Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:53:51 (2195)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:53]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir svar hans. Þessar fréttir koma mjög — hvað eigum við að segja — þægilega á óvart, a.m.k. sumum, en ég hef deilt skoðunum með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni með það að það mætti veiða meira miðað við alla þá reynslu og orð sjómanna um þorskinn og hvað þeir hafa rekist mikið á hann á miðunum. Á 8. áratugnum var ég stundum til sjós, lítið fiskerí var um allt, Hafró skar þá niður og þá var svona samstaða líka meðal sjómanna um þetta. Sú samstaða hefur hins vegar ekki verið síðustu árin af því að það hefur ekki verið sameiginleg reynsla sjómanna og þeirra sem hafa verið við rannsóknirnar.

Ég gleðst yfir því að það er búið að finna aukinn þorsk og ég tek undir þau sjónarmið hv. þingmanns að verði bætt verulega í eigi a.m.k. að setja góðan hluta af því á markað. Við getum hugsað okkur að ef ríkissjóður fengi 150 kr., þótt við förum ekki hærra, fyrir hvert kíló og það færu, við skulum segja, 20 þús. tonn á markað mundi það þýða 3 milljarða beint í ríkissjóð. Það væri hægt að nota þá peninga til þess að styrkja þorskeldi, kræklingarækt og margt annað.

Að auki langar mig til að bæta við að ef um svona aukningu verður að ræða, eins og hv. þingmaður talar um, er sá tonnafjöldi sem við erum að tala um í þorski sem fluttur er út á markað í Grimsby og Hull bara pínulítill, bara smáafli miðað við það allt saman. Guð láti á gott vita.