Kjararáð

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 17:19:08 (1973)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[17:19]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er rætt frumvarp sem dreift var eftir hádegið og er eitt af þeim málum sem ríkisstjórninni finnst ástæða til að þingmenn komi illa undirbúnir til umræðna um. Mér finnst lakara að standa þannig að málum að þingmenn hafi knappan tíma til að tala um mál af sæmilegu viti og þeirri þekkingu sem er nauðsynleg í vandmeðförnu máli.

Ég held að rétt sé að rifja upp að lögin um kjararáð eru þannig úr garði gerð að Alþingi ákveður ramma fyrir kjararáð til að starfa eftir. Þingið ákveður ekki sjálft kjör sín heldur setur kjararáð í verkefnið og mælir fyrir um viðmiðanir sem ráðið á að hafa til að komast að niðurstöðu. Meginstefnan í lögunum er sú að laun alþingismanna eiga að endurspegla laun þeirra sem eru í störfum sem sambærileg geta talist og kjararáð hefur sjálft ákveðið hvernig það er fundið út. Það þýðir að laun alþingismanna eru ekki leiðandi í því sem gerist hjá hinu opinbera heldur taka mið af því sem gerst hefur í kjarasamningum eða samningum við háttsetta embættismenn ríkisins og eru því afleiðing af þróun en ekki leiðandi þróun. Þetta er rétt að rifja upp vegna þess að í bréfi ríkisstjórnarinnar til kjararáðs er farið fram á að kjararáð endurskoði laun, sem það ákveður, með vísan til þess að rétt sé að þeir aðilar sýni gott fordæmi og axli hluta af fyrirvörum.

Sú lagatilvitnun sem ríkisstjórnin vísar til, 10. gr., er einmitt sú sem kjararáð starfar eftir og ef það er rétt sem fram kemur í bréfi ríkisstjórnarinnar að sú þróun sé almennt í gangi að þeir sem eru vel launaðir í þjóðfélaginu lækki laun sín, þá endurspeglast sú þróun fljótlega í ákvörðun kjararáðs vegna þess að það fylgist með þróuninni og kveður upp nýjan úrskurð og lækkar laun þeirra sem það fjallar um á sambærilegan hátt. Þannig að ef forsenda ríkisstjórnarinnar er rétt er erindið óþarft vegna þess að kjararáð mundi hvort sem er vinna verkið sem farið er fram á. Það er rétt að hafa í huga, virðulegi forseti.

Í öðru lagi ef þessi þróun er hins vegar ekki í gangi og ekki verið að lækka laun vel launaðra starfsmanna ríkisins, þá spyr ég: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að sú þróun fari í gang? Ríkisstjórnin getur knúið fram það sem hún sækist eftir með því að ryðja brautina sjálf, ræða við þá forustumenn stofnana og starfsmenn ríkisins sem nálægt henni eru og lækka laun þeirra, ná samkomulagi um launalækkun. Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir í þeim efnum? Ætlar hún að tala við forstöðumenn stofnana? Ætlar hún að tala við starfsmenn ráðuneytanna, sem eru með svipuð laun og alþingismenn og meira, og ná samkomulagi við þá um að lækka laun sín? Ég held að nauðsynlegt sé að fá fram yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um það því að ef alþingismenn og fleiri sem undir kjararáð heyra eiga að sýna gott fordæmi, sem ég hygg að allir þingmenn séu tilbúnir til að standa að, þá verða einhverjir að fylgja á eftir. Því annars er það ekkert fordæmi heldur afmörkuð aðgerð gagnvart fámennum hópi en allir aðrir, sem er miklu fjölmennari hópur, bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði, taka ekki þátt í þróuninni. Til hvers er þá barist, virðulegi forseti, ef ekki er hægt að vinna að því að ná þróuninni fram? Það hlýtur að vera meginkjarni málsins.

Ég bendi á það, virðulegi forseti, að ákveðnir ágallar eru á málinu, eins og að hluta til hefur komið fram í fyrri ræðum. Í fyrsta lagi er breytingin varanleg en ekki tímabundin, eins og sagt er í erindi ríkisstjórnarinnar og í greinargerð með frumvarpinu. Varanleg breyting, varanleg lækkun sem verður í nýjum úrskurði kjararáðs þannig að það er ósatt sem fram kemur í frumvarpinu að þetta sé tímabundið mál heldur er þetta varanleg breyting. Rétt er að menn átti sig á því. Því aðeins verður lækkunin bundin við árið 2009 að viðmiðunarhóparnir hafi ekki tekið þátt í leiknum og lækkað laun sín því þá mun kjararáð væntanlega kveða upp nýjan úrskurð í byrjun árs 2010 og hækka launin til samræmis við laun hinna. En þá hefur niðurstaðan orðið sú að aðgerðin er bara bundin við þá sem kjararáð fjallar um og ríkisstjórnin brugðist í því verkefni sínu að gera þetta að stefnu gagnvart öllum ríkisstarfsmönnum, en forsendan í erindi ríkisstjórnarinnar er að menn eigi að sýna fordæmi með því að ganga á undan og móta stefnu sem aðrir eiga að fylgja eftir. Ég vænti þess að ríkisstjórnin ætli sér að ná þessu fram sem þýðir einfaldlega að þá munu launin ekki hækka aftur. Breytingin er þá varanleg og þá er eins gott að segja það en ekki eitthvað annað, eins og er gert í frumvarpinu.

