Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:47:40 (2156)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég tók eftir umfjöllun íslenskra fjölmiðla um hugsanlega málssókn íslenska ríkisins og íslenskra fyrirtækja gagnvart Bretum vegnar beitingar hryðjuverkalaga þar í landi gegn íslenskum hagsmunum. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, menn þurfa að taka þessi mál til alvarlegrar athugunar og komast að niðurstöðu um það sem þarf að gera. Ég fagna yfirlýsingu frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni utanríkismálanefndar, um að stjórnvöld geri sér grein fyrir þeim tímafrestum sem liggja fyrir í málunum. Ég geri ráð fyrir að í því felist að áður en þeir tímafrestir renni út liggi fyrir niðurstaða varðandi þau mál sem hér er rætt um, þ.e. annars vegar málshöfðun íslenska ríkisins gagnvart breska ríkinu og hins vegar málssókn íslenskra fyrirtækja gagnvart breska ríkinu vegna íhlutunar og aðgerða þess gagnvart þeim.

Ég vil fyrir mitt leyti leggja áherslu á að íslensk stjórnvöld og þær stofnanir sem undir þau heyra geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að hægt sé að höfða mál gagnvart breska ríkinu innan þeirra fresta sem fyrir liggja. Ég hef sagt áður og segi enn að ég tel að það sé mjög mikilvægt að höfðað verði mál gegn breska ríkinu, hvort sem það er íslenska ríkið eða íslensk fyrirtæki, til þess að sýnt sé fram á að við Íslendingar sættum okkur ekki við að hryðjuverkalögum sé beitt gegn íslensku þjóðinni eða íslenskum fyrirtækjum. Ég tel að málshöfðun gegn þessum mönnum séu sterkustu skilaboðin um að við sættum okkur ekki við þetta. Ég treysti því að íslensk stjórnvöld tryggi að þeim skilaboðum verði hægt að koma á (Forseti hringir.) framfæri gagnvart Bretum.