kjaraskerðinguna sem hæst hafa launin. Mér finnst skipta miklu máli að skilaboðin sem frá Alþingi koma hafi inntak að þessu leyti. Er ekki eðlilegt, herra forseti, að þeim mun betur sem menn eru settir í launum þeim mun meira leggi menn af mörkum?

Í greinargerð með frumvarpinu segir að meginmarkmið þess sé að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2009 vegna hins stórfellda vanda og að sama skapi sé nauðsynlegt að þjóðkjörnir fulltrúar sýni samstöðu með öðrum launþegum sem hafa þegar þurft og munu þurfa að taka á sig launalækkanir líkt og gerst hefur á einkamarkaði o.s.frv.

Hvernig sjá menn fyrir sér að þær launalækkanir verði útfærðar og hvað er sanngjarnt í þeim efnum? Er það hugsun manna að þetta verði prósentuskerðing sem gangi upp og niður allan launastigann eða er hæstv. ríkisstjórn, og þá Alþingi þegar málið kemur í þess hendur, tilbúin að huga að því að útfæra þetta með þeim hætti að sýnt verði í verki að við þessar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að þeir sem best eru staddir til þess að taka á sig kjaraskerðingu geri það en hinum sé hlíft? Það má að sjálfsögðu deila um viðmiðunarmörk og prósentur í þessum efnum, hvað er hæfilegt, hvort skerða á laun ofan við 450 þúsund um 20%, ofan við 300 þúsund um 15% eða hvernig menn hugsa það. En það er alla vega eindregin afstaða okkar að þannig eigi að nálgast málið og senda með því þau skilaboð að þeir sem hæst hafa launin leggi þarna mest af mörkum en fólki með laun fyrir neðan við eitthvert tiltekið lágmark sé hlíft því. Það er líka mjög mikilvægt að á hinum almenna vinnumarkaði verði sú hugsun við lýði að einhliða kjaraskerðing sé útfærð á einhvern félagslega réttlætanlegan og sanngjarnan hátt.

Í frumvarpi okkar er reyndar tekið á öðru máli sem hæstv. ríkisstjórn hefur að sögn eitthvað verið að hnoðast með og stjórnarflokkarnir líka en það er spurningin um eftirlaunasérréttindi þessa hóps sem búið var um í sérstökum lögum frá 2003 og fræg eru. Þar er lagt til — og þetta mál er reyndar síðasta mál á dagskrá þessa fundar þannig að það er nærtækt að vitna til þess — að þau réttindi verði felld úr gildi í heild sinni gagnvart framtíðinni og að hópurinn taki til við að greiða eftir gildistöku laganna, eða frá og með næstu áramótum, inn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og menn njóti réttinda í samræmi við það.

Það bólar ekki enn á því frumvarpi frá hæstv. ráðherrum og stjórnarflokkunum en sagnir eru af því að það hafi verið einhvers staðar að þvælast í iðrum þingflokka stjórnarliðsins síðustu dagana og það bíður þá þess tíma að ræða það. Miðað við allar fréttir er þar um mikla skemmri skírn að ræða, einhverja örlitla andlitslyftingu í málinu eftir allan tímann sem ríkisstjórnin með sinn mikla meiri hluta hefur þó haft til að gera eitthvað í því máli. Má ég minna á að það er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að gera þar breytingar á.

Ég tel sem sagt, virðulegur forseti, að þó að hugsunin hér sé að sjálfsögðu rétt og augljóst mál að ekki síst þjóðkjörnir fulltrúar eiga að ganga á undan með góðu fordæmi og taka á sig byrðar — og þótt meiri væru — sé útfærslan meingölluð. Við munum berjast fyrir því að sú hugsun og útfærsla sem er í frumvarpi okkar komi til skoðunar samhliða hinu. Vonandi getur það leitt til þess að einhver samstaða geti tekist um útfærslu á þessu sem felur í sér a.m.k. jafnmikinn sparnað fyrir ríkissjóð, a.m.k. jafnmikla lækkun launa þegar það er lagt saman, en útfærslan sé sú að þeir sem hærri launin hafa leggi meira af mörkum. Þannig verði t.d. laun ráðherra skert meira en laun óbreyttra þingmanna sem eingöngu hafa þingfararkaupið. Það er sanngjarnt og sjálfsagt mál. Þeir sem njóta álags á þingfararkaup af einhverju tagi, eru ráðherrar, formenn stjórnmálaflokka, formenn þingnefnda eða þeir sem sitja í forsætisnefnd leggi meira af mörkum en þeir þingmenn sem eingöngu hafa þingfararkaupið. Er ég þó ekki að segja að þingmönnum með þingfararkaup sé nein sérstök vorkunn miðað við aðstæður í okkar samfélagi til að leggja sitt af mörkum.

