Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 16:18:11 (2206)


136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[16:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það þarf fáum orðum að fara um mikilvægi þessa máls. Það talar allt fyrir sig sjálft. Um leið og ég fagna því að sjálfsögðu, og tek undir með formanni allsherjarnefndar, að það er ánægjulegt að um þetta hefur haldist góð samstaða þá segi ég bara: Skárra væri það nú. Þjóðin á líklega kröfu á því að við stöndum okkur þó hvað þennan þátt hörmunganna varðar. Að standa sómasamlega að því og saman að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að setja rannsókn þessara atburða allra í þann farveg að sómasamlegt sé og því sé sæmilega treyst að ekkert annað standi til en að rannsaka þessa hluti refjalaust ofan í kjölinn og leiða hið sanna í ljós.

Ég vil þakka hv. allsherjarnefnd fyrir hönd okkar aðstandenda málsins — ég mun vera fyrstur hér að minnsta kosti í ræðustól af okkur sem erum flutningsmenn frumvarpsins — fyrir hennar vinnu. Mér sýnist að þar hafi tekist vel til og nefndin eftir atvikum á skömmum tíma unnið mikið starf við að fara rækilega yfir málið og taka athugasemdir til greina sem við það hafa borist. Mikið er horft til þess hvernig þetta mál fari af stað og ábendingar hafa borist utan úr þjóðfélaginu frá aðilum eins og laganefnd lögmannafélagsins og fleirum sem að sjálfsögðu er rétt og skylt að fara vandlega yfir.

Ég vil leggja á það sérstaka áherslu í byrjun að í mínum huga er hér á ferðinni ekki bara rannsóknarnefnd í hefðbundnum og þröngum skilningi þess orðs heldur einnig og ekki síður sannleiksnefnd eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr., verkefnið er að leita sannleikans. Og þessi nefnd hefur líka það veigamikla hlutverk með höndum að reyna að leiða atburðina þannig í ljós og matreiða starf sitt þannig þegar að niðurstöðum kemur að það verði sá grunnur undir uppgjör þessara mála allra fyrir okkur í siðferðislegum, pólitískum og lagalegum skilningi sem við verðum síðan að byggja á til þess að þjóðin komist í gegnum og frá þessum atburðum eins skaplega og kostur er. Það er þannig með stóra atburði í sögu þjóða að það þarf að vinna úr þeim. Það getur tekið áratugi og jafnvel aldir eins og dæmi úr mannkynssögunni færa okkur heim sanninn um. Það hefur tekist misvel.

Ef refsigleðin ein er þar höfð að leiðarljósi og menn nálgast þetta út frá því sjónarmiði einu að finna einhverja tiltekna sökudólga, jafnvel tákngervinga, og refsa þeim en aðhafast síðan ekkert annað þá reynist það oft skammgóður vermir því að þjóðin gengur áfram með samviskubit og ónotin innan í sér um að hlutirnir hafi ekki verið upplýstir með sómasamlegum hætti og ekki skapast sá grundvöllur fyrirgefningar og sátta sem þarf að vera hluti af sálrænni meðferð þjóðar sem tekst á við erfið tímabil í sögu sinni.

Ég hef stundum í huga mér borið svolítið saman uppgjör styrjaldanna miklu á meginlandi Evrópu annars vegar og uppgjör suður-afrísku þjóðarinnar við kynþáttaaðskilnaðarstefnuna hins vegar, en farnar voru þó nokkuð ólíkar leiðir. Af tvennu hika ég ekki við að stilla mér á bak við þá leið sem Nelson Mandela hafði forustu um, og Tutu biskup og fleiri góðir menn, í tilviki Suður-Afríkumanna.

Það er ákaflega mikilvægt að þetta starf fari tafarlaust af stað og helst þarf þessi nefnd að koma saman og hefja störf strax á næstu dögum eftir að lögin taka gildi. Það er m.a. vegna þess að hún þarf umsvifalaust að gera vart við sig hjá þeim aðilum þar sem lykilgögn í þessum málum er að finna. Það eru skilanefndir gömlu bankanna, það eru aðilar eins og Fjármálaeftirlit og Seðlabanki. Það eru fyrrverandi stjórnendur sem einstaklingar sem hljóta að þurfa að koma fyrir nefndina, forsvarsmenn fyrirtækja sem hér koma við sögu. Það eru að sjálfsögðu einnig ráðherrar og þingmenn og aðrir, bæði núverandi og fyrrverandi, sem að þessum hlutum hafa komið.

