Kjararáð

Þriðjudaginn 09. desember 2008, kl. 17:52:02 (1978)


136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[17:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 47/2006 hefur hin alþjóðlega fjármálakreppa og hrun stóru íslensku bankanna haft víðtæk áhrif hér á landi. Því miður mun atvinnuleysi aukast, lífskjör skerðast tímabundið — við vonum að það tímabil verði mun styttra en lítur nú því miður út fyrir — og samdráttur verður í landsframleiðslu á næsta ári. Þetta leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs munu dragast saman og þess vegna er jákvætt, tel ég, að hér leitað leiða til að draga úr útgjöldum, þar með talið launakostnaði.

Samt verð ég að taka það fram héðan úr ræðustól að ríkið á að fara varlega í það að draga saman seglin. Hér þarf að vera áfram atvinnulíf. Einkaframtakið er lamað í augnablikinu og því á ríkið að fara afar varlega í það að rifa líka seglin. Hins vegar tel ég að hér sé stigið jákvætt skref þó að ég telji að það hafi átt að haga framkvæmdinni með öðrum hætti en nú er.

Ég tek undir það með þeim sem hafa komið í pontu á undan mér að það sé kannski eðlilegra í ljósi aðstæðna að Alþingi ákveði þá beint hver þessi lækkun eigi að vera. Ég set spurningarmerki við það hvort hyggilegt sé að eiga mikið við laun sem eru við getum sagt undir 400 þús. kr. Þau laun teljast ekki til hátekna og margir sem búa við þau kjör geta átt mjög erfitt um þessar mundir, sérstaklega þegar lán og afborganir hækka eins og raun ber vitni.

Mörg fyrirtæki hafa að undanförnu reynt að draga úr kostnaði með því að lækka laun hæst launuðu starfsmannanna og lækka starfshlutföll. Ég held að það sé mjög jákvætt að sú lækkun komi einnig hjá alþingismönnum og við sendum þau skilaboð út í samfélagið að við ætlum að fylgja þjóðinni í þeim efnum.

Ég verð samt aðeins að koma inn á hið svokallaða eftirlaunafrumvarp. Ég tel að það hefði átt að skoða um leið og þetta mál er lagt fram. Ég veit að verið er að gera breytingar á því en ég tel að alþingismenn eigi að vera á nákvæmlega sömu kjörum varðandi eftirlaun og aðrir opinberir starfsmenn. Við eigum ekki að vera á einhverjum sérreglum, alþingismenn, einhverjum sérdílum sem reynist óframkvæmanlegt að útskýra fyrir fólki af hverju þurfa að vera þannig.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi að það hefði ekki verið neitt sérstakt áhugamál hjá Framsóknarflokknum að afnema hátekjuskattinn. Ég held að það sé hárrétt og ég vil að það komi fram að það er ekki mikið áhugamál hjá þeim sem hér stendur.

Í frumvarpinu segir í fyrsta lagi að kjararáð skuli taka nýja ákvörðun fyrir árslok er feli í sér 5–15% launalækkun alþingismanna eða ráðherra. Óheimilt verði að endurskoða þann úrskurð til hækkunar árið 2009. Í öðru lagi mælir frumvarpið fyrir um að kjararáð skuli svo fljótt sem auðið er kveða upp nýjan úrskurð um aðra sem undir ráðið heyra til samræmis við þá launalækkun sem ákvörðuð hefur verið til handa alþingismönnum og ráðherrum. Þarna er kjararáði eftirlátið svigrúm til að útfæra þá ákvörðun en tilgangurinn með þessari lagabreytingu er að lækkunin verði að jafnaði hlutfallslega mest hjá þeim sem hæst launin hafa. Þá vil ég bara endurtaka það sem ég sagði hér áðan, ég tel að til að ná því markmiði hefði verið skynsamlegra að setja eitthvert þak á það hversu langt niður þetta nær.