Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 11:03:56 (2163)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

hugsanleg lögsókn gegn Bretum – ummæli þingmanns.

[11:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að eitt hljótum við hv. þm. Siv Friðleifsdóttir að geta verið sammála um og það er að taka ekki mikið mark á skoðanakönnunum. [Hlátrasköll í þingsal.] Í því felst enginn stóridómur.

Íslenskt samfélag hefur á undanförnum vikum og mánuðum gengið í gegnum einhverjar mestu hremmingar sem það hefur gengið í gegnum. Ég hef sagt að við þær aðstæður sem nú eru komnar upp í þessu máli sé mjög eðlilegt að litið verði til þess að gera breytingar. Við erum búin að vera í mikilli varnarbaráttu undanfarnar vikur og þurfum kannski ekki að fara mjög margar vikur aftur í tímann til að sjá hvað þetta er í raun fáránleg staða sem við erum komin í.

Hverjum hefði getað dottið það í hug fyrir stuttu, þrem, fjórum, fimm mánuðum, að við yrðum í þessari stöðu í dag? En við erum í þessari stöðu og við erum að hefja í henni seinni hálfleik. Nú eru komin að bakinu á okkur þau lönd sem ætla að standa við bakið á okkur með fjárhagslegum stuðningi, lánum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kominn til leiks. Ég hef sagt að við þær aðstæður og þann óróa sem er í samfélaginu sé mjög eðlilegt að forustumenn ríkisstjórnarinnar líti til þess að gera breytingar í embættismannakerfinu og víðar sem þeir telja að þurfi að gera við þessar aðstæður. Það segi ég að geti náð inn í Seðlabanka Íslands, það geti náð inn í Fjármálaeftirlitið og aðrar þær stofnanir og til annarra þeirra embættismanna sem að málinu koma. (Iðnrh.: Ertu að tala um iðnaðarráðuneytið?) Það gæti vel verið, hæstv. ráðherra.

Ég segi líka að þetta geti og eigi þess vegna að ná inn til ríkisstjórnarinnar. Ég hef nefnt sérstaklega tvo ráðherra í ríkisstjórninni, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra, sem á undanförnum vikum hafa talað hér fyrir kosningum af algjöru ábyrgðarleysi við þær aðstæður sem eru uppi í samfélaginu. Ég hef sagt að slíkir ráðherrar séu með greinileg þreytumerki (Forseti hringir.) og þurfi að víkja. (Forseti hringir.) Ég get ekki séð hvernig slíkir ráðherrar geta verið í ríkisstjórn.

Þessar breytingar geta líka náð til þess að ríkisstjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) skipti upp á milli sín ráðuneytum og geri breytingar (Forseti hringir.) á milli þeirra ráðherra sem til staðar eru. En breytingar eru nauðsynlegar til að endurvekja tiltrú almennings við þær aðstæður sem eru í samfélaginu í dag.