Gjald af áfengi og tóbaki

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kl. 18:15:53 (2144)


136. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2008.

gjald af áfengi og tóbaki.

232. mál
[18:15]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég vil vekja athygli á því sem fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra að þessi gjöld af áfengi hafa að raungildi lækkað á undanförnum árum. Fyrir liggja þær staðreyndir varðandi áfengisnotkun að hún eykst með lækkandi verðlagi. Þegar verð á áfengi lækkar í hlutfalli við kaupmátt eykst neyslan og vandræði aukast í þjóðfélaginu. Mér finnst það sjálfstætt viðfangsefni ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og í samræmi við heilbrigðisáætlun, sem ríkisstjórnin hefur sett sér og hlýtur ávallt að leitast við að framfylgja, að sjá til þess að verðstýring á áfengi sé með þeim hætti að ekki sé verið að auka á áfengisneyslu með því að láta verðið ekki halda í við verðbólgu.

Mér finnst, virðulegi forseti, í ljósi þess sem vitað er um áfengisnotkun og afleiðingar af henni fyrir hag heimila, fjárhag og annað að ríkisstjórnin eigi nú að íhuga mjög alvarlega að sjá til þess að verðlag á áfengi lækki ekki að raungildi heldur hækki a.m.k. í takt við verðbólgu og jafnvel vinni upp þann slaka sem myndast hefur á undanförnum árum. Ég vil beina því til hv. nefndar sem fær málið til athugunar að líta á þetta og hafa í huga þær samþykktir sem Alþingi hefur gert um þessi efni með heilbrigðisáætlun.