Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:51:53 (2158)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við vitum öll að þetta mál er í höndum framkvæmdarvaldsins og við hjá utanríkismálanefnd höfum fyrst og fremst kallað eftir upplýsingum um hvernig stjórnvöld hafa haldið á hagsmunum okkar Íslendinga í þessu máli. Þessu má ekki blanda saman við það að utanríkismálanefnd geti átt einhvers konar frumkvæði í málinu. Við höfum lagt áherslu á að ýtrustu hagsmuna verði gætt.

Eftir að hafa fengið upplýsingar á vettvangi nefndarinnar hallast ég að því að þetta sé, eins og fram hefur komið hér í umræðunni, fyrst og fremst málefni skilanefndanna og það sé félaganna sjálfra að gæta hagsmuna sinna vegna þessa. En það er auðvitað ljóst að það þarf að liggja fyrir skýr stuðningur frá stjórnvöldum, bæði fjárhagslegur og pólitískur, til að sá málarekstur geti átt sér stað. Ég ætla ekki að neita því að mér hefur þótt of mikið hik á stjórnvöldum í þessu máli. Mér þykir líka slæmt að svo langt sé liðið á desember án þess að lögfræðileg álitaefni skuli hafa verið skýrð betur en raun ber vitni.

Ég ætla líka að lýsa ákveðnum efasemdum um að það sé skynsamlegt að láta þetta mál með einhverjum hætti þvælast fyrir samningaviðræðum þeim sem við stöndum núna í við Evrópusambandsríkin vegna Icesave-reikninganna og mögulegrar afléttingar kyrrsetningar breskra stjórnvalda á eignum Landsbankans. Þessum málum á að mínu áliti alls ekki að blanda saman. Við eigum algjörlega á hörðum lögfræðilegum forsendum að mæta þessum árásum sem í ákvörðunum Bretanna fólust og gera það óhikað. Ég tel mikilvægt að nú verði höfð hröð handtök í framhaldinu vegna þess að málið þolir enga frekari bið.