Í öðru lagi bendi ég á annmarka við mat kjararáðs sem á að fá þetta til umfjöllunar. Frumvarpstextinn er svo matskenndur og opinn að erfitt er að sjá hvernig kjararáð á að geta fellt úrskurð og dreift honum á bilið 5% til 15% eftir því eftir hvaða forskrift á að miða lægri og efri mörkin, þannig að kjararáð er sett í nokkurn vanda við að komast að niðurstöðu. Ég held að miklu betra sé, eins og var bent á áðan af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að ganga einfaldlega hreint til verks og ákveða tiltekna lækkun hjá tilteknum hópi í tiltekinn tíma sem síðan falli úr gildi þegar sá tími er liðinn. Það væri þá skýr ákvörðun Alþingis sjálfs að gera það og kjararáð heldur svo áfram að vinna sitt verk eftir lögum eins og því ber en verður ekki blandað inn í málið og ætlað að reyna að komast að niðurstöðu um atriði sem það hefur eiginlega engar forsendur til.

Ég vil benda á, virðulegi forseti, atriði sem vakti sérstaka athygli mína. Í bréfi forsætisráðherra til kjararáðs er aðeins talað um ráðherra og aðra hátt launaða ríkisstarfsmenn. Ekki er talað um alþingismenn. Í bréfinu segir, virðulegi forseti, með leyfi:

Við þessar aðstæður vill ríkisstjórnin ganga á undan með góðu fordæmi og sýna vilja ráðherra og annarra hátt launaðra ríkisstarfsmanna til að axla hluta af byrðunum.

Ekki er minnst á alþingismenn í þessu. Út af fyrir sig er ég ekki ósammála því, því ég lít svo á að það sé ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að gefa fyrirmæli um kjör þeirra sem starfa á löggjafarþinginu. Um það vil ég segja og gera alvarlegar athugasemdir þar sem fram hefur komið hjá ríkisstjórninni, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem hafa sagt berum orðum að ákvörðun hafi verið tekin í ríkisstjórninni um kjör Alþingis. Virðulegi forseti, það er ekki hlutverk ríkisstjórnarinnar að segja kjararáði eða einhverjum öðrum fyrir verkum um hver kjör alþingismanna eiga að vera. Framkvæmdarvaldið á að halda sig á sínum leikvelli og láta löggjafarvaldinu eftir að taka sínar ákvarðanir. Mér finnst að ríkisstjórnin hafi gengið of langt í þessum efnum og geri alvarlegar athugasemdir við framgöngu ráðherra í þessum efnum gagnvart Alþingi.

Ég tel að stjórnarflokkarnir hafi öll tök á að koma sjónarmiðum sínum fram og eiga að gera það í gegnum forseta Alþingis. Það er hann sem er kjörinn til forustu fyrir löggjafarvaldið og ef einhver á að leggja fram frumvarp eða tillögur um breytingar á kjörum alþingismanna á það að koma þá leið en ekki frá ríkisstjórninni. Nóg er samt um yfirgang ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi oft og tíðum, virðulegi forseti. Mér finnst að þeir ráðherrar sem ég nefndi hafi gengið of langt í ummælum sínum gagnvart Alþingi þar sem þeir líta greinilega svo á að Alþingi sé undir þeirra valdsviði og þeir geti tekið ákvörðun á ríkisstjórnarfundi um stöðu Alþingis í þessum efnum. Mér finnst sérstaklega óviðkunnanlegt að heyra ummæli frá báðum þessum ráðherrum, sem sögðu efnislega að það hafi verið vonbrigði að kjararáð skyldi ekki hlýða fyrirmælum ríkisstjórnarinnar og fyrst svo hafi farið finni þau aðra leið. Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að fyrirmæli ríkisstjórnarinnar til kjararáðs voru ekki samkvæmt lögum. Kjararáð er sjálfstætt og á að vinna samkvæmt lögum og ríkisstjórnin fór fram á að kjararáð færi ekki eftir lögum. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin gangi þannig fram.

Í öðru lagi orðalagið: Fyrst ekki gekk að fá mennina til að hlýða finnum við aðra leið. Ekki var sagt það sem lá beinast við: Þá leggjum við fram frumvarp og förum fram á það við þingið að það samþykki þetta. Heldur var sagt: Þá finnum við aðra leið. Þau voru eins og aðilar sem leita að einhverri leið, löglegri eða ólöglegri, til að koma sínu fram. Virðulegi forseti, svona eiga ráðherrar ekki að tala, hvorki gagnvart lögum — vegna þess að þeir eru ekki yfir lögin hafnir — og þó að þetta séu merkilegir ráðherrar báðir tveir og ég beri mikla virðingu fyrir þeim eru það ekki þeir sem segja hvernig lögin eigi að líta út eða segja mönnum að fara ekki eftir lögum sem eru ekki eins og þeir vilja hafa þau. Það vil ég ekki samþykkja að sé eðlilegur framgangur og geri alvarlegar athugasemdir við hvernig þessir tveir ráðherrar hafa talað, bæði við kjararáð og við Alþingi, þar sem þeir hafa farið langt út fyrir eðlileg mörk í að lýsa þeim vilja sínum sem þeir vilja að aðrir lúti. Þeir verða að koma fram við starfsmenn kjararáðs og Alþingis af virðingu og ætla Alþingi það sjálfstæði sem það hefur samkvæmt stjórnarskránni.

Þetta vildi ég segja, virðulegur forseti, því að mér finnst ástæða til að reyna að halda ráðherrum innan þeirra marka að þeir haldi sig við framkvæmdarvaldið en láti löggjafarvaldið eftir þeim sem til þess eru kosnir.