Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:25:18 (2187)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:25]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jafnaðarmennska eða jafnaðarhugsjón á alls staðar að vera í heiðri höfð. Það er nú þannig þegar stjórnarflokkar mynda samstarf og samstöðu um mál, til að mynda í ríkisstjórn, að þá fær einn flokkurinn meira í einu máli en minna í öðru. Því miður er það mín skoðun að Samfylkingin — ég hefði gjarnan viljað sjá meira fjallað um sjávarútvegsmál í stjórnarsáttmálanum. En svona var þetta gert og svona var þetta samþykkt.

Það eru hins vegar mörg önnur mál sem horft var til og við höfum séð stað og sjáum stað. Þrátt fyrir mjög dapurlegan niðurskurð í fjárlögum held ég að megi segja að að mörgu leyti sé varnarsigur unninn í sambandi við ýmis jafnréttismál hvað varðar þá sem eiga undir högg að sækja.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sagði að ég hefði ekkert látið frá mér fara opinberlega um þessi mál. Ég vil þá benda honum á að fljótlega eftir úrskurð mannréttindanefndar, þegar þau mál voru komin í gang hér í samfélaginu, stóð ég fyrir ráðstefnu og fékk m.a. lögmenn þessara manna til að tala. Ég fékk einnig Þorvald Gylfason til að koma og Aðalheiði Ámundadóttur, laganema á Akureyri o.fl. (Gripið fram í.) Ráðstefnan var vel sótt og það lýsir vilja mínum og skoðunum í þessu máli, hv. þingmaður getur ekki neitað því.

Ég vil líka benda hv. þingmanni á það að starfshópur Samfylkingarinnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur ályktað um þessi mál og hefur ekkert þagað um þau og út frá því hafa orðið fjölmiðlamál. Ég hef að auki margoft sagt um þetta í ræðustóli Alþingis að (Forseti hringir.) breyta þurfi sjávarútvegskerfinu og það er skoðun mín.