Það þarf ekkert þar um að efast því að þeir sem skoða 6. gr. frumvarpsins sjá að hér er óvenjuríkulega um það búið að allir með tölu skuli gefa nefndinni upplýsingar, eru til þess skyldugir, er skylt að verða við kröfum nefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn o.s.frv. Það snýr að einstaklingum, stofnunum og lögaðilum og 4. og 5. mgr. 6. gr. eru kannski hvað mest afgerandi í þessum efnum og það tel ég afar mikilvægt þannig að hlutir fari ekki að þvælast fyrir mönnum eins og tal um bankaleynd eða annað því um líkt. Þar segir ósköp einfaldlega:

„Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um að veita upplýsingar þó að þær séu háðar þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, sérstökum reglum um utanríkismál, öryggi ríkisins eða fundargerðir ríkisstjórnar og ráðherrafunda og fundargerðir nefnda Alþingis. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.“

Ég á erfitt með að sjá að um þetta sé hægt að búa öllu rækilegar. Það var hugsun okkar, aðstandenda frumvarpsins, að þetta skyldi vera svo gjörsamlega tæmandi sem nokkur kostur væri þannig að ekki þyrfti að ræða það mál að nefndin á refjalaust rétt á öllum upplýsingum alls staðar, undir öllum kringumstæðum og mönnum er skylt að veita henni aðgang að þeim. Þetta er ákaflega mikilvægt.

Ég vil nefna nokkrar af þeim breytingartillögum sem allsherjarnefnd leggur til og ég tek fram að ég sé ekki annað en þær séu allar til bóta eins og við var að búast. Ég fagna þar sérstaklega breytingu á skipan rannsóknarnefndarinnar sjálfrar. Upphaflegar hugmyndir voru dálítið í þá átt að fela aðilum utan veggja Alþingis tilnefningarvald sem ég var í sjálfu sér ekki sáttur við. Eftir sat þetta eitt að leita til Hæstaréttar og nú leggur allsherjarnefnd til að því verði breytt og það verði forsætisnefnd sjálf sem velji einn af dómendum Hæstaréttar til að taka sæti í nefndinni og veita henni forustu. Það tel ég vera betri skipan mála.

Ég tel einnig að víkka megi út verksvið þeirrar sérnefndar sem hefur talsverða sérstöðu í frumvarpinu hvað varðar þá starfshópa eða sérnefndir sem koma til með að sinna einstökum verkefnum. Það er sú sem vikið er að í síðustu málsgrein 1. gr. og aftur í næstsíðustu málsgrein 2. gr., þ.e. þriggja manna starfshópur sem á að hafa það sérstaka verkefni að kanna hvort orsaka þessara hluta sé að einhverju leyti að leita í siðferðislegum þáttum í starfsháttum eða aðferðafræði sem hér hafi þróast og orðið með þeim hætti að hlutir fóru á þann veg sem raun ber vitni.

Það er svo með Ísland að við erum frekar ung að árum í hinum harða heimi alþjóðlegrar fjármálastarfsemi. Hér er saga kauphallarviðskipta ákaflega stutt og saga viðskipta af því umfangi og af því tagi sem hér koma aðallega við sögu er stutt. Þess vegna er það sem ýmsir, til að mynda erlendir aðilar sem hafa kynnt sér þessi Íslandsmál, ef svo má að orði komast, hafa staldrað við þann þátt að hér á Íslandi vantaði að verulegu leyti hefðir og „menningu“ í viðskiptalegum efnum sem í ýmsum nálægum löndum er áratuga- ef ekki aldagömul.

Stundum er sagt um okkur Íslendinga að við séum áhlaupsmenn miklir og viljum taka flesta hluti með vertíðaraðferðafræðinni. Kannski átti það ekki síst við hér að menn upplifðu sig í þessum efnum eins og þeir væru bara komnir á eina góða vertíð og ætluðu að klára þetta af, sigra heiminn. Og það jafnvel í alþjóðlegri bankastarfsemi sem hafði nú ekki verið talið til sérsviða Íslendinga svona fram undir þetta. Oft var sagt að við Íslendingar værum nokkuð góðir í að veiða og verka fisk og selja hann. Við værum nokkuð slyngir í okkar gamla og góða landbúnaði og svona ýmiss konar matvælaiðnaði. Kunnum dálítið á handverk til ýmissa hluta hér innan lands og höfum smátt og smátt verið að öðlast talsverða þekkingu á sviði jarðfræði, verkfræði og jarðefnafræði og á sviði nýtingar og beislunar fallorku og jarðhita.

