Kjararáð

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 17:16:22 (1971)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[17:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir orð hans og er ánægjulegt að heyra að hann opnar á að þetta verði allt saman skoðað. Málið blasir þannig við mér að meira inngrip sé í verkefni kjararáðs að þvæla málinu til þeirra aftur heldur en ósköp einfaldlega segja að á þessu tiltekna tímabili ætli Alþingi að ganga frá því að svona sé þetta og leysa kjararáð undan því að taka málið til sín aftur innan tiltekins ramma sem frá Alþingi kemur en eiga svo að fella annan úrskurð.

Ég leyfi mér að spyrja: Var kjararáð spurt? Það mætti kannski gera. Ef hæstv. ríkisstjórn hefur ekki gert það þá gæti þingnefndin væntanlega spurt kjararáð hvort því þykir betra að fá málið til sín aftur með þessum hætti eða hvort þegið verður — sem mér býður í grun úr því að Alþingi tekur þetta til sín á annað borð — að Alþingi klári málið og gangi frá því hvernig þetta verður næsta árið.

Sama gildir í sjálfu sér um að vissulega er rétt hjá hæstv. ráðherra að ekkert bannar að kjararáð noti þetta svigrúm, 5% til 15%, til að hafa launajöfnun í huga og láta skerðinguna bitna þyngra á hærri launum eða byrja alfarið við einhver efri mörk ef sama útkoma næst í útreiknaðri skerðingu en það sama gildir um það. Er þá ekki einfaldara ef Alþingi vill senda skilaboð í átt til þess að menn eigi að hafa launajöfnun í huga og láta skerðinguna bitna ofan frá að það sé gert heldur en senda kannski einhver óljós tilmæli um það? Á að gera það í nefndaráliti eða hvernig er þetta hugsað, ef Alþingi hefur skoðun á málinu? Mér finnst að þetta eigi ekki að vera neinn vandræðagangur, frú forseti, heldur eigi að afgreiða þetta með skýrum og fumlausum hætti af hálfu Alþingis.