Auðvitað er það svo sjálfstætt mál og mikið hneyksli sem sennilega á eftir að verða einhver ljótasti skammarbletturinn á Sjálfstæðisflokknum af mörgum — og ég mun gera mitt til að halda á lofti á meðan ég er með fjör í fótum — að einmitt á þeim árum þegar ofurlaunin héldu innreið sína á Íslandi náði Sjálfstæðisflokkurinn eftir mikla baráttu því langþráða réttlætismáli sínu í gegn að lækka skatta á hátekjufólki. Þá lét Framsóknarflokkurinn hafa sig í það með Sjálfstæðisflokknum að þrepa út hátekjuskattinn í áföngum. Það gladdi ýmsa sjálfstæðismenn og alveg sérstaklega, hygg ég, unga frjálshyggjusinnaða þingmenn sem litu á það sem alveg sérstakt réttlætismál að lækka sérstaklega skattinn á toppunum, t.d. í fjármálageiranum þar sem tekjuhæstu toppar bankanna sem á þessum árum stefndu með ofurlaun sín til himins svo skipti jafnvel milljónatugum nutu góðs af þessari réttlætisaðgerð Sjálfstæðisflokksins.

Auðvitað væri mjög nærtækt við þessar aðstæður að fara hinu megin í málið og segja — nema hvort tveggja væri: Þeir sem hafa há laun eiga að leggja meira til samfélagsins í gegnum tekjutengdan hátekjuskatt eða fjölþrepa tekjuskatt — það er verið að gera í sumum löndum í kringum okkur núna — einfaldlega af sanngirnis- og réttlætisástæðum og vegna þess að það er þörf fyrir fjármunina. Það er dýrt fyrir heiminn að reyna að afstýra endanlegu hruni kapítalismans. Hin víðtæka pilsfaldavæðing heimskapítalismans sem nú er í gangi kostar mikið fé úr almannasjóðum. Hún kostar sitt þar sem milljarðatugir og milljarðahundruð, mælt í dollurum, evrum eða hverju sem er, renna nú úr almannasjóðum til að reyna að halda þessu móverki á lífi. Þá þarf til þess einhverja peninga og hvernig á að afla þeirra? Er ekki rétt að reyna að gera það með einhverjum sæmilega sanngjörnum hætti, að þeir borgi sem eru aflögufærir en frekar sé reynt að hlífa þeim sem eru þrautpíndir fyrir? Jú, ég hygg það.

Það mætti því að sjálfsögðu nálgast þetta mál líka frá þeirri hlið og verður fróðlegt að vita þegar hæstv. ríkisstjórn kemur endanlega með tillögur sínar um skattamál og ríkisfjármál hvernig hún hyggst fara í málið frá þessari hlið.

Virðulegur forseti. Ég áskil mér fyrir hönd okkar þingmanna Vinstri grænna allan rétt til þess að skoða þetta frumvarp út frá tæknilegri útfærslu. Við erum innilega sammála því að breytingar í þessa átt eigi að gera enda höfum við þegar lagt það til og flutt það í frumvarpsformi að minnsta kosti mánuði á undan hæstv. ríkisstjórn. Við teljum að okkar útfærsla eða að minnsta kosti okkar nálgun hvað varðar það hvernig byrðunum er dreift sé heppilegri en sú sem ríkisstjórnin leggur hér til auk þess sem ég endurtek að að mínu mati á ekki að blanda kjararáði inn í málið aftur með þeim hætti sem hér er lagt til. Alþingi á einfaldlega að ákveða á tilteknu, afmörkuðu tímabili nákvæmlega hvernig þetta er gert, mæla fyrir um það með skýrum hætti í frumvarpi og ganga frá málinu sjálft.