En sérfræðiþekking og snilld í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum var lengi vel ekki meðal þeirra sérsviða þar sem talið var að Íslendingar mundu hafa heiminum mikið fram að færa. Það breyttist um sinn, um skeið, en er nú orðið aftur eins og það var áður. Ég held að enginn mundi fara út í heim með þann boðskap að Íslendingar hefðu fram að færa eitthvert bissnessmódel, einhverja aðferðafræði í erlendum fjárfestingum og fjármálastarfsemi sem aðrar þjóðir gætu lært verulega af. Þessu var haldið fram um skeið og jafnvel ekki af neinu sérstöku lítillæti eins og þegar einn útrásarvíkingurinn var að kenna Dönum hvernig gera ætti hlutina og Danir urðu nú dálítið undirleitir þegar gamla hjálendan var farin að færa sig svona upp í bekkinn.

En nú er þetta allt með öðrum brag og þess vegna er það óumflýjanlegt að þessi þáttur málsins verði gildur í rannsókninni. Það verður að rannsaka vel þá „menningu“, svo að ég sé nú ekki að sletta erlenda orðinu kúltúr, sem þarna þróaðist, hugmyndaheiminn, aðferðafræðina og verklagið sem enginn vafi er á að er þarna talsverður orsakavaldur. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að þessi ákvæði eru þarna í nefndinni og allsherjarnefnd meira að segja styrkir þennan þátt og breikkar frekar en þrengir gildissvið þessa þáttar starfsins og það tel ég að sé vel.

Um verkefnin að öðru leyti er ekki margt að segja af minni hálfu nema að það er í valdi nefndarinnar og í hennar höndum að rannsaka það sem hún telur sig þurfa að gera til að upplýsa málin í heild sinni. Það er mjög mikilvægt að það liggi alveg fyrir að það er ekki ætlunin af hálfu Alþingis að binda hendur eða afmarka starfssvið rannsóknarnefndarinnar eða starfshópa hennar á nokkurn hátt. Hún á að hafa fullt svigrúm, fullt sjálfstæði til að fara í verkið eins og hún telur sig best geta gert þótt öllum sé að sjálfsögðu ljós sá vandi að afmarka verkefnið í þeim skilningi að það sé viðráðanlegt, það sé leysanlegt, það sé framkvæmanlegt innan einhverra hóflegra settra tímamarka.

Þá kem ég líka að því sem aðeins var tæpt á áðan af formanni allsherjarnefndar, að þetta verður umfangsmikið verk. Já, að sjálfsögðu. Þetta verður kostnaðarsamt verk. Já, að sjálfsögðu. En þar má ekki til spara. Þjóðin verður að fjárfesta í því að rannsaka þessa hluti eins vel og nokkur kostur er og það eru smáaurar mældir í stærðunum þeirra hörmunga sem undir eru ef við setjum það í það samhengi eitt augnablik.

Ég vil síðan leggja sérstaka áherslu á það sem komið er inn á bæði í breytingartillögu allsherjarnefndar, samanber staflið b í 7. tölulið breytingartillöguskjalsins, vegna þess að einhver misskilningur komst einhvers staðar á kreik um það — af því það var ekki sagt berum orðum — að ábyrgð stjórnmálamanna væri ekki undir, þ.e. ábyrgð ráðherra í skilningnum lög um ráðherraábyrgð eða ábyrgð annarra stjórnmálamanna eftir hefðbundnum skilningi.

Að sjálfsögðu var það miðlægt í frumvarpinu í hugum okkar flutningsmanna, samanber orðalag 1. mgr. 1. gr., að það var ekki síst það sem skyldi rannsaka. Þar vísa ég til orðanna að þar skuli hún, þ.e. rannsóknarnefndin, leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna og hverjir beri ábyrgð á henni. Það eru ráðherrar. Það er framkvæmdarvaldið. Um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni og hverjir kunni að bera ábyrgð á því. Nefndin telur rétt að taka það skýrt fram að hins vegar þegar kemur að hvað varðar framhald málsins þá gilda þar auðvitað lögin um ráðherraábyrgð, nokkuð roskin sem þau eru svo ég tali nú ekki um ákvæði um landsdóm sem hafa verið óvirk um áratuga-, mér liggur við að segja um aldaskeið, en þau eru þarna og því að sjálfsögðu eðlilegast að vísa til þeirra.

