Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:38:40 (2152)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hreyfir hér mikilvægu máli en reyndar er um tvö aðskilin mál að ræða. Annars vegar er um að ræða það mál sem var í fréttum í gærkvöldi og lýtur að málsókn gamla Kaupþings vegna þess tjóns sem Kaupþing varð fyrir. Ég held að það sé þannig að fresturinn sem vísað er til, 7. janúar, eigi við um það mál. Eins og fram kemur í Fréttablaðinu í dag, í viðtali við lögmann Kaupþings, er það mál í ferli og vinnslu með þeim lögmönnum sem ráðnir hafa verið til þess verks af hálfu gamla Kaupþings.

Hins vegar er spurningin um möguleika Íslands til að gera kröfur á þjóðréttarlegum grunni gagnvart Bretum í ljósi þessa. Ef ég hef skilið málið rétt hefur lögmannsstofan Lovells komið að því máli. Það sem liggur ljóst fyrir eftir þær upplýsingar sem komið hafa fram í utanríkismálanefnd er að verið er að kanna alla möguleika til þess að setja fram kröfur af þessum toga og velta þar við hverjum steini. Þetta er hins vegar ekki einfalt þjóðréttarlegt úrlausnarefni en unnið er að því af fullum krafti að setja fram kröfur með þeim hætti sem mögulegt er af hálfu ríkisins.

Hér er því um tvö aðskilin mál að ræða, annars vegar málefni gamla Kaupþings, og það er í farvegi og í höndum skilanefndarinnar þar, og hins vegar er málareksturinn af hálfu ríkisins gagnvart bresku ríkisstjórninni og það mál er líka í farvegi.