Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:12:38 (2183)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:12]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um hvaða reglur og lög eigi að gilda um útflutning á ísfiski. Það hefur til skamms tíma þótt vera of mikið svigrúm fyrir þá sem veiða fisk og flytja hann út til að ákveða sjálfir hvert þeir sigla með aflann og hvar hann er seldur. Það hefur verið þannig að útgerðarmenn með skip sín á veiðum hafa veitt aflann og svo getað ákveðið að sigla með hann út. Íslenskar fiskvinnslur hafa kvartað undan því að þetta væri ekki sanngjarnt og að gefa ætti þeim kost á að fá að bjóða í þennan fisk.

Vegna þessarar stöðu var skipuð nefnd til að taka á þessum málum og nú er afrakstur þess starfs hingað kominn sem þýðir að þeir sem hyggjast fara með fisk á erlendan markað þurfa að gefa kost á því að hann sé seldur hér á landi, að gefa upp hvaða magn þeir séu með af fiski, hvað þeir vilji fá fyrir aflann og síðan eiga Íslendingar að geta boðið í fiskinn.

Hér hefur verið gagnrýnt að ákvæðin fyrir útflytjendur séu allt of rúm og þeir geti svindlað á þeim. Þessi mál hafa verið tekin fyrir í nefndinni og á nefndarfundum hefur það verið áréttað að verði menn þess áskynja þegar lögin hafa tekið gildi að fara eigi á svig við þau og reglur sem í þeim eru fólgin, þ.e. að íslenskir fiskverkendur hafi aðgang að þessum fiski, þá verði tekið á því. Og ég kalla til vitnis um þá umræðu menn voru í nefndinni, bæði stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga.

Síðan hafa komið fram tvær tillögur, önnur frá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni um að það séu ákveðin refsingarákvæði í þessu. Ég tel mjög jákvætt að þessi viðhorf hafi komið fram en ekki rétt að setja þau inn í lögin. Það getur verið ákveðinn útfærsluvandi á því. En verði frumvarpið að lögum ítreka ég þá skoðun mína og meiningu að þeir sem kunna að fara á svig við lögin verði látnir sæta ábyrgð og enn fremur að séu greinarnar ekki nógu skýrar þá verði tekið á því. Það eru skilaboð meiri hluta hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.

Rætt hefur verið um að banna allan útflutning á fiski og m.a. talað um Bretland í því sambandi og hve þeir hafa komið illa fram við okkur og þess vegna ættum við ekki að selja fiskinn til Bretlands. Þá hljótum við náttúrlega að hugsa um hlutina í víðara samhengi og segjum sem svo að við mundum vinna fiskinn hér, ætlum við þá að selja hann unninn til Bretlands? Eða ættum við þá ekki líka að hætta að kaupa vörur frá Bretlandi? Þetta er ein hliðin á því ef menn ætla að nota það sem röksemd að þetta eigi að vera eitthvert refsiákvæði gagnvart Bretum. (AtlG: Þetta er útúrsnúningur.) Ég er að benda á að menn tala um að Bretar hafi beitt okkur hryðjuverkalögum, sem er rétt, og ef menn nota þetta sem ákveðna röksemd gegn því. Hv. þingmaður sem kallaði fram í, Atli Gíslason, talaði ekki um það í ræðustóli en það gerði hins vegar hv. þm. Jón Bjarnason sem vék að þessu áðan í ræðu sinni, svo ég komi því til skila og ég tel mig ekki að vera að snúa út úr orðum hans hér.

Ef við erum að tala um það almennt að hámarka öll verðmæti fyrir íslensku þjóðina þá er náttúrlega spurning hvort ekki ætti líka að bæta því við breytingartillöguna, án þess að ég ætli að segja mönnum að gera það, að öllum afla skuli komið í land óunnum og þar með mundum við segja við þá sem eru á frystitogurum: Það er miklu hagkvæmara og það fá miklu fleiri vinnu ef komið er með allan fiskinn í land. Við vinnum hann ekki lengur á frystitogurum, hann á bara að setja beint ofan í lest óunninn og koma síðan með hann í land. Við vitum líka að a.m.k. á sumum frystitogurum er hausinn látinn fara í hafið og hryggurinn líka og þetta eru gríðarleg verðmæti. Ef við ætlum að fara að tala um þessa hluti finnst mér þurfa að fjalla um þetta á miklu skilvirkari hátt en í einni lítilli breytingartillögu við þetta frumvarp sem hér er komið og ég er alveg til í það.