Í því sambandi skiptir líka máli sú lögskýring sem er að finna í nefndaráliti allsherjarnefndar og ég fagna sérstaklega þar sem talað er um undir millifyrirsögn um ráðherraábyrgð, að komist rannsóknarnefndin að því að ráðherrar hafi gert mistök eða sýnt vanrækslu í starfi samanber 1. mgr. 1. gr. skal hún gera grein fyrir því í skýrslu til Alþingis sem hefur það hlutverk að meta hvort tilefni sé til að ráðherra sæti ábyrgð við það. Þar er átt við í hinum hefðbundna skilningi laganna um ráðherraábyrgð þar sem kemur að hinni pólitísku ábyrgð þeirra á framkvæmd viðkomandi málaflokks og því að hafa eftir atvikum mögulega annaðhvort brotið af sér með beinum hætti eða hitt sem hér mundi væntanlega miklu frekar eiga við, gerst sekir um að vanrækja þær skyldur sem þeir áttu að uppfylla, þ.e. að hafa ekki aðhafst, hafandi mátt vita eða hreinlega vitað betur.

Þetta er mjög mikilvægt að sé algerlega á hreinu svo að ekki komi upp nokkur efi í framhaldinu í samfélaginu, en það er síður en svo ætlunin og var aldrei ætlunin að undanskilja þetta á einn eða neinn hátt nema síður sé, eins og ég hef áður nefnt.

Ég vil aðeins nefna aðra þætti sem snúa að tímabilinu sem undir er. Eins og gefur að lesa í 1. gr. þá er ætlunin að nefndin geti skoðað atburði eftir setningu neyðarlaganna og fylgt þeim eftir inn í samtímann eða nær okkur í honum, eftir því sem hún telur þurfa og það er mjög mikilvægt og á það leggur allsherjarnefnd ríka áherslu en það er líka alveg ljóst að nefndin verður að minnsta kosti í sumum tilvikum að fara nokkuð langt aftur, aftur á u.þ.b. miðjan áratug síðustu aldar eða jafnvel lengur, þ.e. aftur fyrir upphaf þeirra skipulagsbreytinga á fjármálamarkaði sem hér koma mjög við sögu, aftur fyrir hlutafélagavæðingu bæði fjárfestingarlánasjóða og ríkisviðskiptabanka sem seinna runnu saman með ýmsum hætti inn í það fjármálakerfi sem nú hefur hrunið ofan á hausinn á okkur.

Það er alveg ljóst að að þessu leyti þarf tímabilið sem undir er að vera nokkuð vítt. Það þarf bæði að fara nægjanlega langt aftur til þess að fara að rótum þessara mála, þar með hljóta líka vinnubrögðin við einkavæðingu bankanna og aðrir atburðir sem þar gerðust að koma í sviðsljósið á nýjan leik, sem og að fylgja málum lengra eftir en að þeim tímapunkti þegar neyðarlögin voru sett 6. október síðastliðinn.

Að síðustu eru auðvitað fjölmörg mál önnur sem er mikilvægt að farið sé vel yfir og eins og gert er í nefndarálitinu. Tímans vegna get ég ekki farið nákvæmlega yfir þau en ég vil að sjálfsögðu þakka fyrir þá umfjöllun sem þar er að finna um bæði upplýsingaskyldu fyrir nefndina og þagnarskyldu. Sömuleiðis að sjálfsögðu um réttarstöðu einstaklinga og að reynt sé að finna hina réttu línu milli þess að þrengja ekki að nefndinni og ríkum rannsóknarheimildum hennar annars vegar og hins vegar þeirri persónuvernd eða réttarvernd gagnvart einstaklingum og þeim sem við sögu koma sem að sjálfsögðu þarf líka að hafa í heiðri. Ég held síðan að við verðum að treysta því góða fólki sem þarna fær vandasamt hlutverk í hendur til að finna réttu leiðirnar.

Það er mikilvægt í mínum huga að hafa í huga að öll tilvik þar sem upp koma grunsemdir um afbrot eða refsiverða háttsemi fari sinn farveg yfir til hins sérskipaða saksóknara og ætti þar af leiðandi ekki að þurfa að valda vandkvæðum að draga þá hluti í sundur. Upplýsingarnar og gögnin verða eftir sem áður mikilvægur hluti af þeim undirstöðum sem nefndin byggir niðurstöður sínar á þó að réttarkerfið hafi tekið við þeim þætti málsins sem snýr að fullnustunni á því sviði. Þetta þarf allt að vinnast í góðu samstarfi og að lokum bind ég innilega vonir við það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að þetta starf fari hratt og vel af stað og verði farsælt og ljúki með svo myndarlegri og traustri og helst óumdeildri niðurstöðu að það auðveldi þjóðinni síðan að komast í burtu frá þessum ósköpum eftir því sem það verður (Forseti hringir.) yfir höfuð hægt og hverjar sem aðstæður okkar til þess verða svona í efnislegu tilliti síðar.