Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kl. 16:16:50 (2118)


136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[16:16]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hæstv. fjármálaráðherra vill skoða þetta með opnum huga því að auðvitað getur þetta hjálpað mörgum manninum, mörgum fjölskyldum í landinu.

Það hlýtur að vera hægt að smíða um það regluverk og jafnvel þó að fólk fengi þetta ekki út á morgun, eins og maður segir, væri hægt að gera þetta með þeim hætti að það fengi þetta í einhverjum áföngum á næsta ári, að komið væri lagaumhverfi um þetta þannig að fólk vissi að það ætti von á þessum peningum hugsanlega þennan dag eftir þrjá mánuði, eftir sex mánuði, jafnvel eftir ár. Fólk gæti þá vísað bankastofnunum, eða öðrum sem fólk þarf að glíma við til að borga skuldir, á þessa peninga eftir þennan tíma eða hinn.

Ég tel að það ætti að vera auðvelt að búa til regluverk utan um þetta sem gerði öllum kleift að nýta þennan séreignarsparnað til þess að bjarga sér út úr þeim hörmungum sem við erum í í dag. Ég trúi því og treysti að hæstv. fjármálaráðherra beiti sér í því með okkur þingmönnum að koma þessu á laggirnar.